Lífið

Var orðinn dagdrykkjumaður

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Steinn Ármann segir líf sitt hafa stjórnast af áfengisneyslu sinni. Það hafi allt snúist um hvenær hann gæti fengið sér í glas og allt hitt hafi verið aukaatriði.
Steinn Ármann segir líf sitt hafa stjórnast af áfengisneyslu sinni. Það hafi allt snúist um hvenær hann gæti fengið sér í glas og allt hitt hafi verið aukaatriði. Fréttablaðið/Stefán
„Ég er eiginlega orðinn svona skrítni karlinn á hjólinu, ég hjóla allt sem ég fer“ segir Steinn Ármann hlæjandi þegar við hittumst á Súfistanum í Hafnarfirði rétt fyrir hádegi í miðri viku. Það er vel við hæfi að hittast í hjarta Hafnarfjarðar enda hefur hann búið hér í firðinum nánast alla sína ævi. Hann kom til fundarins á hjóli og er íklæddur hjólaklæðnaði með buff um hálsinn. Hreystin holdi klædd myndu einhverjir segja og kannski viðeigandi þar sem á undanförnu ári hefur líf hans tekið miklum breytingum. Hann er töluvert betur á sig kominn í dag en hann var á svipuðum tíma fyrir ári.

Þann 10. september í fyrra setti hann nefnilega tappann í flöskuna og kvaddi Bakkus, samferðarmann til margra ára. Þá hafði hann fyrir löngu gert sér grein fyrir því að áfengisneyslan stjórnaði lífi hans en sjálfsblekkingin var sterk. „Þetta hafði auðvitað mikil áhrif. Ég fékk lítið að gera. Ég hélt ég væri að fela þetta en ég var dagdrykkjumaður, það var mitt mynstur,“ segir hann. „Þetta er helvíti lúmskur sjúkdómur og maður er ansi góður að ljúga að sér. Þessi fræga mýta ég ætla að hætta að drekka á morgun. Menn lifa ansi lengi á því.“

Áfengið var númer eitt og allt hitt kom á eftir. „Ég hugsaði ekki um neitt annað en hvenær ég gæti fengið mér í glas næst. Þetta er bara þessi klassíska saga sem er alveg sönn, ég faldi vín út um allt. Ég laug og var óheiðarlegur. Svo einangrast maður og það var eiginlega ekkert orðið að gera hjá mér,“ segir hann og heldur áfram: „Undir það síðasta var ég farinn að reyna stjórna þessu, stjórna magninu og ef ég þurfti að gera eitthvað, að reyna mæta ódrukkinn eða þunnur, sem getur nú stundum verið verra þegar maður er svona langt leiddur, þynnkan var orðin alveg skelfileg. Ég fékk líka alveg ofboðsleg fráhvörf. Þá var bara beðið eftir því að klára þetta verkefni sem ég var að gera svo bara beint í Ríkið að kaupa sér nokkra bjóra.“

Steinn Ármann og Davíð Þór þegar þeir voru með vinsælan þátt á Aðalstöðinni. Fréttablaðið/Stefán
Praktísk ákvörðun að verða leikari

Steinn Ármann er einn þekktasti grínisti landsins og á að baki langan feril sem leikari og skemmtikraftur. Um tvítugt lá leiðin í Leiklistarskólann en þó eiginlega fyrir hálfgerða tilviljun.

„Þetta var mjög praktísk ákvörðun. Ég vissi að ég gæti þetta, þetta væri svona þægileg innivinna. Ég hafði hrökklast úr Flensborg, átti tvo áfanga eftir en samt búinn með tíu annir. Það var spurning á þessum tíma annað hvort að fara í Leiklistarskólann eða verða smiður en ég var alltaf með annan fótinn í smíðinni frá 16 ára aldri. Ég sá síðan auglýsingu frá Leiklistarskólanum og ákvað að sækja um.“

Steinn hafði þá leikið í leikritum í Flensborg auk þess sem vinirnir úr Hafnarfirði með þeim Davíð Þór Jónssyni fremstum í flokki, höfðu gert stuttmyndir. „Ein myndin sem við gerðum fékk gullverðlaun á samnorrænni kvikmyndahátíð. Við vorum fyrstu Íslendingarnir til þess að fá gullverðlaun í kvikmyndagerð, það er aldrei minnst á það,“ segir hann hlæjandi. Hann hafði einnig leikið í leikritum í Flensborg.

