Gylfi Veigar Gylfason og Tryggvi Rafn Haraldsson skrifuðu undir nýja samninga hjá ÍA í gær og framlengdu til tveggja ára.
Hinn 22 ára gamli Gylfi Veigar hefur leikið 11 leiki með ÍA á þessu tímabili en Tryggvi sem er aðeins 19 ára gamall hefur verið að fá tækifæri hjá Gunnlaugi Jónssyni í undanförnum umferðum.
Gylfi Veigar á að baki 60 leiki fyrir ÍA og skorað 1 mark en Tryggvi lék sinn 5. leik fyrir meistaraflokk ÍA í síðustu umferð. Lék hann einnig 14 leiki með 2. flokki ÍA í sumar og skoraði í þeim 11 mörk.
„Ég er ánægður með að þessir efnilegu Skagamenn séu klárir í framhaldið með okkur. Ég vænti þess að þeir spili stærra hlutverk í liðinu næsta sumar,“ sagði Gunnlaugur í samtali við vefsíðu ÍA.
