Lífið

Ristillinn í sviðsljósinu

Lára G. Sigurðardóttir er læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins.
Lára G. Sigurðardóttir er læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins.
Í dag verður Bleiki dagurinn haldinn hátíðlegur á landinu en hann er hápunktur árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélag Íslands. Tilgangurinn er að vekja athygli á krabbameini hjá konum. Í upphafi var mánuðurinn helgaður brjóstakrabbameini en undanfarin ár hefur Krabbameinsfélagið beint athyglinni að öllum þeim krabbameinum sem greinast í konum. Í fyrra var einblínt á leghálskrabbamein og konur hvattar til þess að mæta í leghálskrabbameinsleit.

Skipuleg hópleit

Núna í ár er það krabbamein í ristli sem fær alla athyglina. „Ristilkrabbamein er eitt af þeim fáu krabbameinum sem hægt er að koma í veg fyrir með því að greina það á frumstigi,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins.

„Undanfarna mánuði hefur Krabbameinsfélagið unnið að hugmyndum til að finna góðan farveg fyrir skipulega hópleit að ristil­krabbameini hér á landi. Dr. Sunna Guðlaugsdóttir meltingarlæknir hefur leitt þá vinnu í samstarfi við landlæknis og að beiðni velferðarráðuneytis. Nýgengi ristil­krabbameins hefur aukist undan­farna áratugi en nú síðustu ár erum við farin að sjá lækkun á tíðni þessa sjúkdóms. Það má líklega þakka þeirri staðreynd að hér fer fram óskipuleg skimun að einhverju leyti. Sem dæmi, þá niðurgreiða nokkur stéttarfélög kostnað við leit að ristilkrabbameini fyrir sína félagsmenn,“ segir Lára.

Einkennin lúmsk

Ristilkrabbamein er þriðja ­algengasta dánarorsök af völdum krabbameina á Íslandi en árlega greinast að meðaltali 135 einstaklingar og 52 látast úr sjúkdómnum. Ætla má að um 2.000 Íslendingar séu nú þegar með í sér ógreint ristilkrabbamein eða sepa sem munu þróast yfir í ristilkrabbamein á næstu 10-15 árum.

Af þeim greinast um 600 með sjúkdóminn á lokastigi og um 800 munu deyja úr sjúkdómnum. „Ristilkrabbamein er einkennalaust til að byrja með en eftir því sem það stækkar geta komið fram einkenni eins og blóð í hægðum, breytingar á hægðavenjum, til dæmis niðurgangur sem varir vikum saman. Kviðverkir eða krampi sem hættir ekki auk blóðleysis, þreytu og þrekleysis,“ segir Lára.

Þessi einkenni geta verið af völdum einhvers annars en krabbameins en rétt er að leita álits læknis.

Slaufan er samfélag

Átakinu var hleypt af stokkunum fyrir 15 árum með sölu á bleiku slaufunni og hefur vaxið og dafnað með hverju árinu. Núna í ár var það gullsmiðurinn Erling Jóhannesson sem hannaði slaufuna en hann lýsir henni sem litlu samfélagi sem stendur með þér þegar á bjátar og er hann þar að tala um Krabbameinsfélagið.

Bleika slaufan er seld fyrstu tvær vikurnar í október en hægt er að kaupa slaufur fyrri ára á vefsíðunni bleikaslaufan.is. Einnig er hægt að styrkja átakið og gerast velunnari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×