– „Uhhh, já.“
– „Já, hvað?“
– „Þetta þarna sem þú sagðirðu síðast. Úrb, þarna. Hvað sagðirðu?“
Íslendingar eru ákafamenn í því sem þeir taka sér fyrir hendur, dellufólk upp til hópa. Eftir rysjótta tíð undanfarin tvö sumur hefur sólin sýnt sig á suðvesturhorninu og þá brýst útivistaráhuginn út. af öllu afli. Nánast tvöfalt fleiri sólarstundir voru á tímabilinu 1. júní til og með 19. júlí í ár miðað við á sama tíma í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá Trausta Jónssyni veðurfræðingi voru þær 305 í ár en 163 á sama tímabili í fyrra.
Í (gonzo)greinaflokki Vísis hefur verið reynt að þreifa á því helsta sem snýr að útivist og lífstílstengdum áhugamálum landsmanna; golfi, veiði, fjallgöngu ... þá verður ekki hjá því komist að beina sjónum að reiðhjólaæðinu sem ríkir í Reykjavík. Nánast einu kynni þess sem hér skrifar af reiðhjólum undanfarin 35 ár lýsa sér í því að bölsótast út í þessa spandex-klædda reiðhjólafugla sem eru að flækjast fyrir almennilegum ökumönnum í umferðinni. En, hann varð að éta rækilega ofan í sig fordóma sína gagnvart þessu sporti. Að hjóla er margfalt skemmtilegra en hann hafði getað ímyndað sér. Það er eiginlega bara algjört æði.
Hjólatúrinn undirbúinn
Fyrsta sem blaðamanni datt í hug, þegar þessi hugmynd kom upp, var að hringja í leikarann Stein Ármann, vin sinn til margra ára. Steinn var farinn að hjóla löngu áður en brast á með hjólaæðinu, og þótti reyndar, á sínum tíma, stórskrítinn þegar hann var að hjóla milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Steinn Ármann hefur fengist við það undanfarin fimm ár eða svo að vera leiðsögumaður í hjólatúrum. Og hann tók vel í það að lóðsa blaðamann um hjólamennskuna sem er heill heimur út af fyrir sig – og margþættur.
Brjálæðið í kringum 2007
Næsta skref var að hringja í Örninn. En, ekki hvað? Blaðamaður fletti upp í stopulu minni sínu og rifjaði upp þegar hann var og hét sem ungur maður á þriggja gíra Phillips-hjólinu sínu. Góðir dagar. Það var einmitt keypt í Erninum enda hefur Örninn rekið reiðhjólaverslun í 90 ár. Jón Pétur Jónsson er potturinn og pannan hjá Erninum og hann sagði að það væri ekkert mál að lána blaðamanninum hjól til fararinnar. Samhliða reiðhjólaversluninni í Faxafeni er rekin hjólaleiga.

„Barómetrinn sem við notum eru hversu mikið er flutt inn af hjólum,“ segir Jón Pétur. Toppurinn var á árunum 2006 til 2007, í hjólamennsku sem öðru, þá voru um það bil 30 þúsund hjól flutt inn. Jón Pétur segir það rugl og hann viti ekki enn hvaða djöfulgangur hljóp í þjóðina á þessum tíma.
Hjólin orðin dýrari
Nú er þetta í meira jafnvægi og þannig vilja menn hafa það. „Í fyrra voru flutt inn 15.800 hjól. Og færri í ár. En, þrátt fyrir það erum meiri verðmæti í þessu núna. Menn eru að pæla meira í þessu,“ segir Jón Pétur. Hjólin sem menn voru að kaupa árið 2007 voru almennt á verðbilinu 60 til 70 þúsund. „Nú er kannski mesta trendið í sölu hjóla sem kosta 150 þúsund uppí kannski 500 þúsund,“ segir Jón Pétur. Ákveðin bylting varð þegar Trek-fyrirtækið kom fram með Carbon Fiber-hjólin, sem eru miklu léttari en áður hafði þekkst. Jón Pétur gerir fastlega ráð fyrir því að næsta bylting, og hún sé handan horns, séu rafmagnshjól. Batteríin séu orðin miklu betri, léttari og endingarbetri en áður hefur þekkst.