Árin í Leiklistarskólanum voru strembin en skemmtileg. „Stundum var ég rétt að ná síðasta strætó heim í Hafnarfjörðinn. Við vorum oft langt fram á kvöld í skólanum og lærðum mikið.“

Steinn útskrifaðist úr skólanum árið 1989. Eftir útskrift fór hann fljótlega út í skemmtanabransann en var lítið í leikhúsunum. „Það var þannig að ég fékk ekki sem ég vildi og vildi ekki þegar ég fékk. Fyrst langaði mig ofboðslega mikið að vera í Þjóðleikhúsinu. Fékk nokkur tækifæri þar en ekki fastráðningu. Var í Spaugstofusýningu, svo í Gleðispilinu, var með hlutverk hjá Guðjóni Petersen í Rómeo og Júlíu. Ég vandaði mig alveg ofboðslega. Kunni textann langfyrstur af öllum, ætlaði að leika í Þjóðleikhúsinu en það gekk ekki og ég fékk ekki fastráðningu.“

Brjálað að gera í skemmtibransanum

Á þessum tíma var hann einnig að vinna í leikmunadeild Sjónvarpsins og var farinn að vera með uppistand, einn þeirra fyrstu hérlendis. Fljótlega naut hann mikilla vinsælda. „Ég var byrjaður að vera með uppistand svona í anda Eddie Murphy og fleiri góðra. Mér var svo boðið að vera með útvarpsþátt á Aðalstöðinni. Ég fékk Davíð Þór með mér í það líka og þá varð til útvarpsþátturinn Radíus sem gekk í 3-4 ár og var óskilgetið foreldri Górillunnar sem var morgunþáttur á Aðalstöðinni og X-inu. Þetta var svona útvarpstímabilið og þá hafði ég engan áhuga á að vera í leikhúsinu.“



Steinn segir mikilvægt að vera jákvæður til þess að halda sér edrú. Eftir hann hætti að drekka fór hann að hreyfa sig mikið meira en áður og lítur lífið öðrum augum í dag. Fréttablaðið/Stefán
Þeir Davíð Þór voru vinsælir og milli þess sem þeir stýrðu útvarpsþættinum skemmtu þeir um helgar. „Á þessum tíma var mikil þörf á endurnýjum í þessum bransa. Við vorum hálfpartinn frumkvöðlar í þessu. Dónalegri og kjaftforari en áður hafði tíðkast. Það var ekki um auðugan garð að gresja í þessu gríni þannig að það varð alveg ofboðslega mikið að gera hjá okkur. Í dag hefur þetta breyst. Það er orðið jafnvel smá vesen að koma sér inn í þennan bransa. Nú kemur einhver nýr fram og allir vilja hann. Þetta er svo fljótt að breytast. “

Skemmtanabransinn tók sinn toll.„Þetta tók svolítið á mig. Ég gerði þetta líka svolítið vitlaust, þetta fór illa með okkur báða, við enduðum báðir í meðferð. Bæði var það vinnutíminn og síðan var maður alltaf innan um fólk sem var að skemmta sér og yfirleitt með áfengi. Og við báðir veikir fyrir því. Davíð drullaði sér nú mun fyrr en ég í meðferð. Ég þrjóskaðist við það lengi. Þegar við vorum að skemmta vorum við alltaf með hátt borð nálægt mæknum þar sem við vorum með bjór. Vorum bara fullir, rifum kjaft og fannst það voða flott en það er kannski flott þegar maður er 28 ára en ekki fimmtugur. Og alveg hættur að ráða við þetta. Þetta er mjög skrítinn sjúkdómur,“ segir hann.

