Handbolti

Arnór Þór markahæstur í tapi gegn Kiel

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór Þór í landsleik.
Arnór Þór í landsleik. vísir/eva björk
Kiel minnkaði forskot Rhein-Neckar Löwen niður í tvö stig á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með þriggja marka sigri á Íslendingarliðinu Bergrischer, 31-28.

Mjög lítið var skorað fyrstu mínúturnar og staðan eftir fjórtán mínútna leik var 4-3, Kiel í vil. Þá kom góður kafli hjá Kiel og þeir leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 15-10.

Í síðari hálfleik héldu þeir uppteknum hætti, að minnsta kosti fyrri hluta hálfleiksins. Þeir stigu þó aðeins af bensíngjöfinni, en þegar stundarfjórðungur var eftir var munurinn einungis tvö mörk, 25-23.

Nær komust þó heimamenn í Bergrischer ekki og lokatölur þriggja marka sigur Kiel, 31-28. Kiel er nú stigi á eftir Rhein-Neckar Löwen þegar tuttugu leikir af 34 eru búnir.

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í liði Bergrischer með sjö mörk, þar af tvö úr vítum, ásamt Viktor Szilagyi. Arnór klikkaði á einu skoti í leiknum. Björgvin Páll Gústavsson varði tólf skot samkvæmt opinberri heimasíðu þýska sambandsins.

Hjá Kiel drógu þeir Niclas Ekberg (átta mörk), Domagoj Duvnjak (sex mörk) og Marko Vujin (fimm mörk) vagninn, en Niklas Landin varði tíu skot í markinu.

Bergrischer er í fallsæti, því sautjánda, stigi frá öruggu sæti. Nú fer deildin í frí, enda EM í Póllandi í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×