Hjólahópur settur saman
Þó fyrirlestur Jóns Péturs væri greinargóður var blaðamaður orðinn fremur ruglaður í ríminu, og reyndar orðinn dauðstressaður. Út í hvað var hann búinn að koma sér?
Nema, Steinn Ármann var til í slaginn og þá var næsta skref að finna einhverja til að hjóla með sér. Böndin beindust fljótlega að Lukku Pálsdóttur, sem á og rekur hinn vinsæla heilsuveitingastað Happ við Höfðatorg. Blaðamaður komst að því að hjólafólk kemur gjarnan saman í Garðskálanum við Höfðatorg hjá Happ, Lukka segir þetta að verða sem Mekka hjólreiðamannsins því þar sé hægt að hafa hjólin með sér og þar mætast heilsusamlegt kaffihús Happ og Bjórgarðurinn hinum megin. „Þarna komum við gjarnan saman vinirnir, og það má hafa hjólin með sér; fólk hugsar um hjólin sín eins og börnin sín, vill ekki skilja þau við sig.“

Lukka er forfallinn hjólari, (eins og það heitir á því lingói sem við hjólafólkið notum um okkur sjálf), og til allrar lukku kom Lukka því við, þrátt fyrir annir, að fara einn hjólahring með blaðamanni, ásamt vinkonum sínum og hjólafélögum þeim Lovísu Stefánsdóttur, rekstrarstjóra hjá Happ og Þóru Stefánsdóttur flugfreyju hjá Iceland Air. „Já, það er gaman að hjóla,“ segir Lukka. „Við fullorðna fólkið gerum nefnilega allt of lítið af því að fara út að leika.“ Og blaðamaður átti eftir að komast að því að það er einmitt heila málið.
Það var sem sagt búið að mynda góðan hóp um þessa rannsókn, þetta gat ekki betra verið en það var farið að fara verulega um blaðamann. Hann hafði ekki stigið á reiðhjól svo mikið sem í liðlega þrjátíu ár.
Græjudella
Steinn fylgdi blaðamanninum í Örninn, lét taka til hentugt hjól á hjólaleigunni. Og gætti þess, sem betur fer og Guði sé lof, að láta púða á hnakkinn. Og hóf fyrirlestur um muninn á racer-hjóli, fjallahjóli og svo götuhjóli. Og mismunandi göflum, dempurum, pedölum, skóm... þar til allt var farið að hringsnúast í kolli blaðamannsins: Hjól er ekki bara hjól. Dekk af öllum stærðum og gerðum, lásar, keðjur... Þetta var ekki eins og í gamla daga, þegar maður steig á hjólið og fór af stað.

Anna Kristín Ásbjörnsdóttir í Erninum tók að sér að búa blaðamanninn út með vindjakka í æpandi gulum lit, hanska og hjálm. Og sem dæmi, þá er sitt hvað, hjálmur og hjálmur. Það var hægt að kaupa hjálm á 30 þúsund krónur. Í raun er léttilega hægt að eyða milljónum í að gíra sig upp. Þarna mátti til að mynda sjá hjól á gólfinu sem kostaði 900 þúsund krónur. En, kannski eins gott að vita hvað maður er að fara að gera áður en maður fer að opna veskið, og það er yfirleitt sorglega eyðilegt um að litast í veskjum blaðamanna.
Leynilegur leiðangur í Fossvogsdal
Þegar búið var að búa blaðamanninn út var hjólað í Skaftahlíðina þar sem til stóð að hitta Lukku og hennar vinkonur. Vinnufélagarnir brustu í hlátur; þetta rímaði ekki vel við hina óheilnæmu ímynd blaðamannsins. Og, Steinn spurði blaðamanninn hvort hann hefði ekki örugglega sagt væntanlegum hjólafélögum að þetta væri urban, borgarhjólaferð, ekki fjalla- eða raiser? En, blaðamaðurinn skildi ekki einu sinni spurninguna. Þegar við hittum svo Lukku, Lovísu og Þóru rumdi í Steini: „Já, eins og ég vissi. Þær eru allar á racerum.“

