Lífið

Vonar að kaldhæðni sé vinsæl á Íslandi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Josh Blue skemmtir á Íslandi í næstu viku.
Josh Blue skemmtir á Íslandi í næstu viku.
Grínistinn Josh Blue hlakkar til að koma til Íslands, en þessi sigurvegari í raunveruleikaþættinum Last Comic Standing treður upp í Háskólabíói í næstu viku. „Þetta verður í fyrsta skiptið sem ég kem til Íslands, ég veit ekkert við hverju ég á að búast,“ segir grínistinn í samtali við Fréttablaðið og bætir við: „Ég vona að Íslendingar skilji húmorinn minn. Vonandi er kaldhæðni vinsæl á Íslandi.“

Josh Blue er nokkuð þekktur í heimalandinu. Hann er tíður gestur á sjónvarpsstöðinni Comedy Central og hefur nokkrum sinnum verið á lista yfir bestu grínista Bandaríkjanna sem áhorfendur stöðvarinnar velja. Blue hefur vakið athygli fyrir að gera grín að eigin fötlun, en hann er með CP-hreyfihömlun.

Meðfram því að troða upp í Háskólabíói mun hann halda ræðu á ráðstefnunni Sköpun skiptir sköpum, sem haldin er á vegum Öryrkjabandalags Íslands, Þroskahjálpar og Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum. „Ég er enn að ákveða hvað ég mun tala um á ráðstefnunni. En mig langar að tala um hvernig ég lifi með minni fötlun. Fötlun er alþjóðlegt málefni og mig langar að nálgast málefnið með það í huga og tengjast fólki frá öðrum löndum á þeim grundvelli.“

Blue segir að sigurinn í Last Comic Standing árið 2006 hafi gjörbreytt ferli sínum. „Ég fór frá því að koma fram í smærri sölum eins og í háskólum yfir í að fylla stóra klúbba og hallir um öll Bandaríkin. Ég hef nánast verið á stöðugu ferðalagi síðustu níu árin og sigurinn í Last ­Comic Standing var upphafið að öllu.“

Blue hlakkar til að hitta Íslendinga í næstu viku og biður þá að kynna sér efnið hans á netinu. „Ég er mjög spenntur að heimsækja landið ykkar. Fáum okkur drykk saman,“ segir hann þegar hann er spurður hvað hann vilji segja við íslensku þjóðina.

Josh Blue kemur fram í Háskólabíói 4. september. Hægt er að nálgast við á miði.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×