Fylkir tekur á móti Stjörnunni í undanúrslitum Borgunarbikarsins í kvöld en Stjörnukonur eru ríkjandi bikarmeistarar eftir 4-0 sigur á Selfossi í úrslitaleiknum í fyrra.
Óhætt er að segja að ríkjandi Íslands- og bikarmeistararnir séu sigurstranglegri en Stjarnan hefur unnið báða leiki liðanna á þessu tímabili sannfærandi, 4-0.
Í seinni leiknum, sem fór fram á mánudaginn, skoraði Francielle Manoel Alberto, brasilísk landsliðskona sem er nýgengin í raðir meistaranna, þrennu, í sínum fyrsta leik fyrir Stjörnuna.
Fylkiskonur hafa verið á fínni siglingu að undanförnu en fyrir tapleikinn gegn Stjörnunni voru þær búnar að vinna fjóra deildarleiki í röð. Fylkir er þriðja árið í röð í undanúrslitum bikarsins en Árbæjarliðið hefur aldrei komist í bikarúrslitaleikinn.
Litlu mátti muna í fyrra er Fylkiskonur töpuðu fyrir Selfossi í vítaspyrnukeppni en þær eru eflaust staðráðnar í að komast í fyrsta sinn á Laugardalsvöll.
Hægt verður að fylgjast leik Fylkis og Stjörnunnar í beinni textalýsingu á Vísi.
Bikarmeistararnir mæta í Árbæinn
Kristinn Páll Teitsson skrifar

Mest lesið






Rikki G ærðist þegar Hákon skoraði
Fótbolti




„Þér að kenna ef við vinnum ekki deildina“
Enski boltinn