Lífið

Það þarf ekki alltaf að skjóta í sig einum öl til að bresta í dans

Guðrún Ansnes skrifar
Tómas segir ríkt í manneskjunni að finna taktinn og það sé einkar frelsandi að tjá sig stundum án þess að tala út í eitt.
Tómas segir ríkt í manneskjunni að finna taktinn og það sé einkar frelsandi að tjá sig stundum án þess að tala út í eitt. Mynd/Mirta Kokali
„Ég er bara búinn að vera hérna að fara fram og til baka til að reyna að koma auga á aukapláss til að koma fleirum fyrir,“ segir Tómas Ó. Eiríksson, sem stendur fyrir Yoga Moves í Hörpu í kvöld. Fyrir löngu er orðið uppselt á viðburðinn, en alls komast eitt hundrað manns fyrir á háaloftinu.

„Við erum að blanda saman jóga og tónlist, og það hefur alveg sýnt sig að innst inni langar okkur öll að dansa. Við Íslendingar höfum dálítið týnt danskúltúrnum okkar, en það er stutt í hann,“ útskýrir Tómas og bendir á að við þurfum í eðli okkar ekki að skjóta í okkur einum eða tveimur köldum áður en hægt sé að bresta í dans.

Segir Tómas Yoga Moves ekki aðeins blanda saman lifandi tónlist, jóga, dansi og hugleiðslu, heldur einnig kynslóðum. „Við höfum verið að fá til okkar fólk frá fimm ára aldri upp í sextíu og fimm ára, og allir gleyma sér í dansinum. Það er eitthvað við það að vera saman í rými, og þurfa ekki að tala. Að fá að vera bara í tengingu án þess að fylla rýmið af orðum og fá bara að vera í líkamanum. Hér tala allir sama tungumálið, en segja ekki orð.“



Fyrir þá sem ekki náðu að tryggja sér miða í Hörpu í kvöld, bendir Tómas á að Yoga Moves standi fyrir tímum á Dansverkstæðinu öll fimmtudagskvöld, þar sem vinsælustu plötusnúðar landsins líti við og spili tónlist. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á yogamoves.is.


Tengdar fréttir

Jóga fyrir alla

Margir bera fyrir sig tímaleysi en líkamsrækt þarf ekki alltaf að taka mikinn tíma. Alltaf er betra að gera eitthvað í stað þess að gera ekki neitt. Það er mikilvægt að þú setir þig í fyrsta sæti og sinnir þér.

Jógamottan er spegill sjálfsmyndar

María Dalberg fæddist í Danmörku og ólst þar upp til sex ára aldurs en þá flutti hún á Seltjarnarnes þar sem hún sleit barnsskónum. Að grunnskóla loknum lá leið hennar í Menntaskólann í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist. Snemma sótti hugur hennar að listinni og sem barn fékk hún að velja sér hljóðfæri til að læra á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×