Svo var ferðin lögð upp. Steinn var sjálfkjörinn leiðangursstjóri og leiddi hópinn um leynistíga, frá Skaftahlíð og niður í Fossvogsdalinn. Ekki leið á löngu þar til barnslegur og spennandi þanki gerði vart við sig; þetta var eins og einhver leynileiðangur.
Eins og að læra að hjóla
Sannleikur er í orðatiltækinu, þetta er eins og að læra að hjóla... það gekk furðu vel að ná tökum á tækninni. Yfirferðin sem ná má á hjóli kom verulega á óvart. Í gegnum Fossvogsdal, sem er algjör paradís, var farið upp í Elliðaárdalinn. Eftir einn sprettinn, þar sem farið var verulega hratt, þá spurði blaðamaður stelpurnar, titrandi röddu og tókst illa að leyna tilgangi spurningarinnar; hvort þær hafi aldrei dottið illa? En, þær könnuðust ekkert við neitt slík. Jæja. Kannski að maður myndi sleppa lifandi frá þessu. Nema, með þessum hætti má sjá staði sem maður hefur aldrei séð áður, frá öðru sjónarhorni. Daglegt líf í borginni sem maður hafði ekki komist í snertingu við lengi.

Lærvöðvarnir fá að finna fyrir því
Við Elliðaárnar var áð og það var þá þegar Steinn Ármann tilkynnti að „... vegna greinar Jakobs (ha?) þá væri réttast að hópurinn væri upp í Grafarvog. Þar væri stórkostlegt útsýni yfir Reykjavík.“ Núnú. Hjólaforinginn ætlaði ekki að sleppa nýgræðingnum frá þessu of létt.
Vegna greinar Jakobs? Var þetta ekki bara orðið ágætt? Nú fór hjólamennskan að taka verulega á, og yfirburðir hinna vönu komu í ljós, þegar stelpurnar rúlluðu léttilega fram úr blaðamanninum sem kreisti allt afl sem fáanlegt var úr lærvöðvunum til að komast áfram, þá fór gamanið að grána. En, þetta er auðvitað snar þáttur í þessu æði; líkamsræktin sem í því felst að hjóla. Með ástundun öðlast menn hið eftirsóknarverða vaxtarlag sem kallað er í sumum bókum kúlurass. Já, hví ekki það?
Steinn hafði reyndar skipað svo fyrir um að skipt yrði niður um gíra áður en lagt væri á brekkuna. En, það tókst eitthvað illa til hjá óvönum hjólaranum. Og endaði með því að keðjan lak af tannhjólinu. Þá sýndi Steinn myndugleik sinn sem leiðangsstjóri og hundskammaði blaðamanninn fyrir aulaskap við hjólamennskuna. „Þú ert í léttasta að framan og þyngsta að aftan. Hvað á þetta að þýða, eiginlega?“
Hjólatúr með öllu
En, ferðin uppí Grafarvog reyndist þess virði. Lovísa var sú eina sem hafði samúð með blaðamanninum, enda var hún nýkomin frá því að hlaupa Laugaveginn. Lukka sagði að auðvitað væri þetta þjálfun, en þetta væri líka spurning um hvernig menn beittu sér og hjólinu.
Þetta var hjólatúr með öllu; hjólað var um jarðarför við Grafarvogskirkju og svo var brekkan niður með sjávarsíðunni skemmtileg með ómótstæðilegt útsýni. Við stöldruðum við brúna hjá Geirsnefi og veltum fyrir okkur hvað hefði eiginlega fengið þann snarvitlausa mann til þess verknaðar fyrir fáeinum árum að strengja vír þar yfir með þeim afleiðingum að hjólreiðamaður fór svo með hjólið sitt þar í á fleygiferð. Enn verr hefði getað farið ef um hefði verið að ræða krakka á lægra hjóli, fólk vill ekki hugsa þá hugsun til enda.
Víða var stöðvað og farið yfir eitt og annað sem snýr að hjólamennskunni. Og Steinn Ármann var í essinu sínu og sagði sögur að hætti hússins. Hann hefur farið með fjölda hópa, misstóra, allt upp í fjörutíu manna hópa hjólandi um Reykjavík – og mestan part eru þetta útlendingar.
Þjóðir greindir út frá hjólagetu
„Ameríkanar eru oft lélegir að hjóla,“ lýsir Steinn yfir. „Þeir halda fast í þá mýtu að hafi maður eitt sinn lært að hjóla, þá kunni maður það. Þetta er kolrangt. Menn steingleyma því og missa jafnvægið með aldrinum,“ segir leiðangursstjórinn miskunnarlaus. „Evrópumenn eru áberandi betri hjólamenn og ég myndi setja Hollendinga í efsta sæti,“ segir Steinn sem sjálfur hefur hjólað um allt Þýskaland. „Ég fór með Kínverja einu sinni og þeir komu furðanlega illa út. Og kvörtuðu sáran undan því að fá ekki nógu lítil hjól. Þar sem þeir gætu helst setið í hnakknum og staðið með báða fætur á jörðinni. Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að þeir væru ekki á mótorhjóli og þeir þyrftu að geta rétt úr fætinum til að fá rétt átak á fótstigið. Þetta gátu þeir ekki skilið. Þeir vildu vera eins og froskar með hnén uppundir höku.“

