Lífið

Blóðberg valin til sýninga á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg

Björn Hlynur Haraldsson gerir vel í sinni fyrstu tilraun sem leikstjóri.
Björn Hlynur Haraldsson gerir vel í sinni fyrstu tilraun sem leikstjóri.
Kvikmyndin Blóðberg, sem verður frumsýnd á Stöð 2 um páskana, hefur verið valin til sýninga sem verki í vinnslu á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg. Hátíðin fer fram í 38. skipti dagana 23. janúar til 2. febrúar.

Blóðberg er fyrsta kvikmynd leikstjórans, Björns Hlyns Haraldssonar, en Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir framleiða myndina fyrir hönd Vesturports í samvinnu við 365 miðla og Pegasus. Kvikmyndin, sem verður í tveimur hlutum, er byggð á fyrsta leikriti leikstjórans, Dubbeldush, sem Vesturport sýndi við miklar vinsældir fyrir nokkrum árum síðan.

Blóðberg er gamansöm mynd með alvarlegum undirtón um venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum. Sagan segir af hefðbundinni íslenskri fjölskyldu í úthverfi Reykjavíkur þar sem fjölskyldufaðirinn bjargar samlöndum sínum með skrifum á sjálfhjálparbókum á meðan móðirin bjargar fólki á spítalanum þar sem hún vinnur sem hjúkrunarfræðingur. En hvorugt þeirra hefur kjark til að bjarga sjálfu sér. Undir óaðfinnanlegu yfirborðinu liggur svo gamalt leyndarmál sem einn daginn bankar uppá, og þá breytist allt.

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg er umfangsmesta kvikmyndahátíð Norðurlandanna. Hátíðin sem var fyrst haldin árið 1979 er mörgum Íslendingum góðkunn en í fyrra var sérstakur fókus á Ísland. Hross í Oss í leikstjórn Benedikts Erlingssonar hlaut þá áhorfendaverðlaun sem besta norræna kvikmyndin sem og að Baltasar Kormákur var heiðraður sérstaklega. Ari Eldjárn sem var kynnir lokakvöldsins í fyrra mun sjá um að kynna lokakvöldið í ár líka.

Aðstandendur Blóðbergs munu kynna myndina á hátíðinni sem, eins og áður segir, fer fram í lok janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.