Eftir að það fór að róast hjá Steini í uppistandinu fór hann að talsetja teiknimyndir og skellti sér í Leiðsögumannaskólann en vann alltaf við smíðar líka þangað til eftir hrun. Í dag hjólar hann um borgina með ferðamenn milli þess sem hann talsetur teiknimyndir.

„Ég útskrifaðist úr Leiðsöguskólanum í Kópavogi árið 2010. Ég er mest á sumrin að hjóla með fólk og blanda þessu svolítið saman, uppistandi og leiðsögn. Það eru mörg tækifæri þarna með öllum þessum fjölda ferðamanna.“ Oft hjólar hann upp í 100 kílómetra á dag. „Þetta er bara minn ferðamáti. Þegar maður er kominn í form þá er þetta ekkert mál. Til hvers að vera á bíl þegar maður getur hjólað,“ segir Steinn sem hjólar milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur í nánast öllum veðrum. „Á góðum degi þá er ég kannski hálftíma -45 mínútur að hjóla til Reykjavíkur. En ef það er snjór og norðanátt og svona getur þetta farið upp í klukkutímann.“

Steinn er mikill hestamaður en þurfti að hætta í hestamennskunni því hann hafði ekki lengur efni á því að sinna því áhugamáli sínu.
Sjálfsblekkingin öflug

Eins og áður sagði urðu kaflaskil í lífi Steins þegar hann hætti að drekka fyrir rúmu ári. Þetta var ekki fyrsta tilraunin sem hann gerði til þess. „Ég gerði tilraun 2011, þá fór ég voða vitlaust í þetta og leið mjög illa þann tíma sem ég var edrú. Þá fór ég á Vog í 10 daga og ekkert meir. En í fyrrahaust fór ég á Voginn og svo á Staðarfell. Alvörumeðferðin var þarna á Staðarfelli. Að vera þarna í haustlitunum var mjög gott og endurnærandi. Þetta er ofboðslega fallegur staður og sjarmerandi.“

Hann segir drykkjuna hafa tekið yfir líf sitt og allt annað kom á eftir en því hafi hann ekki áttað sig á. „Sjálfsblekkingin er svo öflug. Maður er bara helsjúkur. Svo koma tímar sem maður viðurkennir þetta og þá er mikið vonleysi, samviskubit yfir því sem þú ert búinn að gera öðrum. Menn segja oft að þetta komi engum við, þetta er bara ég, en þetta er ekki þannig. Það eiga allir einhverja fjölskyldu og vini og þeir þjást út af þessu. Og þá kemur upp hjá alkóhólistum svona sjálfsvorkunn og sjálfsmorðshugleiðingar,“ segir hann og viðurkennir að hafa sjálfur verið þannig þenkjandi á tímabili.

„Ég hugsaði hvernig ég gæti gert þetta frekar sársaukalaust og á auðveldan hátt. Ég fann nú aldrei neina lausn á því en maður var svona aðeins að vorkenna sér og íhuga það.“ Hann segir mikla orku og einbeitingu hafa farið í drykkjuna.

Líf hans breyttist mikið þegar hann hætti að drekka. „Fyrst urðu alveg stórkostlegar breytingar. Ég gerði svona prógramm fyrir daginn. Skipti deginum í þrennt, vinna einn þriðji, áhugamál einn þriðji og svo hvíld einn þriðji. Og fór svona frekar rólega í gang vinnulega séð en var þó alltaf að lesa inn á teiknimyndir sem ég er enn að gera. Þannig að ég fór að hreyfa mig rosalega mikið og það gerði mér mjög gott. Ég byrjaði á Staðarfelli að labba mjög mikið og þegar ég kom í bæinn fór ég að synda, labba og hjóla mikið. Svo fóru bara góðir hlutir að gerast. Ég fékk þetta hlutverk í Þjóðleikhúsinu. Mér fannst það æði og það gekk mjög vel,“ segir hann og á þar við hlutverk í Fjalla-Eyvindi.

