Lífið

„Þú gafst mér gjöfina sem gerði lífið þess virði að lifa“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kurt Cobain og Courtney Love voru gift í tvö ár.
Kurt Cobain og Courtney Love voru gift í tvö ár. vísir
Þrátt fyrir að 21 ár sé liðið síðan hann framdi sjálfsmorð, 27 ára gamall, virðist Courtney Love ekki enn vera komin yfir fráfall Kurt Cobain, eiginmanns síns til tveggja ára.

Love deildi á jóladag mynd af sér, Nirvanaforsprakkanum og dóttur þeirra, Frances Bean Cobain, en á myndinni eru þau í jólaskapi í desember árið 1992.

Með myndinni skrifaði ekkjan löng, hjartnæm skilaboð til Cobain og dóttur þeirra sem nú er 23 ára gömul.

„Þetta jólaaugnablik í lífi allra sem maður gleymir aldrei, augnablikið sem lætur þér líða eins og þú sért á toppi heimsins, þegar stærsta gjöfin eru ástvinir þínir sem þú deilir augnablikinu með,“ skrifaði Courtney Love við myndina og bætti við:

„Þetta er mitt augnablik. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa það. Gleðileg jól Kurt, sannasta ást sem ég hef nokkru sinni fengið að kynnast.“

Ennfremur skrifaði Love: „Þú gafst mér gjöfina sem gerði líf mitt þess virði að lifa, hina ótrúlega hæfileikaríku, ástríku og fallegu dóttur okkar Frances Bean Cobain.“

Fyrrum rokksöngkonan lauk skilaboðunum á orðunum. „Gleðileg jól Bean, ástarkveðjur mamma og pabbi.“

Ljóst er að skilaboðin við myndina féllu í kramið hjá netverjum sem deildu færslunni í gríð og erg sem og að láta velþóknun sína í ljós með því að láta sér líka við hana. Nú hafa um 31 þúsund manns líkað við hana sem erum þrefalt meira en tíðkast um aðrar myndir á reikningi Courtney Love.

Síðastliðin ár hefur Courtney Love lagt stund á kvikmyndaleik sem og tónsmíðar en Rolling Stone útnefndi hana eitt sinn „umdeildustu konu í sögu rokksins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.