Lífið

Fimmta breiðskífa Diktu tilbúin til útgáfu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Dikta segir nýju plötuna vera þá hressustu sem sveitin hefur sent frá sér.
Hljómsveitin Dikta segir nýju plötuna vera þá hressustu sem sveitin hefur sent frá sér. mynd/Florian Trykowski.
„Við erum hoppandi skoppandi ánægðir með útkomuna,“ segir Haukur Heiðar Hauksson, söngvari, píanó- og gítarleikari hljómsveitarinnar Diktu. Sveitin er nú að ljúka við sína fimmtu breiðskífu sem enn hefur ekki fengið endanlegt nafn. Stefnt er á útgáfu plötunnar með vorinu og mun hún koma út í Þýskalandi og víðar um heim á sama tíma.

„Ég held að þessi plata sé hressari en hinar. Hún er meira svona „upbeat“ og það má greina smá sumarblæ yfir henni,“ segir Haukur Heiðar spurður út í stíl plötunnar.

Hún var tekin upp í þremur lotum og er að stórum hluta hljóðrituð í Þýskalandi, hjá upptökustjóranum Sky van Hoff. „Við tókum upp tvö lög árið 2013 hjá honum og fórum svo aftur út til hans síðasta sumar og vorum þar í hálfan mánuð. Hann kom svo til Íslands í nóvember og var hérna í mánuð og við kláruðum plötuna,“ útskýrir Haukur Heiðar.

Hann segir sveitina hafa uppgötvað hversu mikilvægt það sé að vinna með upptökustjóra á nýjan leik, því hún hefur ekki unnið með slíkum á síðustu tveimur plötum. „Það var mjög gott að vinna aftur með upptökustjóra. Við unnum með Ace úr Skunk Anansie þegar við tókum upp plötuna Hunting for Happiness og lærðum mjög mikið af honum. Á síðustu tveimur plötum höfum við gert þetta alveg sjálfir og vorum komnir í ákveðinn þægindaramma. Það er frábært að fá upptökustjóra aftur.“

Dikta gaf síðast út lagið Talking árið 2013 en það lag ratar inn á plötuna. „Lagið kom hvergi út nema á netinu en það verður á plötunni. Fyrsti alvöru singullinn kemur út núna á næstu dögum, hann er að mjakast inn á útvarpsstöðvarnar,“ bætir Haukur Heiðar við, sem var önnum kafinn við búa sig undir úrslitakvöldið í Eurovision þegar blaðamaður náði tali af honum. „Það er mikil tilhlökkun fyrir kvöldinu.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×