Steinn og Jenný á brúðkaupsdaginn.
Steinn hafði lengi vitað að hann þyrfti að hætta drekka. „Það var búið að segja mér það og ég vissi það. Það var búið að vera aftast í huga mér að þetta gengi ekki. Ég væri bara að drepa mig. Þegar læknirinn á Vogi var að útskrifa mig, spurði hann mig hvað ég væri gamall, ég sagði honum það og þá sagði hann að þetta væri akkúrat rétti tíminn fyrir mig til að hætta því ég væri ekki kominn með neinar lifrarskemmdir eða skemmdir í brisið. Verandi á þessum aldri og ef ég hefði haldið svona áfram þá hefði brisið farið að gefa sig og lifrin farið að kvarta.“

Lítur þú hlutina öðruvísi í dag? „Já og nei. Lífið breytist í raun og veru ekkert. Þú getur breytt sjálfum þér en ekki öllum hinum. Þú getur bara breytt því hvernig þú sérð hlutina. Svo er endalaus barátta við að vera ekki neikvæður, vera jákvæður, hamingjusamur og frjáls. Allir þessir frasar. En það er voða auðvelt að detta í það að vera neikvæður og allir eru á móti manni. Þá verður maður bitur og ef maður leyfir þessu að þróast þá er það bara komið í það að þú ert bara fallinn aftur. Maður verður að fara á fundi, vinna prógrammið sitt og vera jákvæður.“

Steinn segir stutt í þessar svokölluðu glansmyndir af áfengisneyslu og auðvelt sé að selja sér að það sé nú í lagi að fá sér einn kaldan. „Ég kalla þetta áfengisauglýsingar þar sem þetta lítur allt voða vel út. Í mínu tilfelli var það ekki þannig. Ég var bara einhvers staðar á fatlaða klósettinu að þamba tvo, þrjá. Einangraður á subbulegum stöðum. Það sem gerist síðan svo oft, og gerðist með mig, að ég fór að hætta hugsa vel um mig, fór sjaldan í bað og burstaði sjaldan í mér tennurnar. Ég var alveg kominn þangað. Ég var farinn að skoða ruslatunnugeymslur og var bara farinn að íhuga að verða útigangsmaður. Hið rómantíska líf, sofa bara úti og því fylgdi engin ábyrgð,“ segir hann og hristir hausinn.

„Ef maður myndi eyða jafn miklum tíma í það bara að vera edrú og í prógrammi og hjálpa öðrum eins og maður eyddi miklum tíma í það að vera fullur eða bara hvað sem er, gæti maður gert alveg stórkostlega hluti. Það sem það fór mikil orka og einbeiting bara í þetta. Allt annað var látið sitja á hakanum og var bara aukaatriði. Áhugamálin og allt hitt. Ég var til dæmis í hestum en þurfti að hætta því vegna þess að ég hafði ekki efni á því lengur, ég fékk ekkert að gera.“

Steinn segist fullviss um að drykkjan hafi haft áhrif á það að hann hafi lítið fengið að gera í leiklistinni. „Já, alveg pottþétt. Góð vinkona mín sagði að ég væri búinn að brenna svo margar brýr að baki mér, og það er pottþétt rétt þó að ég hafi verið móðgaður þegar hún sagði þetta. Ég held það hafi verið aðallega þannig að það hafi verið lykt af mér í leikhúsinu þá sjaldan sem ég fékk hlutverk þar. Fólk treysti mér ekki. Er hann fullur eða ekki fullur? Fólk getur ekki treyst þér. Það er ekki endilega hvort þú ert leiðinlegur með víni sem var ekkert endilega í mínu tilfelli, en það er þetta að geta ekki treyst. Það er málið.“