Og, Steinn segir rétt sem sagt er um Skota, þeir séu nískir og það hefur aldrei gerst að hann hafi fengð þjórfé frá þeim. „Og Þjóðverjar eru stundvísir og ekki með neitt múður. Íslendingar eru stórskemmtilegir og gott við þá að eiga. Eina er að þeir eru oft helst til kjaftagleiðir og hlusta ekki á leiðsögumanninn þegar hann er að tala og líka á hjólunum, þeir vilja hjóla margir saman hlið við hlið, teppa umferð á eftir og á móti og gleyma sér við kjafthátt.“
Skyndilega sljákkar í leiðsögumanninum, eins og hann telji sig hafa farið offari í sleggjudómum og alhæfingum um hinar ýmsu þjóðir á hæpnum forsendum. Og bætir við: „En, allt er þetta ágætis fólk.“
Fékk bakteríuna fyrir rúmu ári
Þóra segist hjóla þrisvar til fjórum sinnum með vinkonum sínum í viku, það fer eftir veðri og fer hún einmitt hringi um Reykjavík og svo heim í Garðabæinn þar sem hún býr. Lukka segir að hún sé í mörgum hjólahópum og næst á dagskrá sé að fara að taka þátt í reiðhjólakeppni. Og, blaðamanni til furðu, eru ótal reiðhjólakeppnir af öllu tagi í boði reglulega.

Bannað að hætta að leika sér
Að fara um á hjóli veitir alveg glænýja sýn á umhverfið, mikið návígi en samt býður það að vera á hjóli upp á mikla yfirferð; og þar með nýjar myndir. Lukka segist alla tíð hafa verið talsvert í íþróttum og þegar fólk er komið yfir ákveðinn aldur fara hné og annað að gefa sig.
„Ég held að það sé ekki síst það sem þessi aldurhópur er að leita í, fólk sem er vant að vera í góðu formi og úthaldssporti, að færa sig úr hörðum höggum sem fylgja hlaupum og yfir í að hjóla sem fer betur með skrokkinn. Svo er meiri leikur í þessu en að skokka, maður er að fara út að leika, hitta hina krakkana. Við megum ekki hætta að leika okkur. Svipað og fólk fær út úr skíðunum. Hraði og action.“
Þetta reyndist alveg sérstaklega ánægjuleg reiðhjólaferð. Farnir voru um tuttugu kílómetrar og hraðast á um 40 kílómetra hraða. Blaðamaðurinn er þetta nálægt því að bæta enn einu áhugamálinu á dagskrá, bæta því við veiðimennskuna, golfið og hundinn, enn einni dellunni. Og er byrjaður að safna.