Veiði

Góðar tölur úr laxveiðiánum á liðinni viku

Karl Lúðvíksson skrifar
Norðurá er það sem af er sumri aflahæst veiðiánna
Norðurá er það sem af er sumri aflahæst veiðiánna
Laxveiðin hefur tekið vel við sér á stækkandi straum og þá sérstaklega á vesturlandi þar sem nokkrar ár stefna í gott sumar.

Veiðin í Norðurá hefur verið afskaplega góð og áin er sú fyrsta til að fara yfir 1000 laxa múrinn en það styttist þó óðum í að fleiri ár nái því marki. Blanda er komin yfir 1000 laxa líka en staðfestar tölur náðust ekki úr ánni í dag. Þverá og Kjarrá ná því líklega í næstu viku ef fram fer sem horfir og það efast síðan engin um að Rangárnar geri það ekki líka. Haffjarðará hefur skilað fínni veiði og er almennt góður gangur í henni. Sama má segja um nágranna hennar Langá en hún átti versta "fallið" í fyrra en er líka sú á sem nær bestri uppsveiflu á milli ára.

Miklar göngur hafa verið í Borgarfjarðarárnar þótt þær séu almennt seinna á ferðinni en það er þó mikill léttir hjá veiðimönnum þetta árið þegar smálaxinn mætir úr hafi, ekki bara vel haldinn heldur í góðu magni. Erfitt er að spá fyrir um framhaldið en þó sést það nokkuð vel að flestar árnar eigi eftir að eiga gott meðalár. Nokkrar árnar eru ekki ennþá komnar almennilega í gang en það verður að reikna með því að þær verði þá bara aðeins seinni til en vant er eins og með þær ár sem fóru seint af stað í sumar en blómstra nú sem aldrei fyrr.

Hér er listi yfir topp 10 árnar hjá Landssambandi Veiðifélaga. Listann í heild sinni má finna hér.

Norðurá                                       15. 7. 2015    1068    15    924

Blanda                                         15. 7. 2015    993    14    1931

Þverá + Kjarará                            15. 7. 2015    735    14    1195

Miðfjarðará                                   15. 7. 2015    649    10    1694

Ytri-Rangá & Hólsá, vesturbakki.    15. 7. 2015    502    20    3063

Langá                                          15. 7. 2015    475    12    595

Haffjarðará                                   15. 7. 2015    407    6    821

Elliðaárnar.                                   15. 7. 2015    238    6    457

Laxá í Aðaldal                               15. 7. 2015    229    18    849

Flókadalsá, Borgarf.                      15. 7. 2015    215    3    343

 





×