Hann segir drykkjuna auðvitað hafa litað fjölskyldulífið en Steinn er giftur Jennýju Berglindi Rúnarsdóttur og saman eiga þau tvo syni, Huga 21 árs og Tuma, 23 ára. „Maður gerir sér ekki grein fyrir því en getur séð það svona eftir á. Þetta er ekkert gott líf ef pabbi manns er alltaf undir áhrifum. Ekkert að delera beint en ef maður er ekki á staðnum. Ég veit alveg sjálfur að ég hef alltaf verið hálfhræddur við fullt fólk ef ég er sjálfur edrú, þá finnst mér frekar óþægilegt að umgangast fullt fólk. Og það er þetta með traustið að geta aldrei treyst.“

Sjálfur ólst hann ekki upp við alkóhólisma. Áfall í fjölskyldunni litaði samt uppvöxt hans að einhverju leyti. „Það var bandarískur sálfræðingur sem var að segja um daginn að áföll skiptu miklu meira máli þegar kæmi að þessu. Það var áfall í minni fjölskyldu. Bróðir minn yngsti lenti í bílslysi með foreldrum mínum. Það voru engin bílbelti á þessum tíma, hvað þá barnabílstólar. Hann var fjögurra og slasaðist mjög illa. Fékk mikinn heilaskaða, mænuskaða og var bara í rúminu í sextán ár eða þangað til hann dó tvítugur.“ Móðir hans hugsaði um bróður hans nánast allan þann tíma en sjálf slasaðist hún í bílslysinu. „Mamma var frekar ströng við okkur fyrir þetta og fylgdist vel með ef við vorum ekki að læra heima og svona en þarna svona losnaði kannski aðeins um. Þetta gæti líka spilað inn í. Maður veit það ekki. Við bræðurnir eldri erum báðir búnir að fara í meðferð. Hann hefur verið edrú í næstum 20 ár.“



Steinn Ármann Magnússon


Allt hægt með jákvæðni

Steinn lítur framtíðina björtum augum og það sé nóg af tækifærum fram undan. „Það er hægt að gera allan fjandann ef maður er jákvæður.“ Hann segist gjarnan vilja leika meira í leikhúsunum. „Ég spjallaði við báða leikhússtjórana í vor og það hefur greinilega ekki fundist pláss fyrir mig. Sem er allt í lagi, það opnast einhverjar aðrar dyr. Skemmtibransinn er að byrja og ég tek það allt öðrum tökum í dag,“ segir hann og heldur áfram.

„Núna skemmti ég bara og fer. Ég þarf ekki að vera allan tímann í partíinu og drekka með fólkinu,“ segir hann kankvís.

Hann segir mörg tækifæri liggja í ferðamannabransanum. „Ég viðurkenni alveg að ég lét það aðeins draga mig niður að vera ekki í leikhúsinu í vetur. Ég leyfði mér að fara að kenna öllum öðrum um. Fíflunum fór að fjölga. En þetta er bara spurning um að vera jákvæður, það er svo margt sem maður getur gert. Ég er aðeins að byrja að vera veislustjóri og skemmtikraftur aftur. Og ég blanda því líka saman að vera leiðsögumaður og skemmtikraftur. Það er fullt af tækifærum og hægt að gera svo margt,“ segir hann.

„Ég væri líka til í að gera uppistandssýningu. Við höfum reynt að endurvekja Radíusbræður en við dræmar undirtektir. Við gerðum þau mistök að hafa þetta ekki bara sýningu og jafnvel í leikhúsi. Það er aldrei að vita nema maður láti verða af því núna,“ segir hann.

„Svo geng ég alltaf með bíómynd í maganum. Ég er með hugmynd sem mig langar að gera. Ég kann þetta þó að tæknin hafi breyst, það er aldrei að vita nema maður láti verða af því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×