Lífið

Að vera leiðinlegur er eina dauðasyndin

Rikka skrifar
Sigga er þekkt fyrir stjörnuspár sínar.
Sigga er þekkt fyrir stjörnuspár sínar. visir/antonbrink
Sigríður Klingenberg er flestum kunn fyrir litríka framkomu og hæfileika á ýmsum sviðum sem tengjast mannlegum samskiptum. Hún hefur skrifað bækur sem og haldið fyrirlestra þar sem rauði þráðurinn er að breiða út þann boðskap að elska lífið og náungann.

Margir þekkja einnig til spádómsgáfu Siggu og á hún sér fastan aðdáendahóp sem bíður í ofvæni eftir mánaðarlegri stjörnuspá á Vísi sem og í Fréttablaðinu þar sem hún leggur áherslu á að lesendur geri það besta úr því sem þeir lesa, nýti sér jákvæða orku sem fylgir spánum sem einkennast fyrst og fremst af gleði, krafti og uppbyggilegri orku.

Stjörnuspá Siggu fyrir október er komin á Vísi



Ég stóð upp aftur

Sjálf er hún fædd og uppalin á Snæfellsnesi við lítinn íburð og einföld húsakynni. „Við áttum ekki mikinn pening, fjölskyldan, en þó vanhagaði okkur ekki um neitt, húsið var óskaplega einfalt og ég man eftir kolaeldavélinni, útikamrinum, olíulömpunum og gamla símanum þar sem hægt var að hlera alla í sveitinni. Snæfellsnesið er soddan rokrassgat, ég elska samt rokið, það feykir vandamálunum í burtu.“ 

Sigga var glaðlynt barn og hamingjusöm í sveitinni sinni, þegar hún var ellefu ára flutti hún svo til Hafnarfjarðar.

„Ég átti góðan tíma í Hafnarfirðinum en þegar ég var átján ára varð ég mjög þunglynd út af ástar­sorg og reyndi að fyrirfara mér með stórum skammti af pillum en ég var svo heppin að ég fannst og var send með sjúkrabíl á spítala þar sem var dælt uppúr mér viðbjóðnum.

Mér hélt áfram að líða illa eftir þessa tilraun en það breyttist allt þegar kona, sem var tengd mér, gaf mér Dale Carnegie-bækurnar Lífsgleði njóttu og Vinsældir og áhrif, þetta breytti lífi mínu til frambúðar, þessar bækur kenndu mér allt!! Í bókunum var aðallega að finna sögur um fólk sem hafði misst allt en staðið upp á ný.

Konan sem gaf mér þessar bækur heitir Erla Sigurðardóttir og ég skírði dóttur mína eftir þessum lífgjafa mínum. Í gegn um bækurnar lærði ég að standa upp aftur og skilja við erfið­leika mína. Ég lærði að það er ég sem ber ábyrgð á mínu lífi og get breytt því til betri vegar. Í kjölfarið ákvað ég að mitt verk í þessu lífi væri að gleðja aðra og snerta hjörtu þeirra með fögrum og uppbyggilegum orðum,“ segir Sigga.

Líkt og áhrifavaldur hennar, Dale Carnegie, hefur Sigga skrifað tvær bækur um ekki óskyld málefni; önnur heitir Orð eru álög og hin Töfraðu fram lífið. Báðar hafa bækurnar náð metsölu og eru mikið lesnar enn þann dag í dag.

Fyrir um tveimur árum komst Sigga að því hver hennar raunverulegi faðir væri en hann kom óvænt inn í líf hennar eftir ósk um annars konar kynni.

„Stuttu áður en að pabbi kom inn í líf mitt hafði ég beðið veröldina um að senda mér mann sem elskaði mig skilyrðislaust og tveimur mánuðum seinna kom í ljós að ég var rangfeðruð og ég fékk nýjan pabba. Veröldin sendi mér nákvæmilega það sem ég bað um en þar sem hún hefur ekki tilfinningar gagnvart því sem þú biður um þá sendi hún mér það sem ég var að hugsa, mann sem elskar mig skilyrðislaust. Þetta var kannski ekki alveg það sem ég var að hugsa en án efa enginn sem gæti elskað mig eins skilyrðislaust og hann,“ segir Sigga og hlær sínum innilega hlátri.

Orð eru álög

Aðspurð hvenær hún hafi fundið fyrir því að hún sæi lengra en nef hennar næði segir Sigga að við vitum öll lengra en nef okkar nær en við verðum að trúa því.

„Ég trúi á hugboðin mín en það er einmitt það sem ég vil segja við þig, lesandi góður, að bara við það að trúa þá færðu meiri skynjun. Þetta er eins og með börn, þau trúa en loka svo fyrir það eftir því sem þau eldast. Svona skynjun eru í rauninni bara hugboð frá veröldinni og öllum þeim sem byggja hana, lifandi eða látnir. Við erum öll með þessa skynjun en ef við trúum ekki á hana þá gerist ekki neitt. Áran okkar breytir um lit á nokkurra mínútna fresti, útgeislun okkar endur­speglar líðan okkar, þegar þú færð vondar fréttir verður áran þín grá, þú ert glaður og þá koma sterkir litir. Þetta er svipað og ef þú verður ofsahræddur þá færðu eins og örskotssting í solar plexus. Hversu einstakt er það að frumurnar okkar sýna okkur kraftaverk á hverju degi?“ 

Sigga hefur sterkar skoðanir á slúðri og neikvæðu orðavali í garð náungans.

„Slúður breytist eftir því sem það fer víðar, fólk heyrir oft ekki allt það sem við það er sagt eða man það ekki og breytir því frásögnum eftir minni. Ég man eftir einni sögu sem ég nota stundum sem dæmi. Þannig var mál með vexti að ég var spurð að því í sjónvarpsviðtali hvort ég væri ekki bara skrítin. Ég sagði að það væri hárrétt og það eina sem ég virkilega óttaðist væri að vera normal. Ég var síðan að segja þessa sögu á stórum kvenfélagsfundi, og sumar heyrðu ekki nægilega vel, ég frétti það síðar að sú saga færi eins og eldur um sinu að ég óttaðist mest að ég væri norn,“ segir Sigga og hlær sínum smitandi hlátri.

„Fólk verður að stoppa kjaftasögur í fæðingu, hvert og eitt okkar ber ábyrgð á því sem við segjum. Við verðum til að mynda að líta á fyrirtækið sem við vinnum hjá sem eina stóra fjölskyldu og styðja hvert annað í stað þess að baktala samstarfsfólk, á þann hátt ná allir árangri.“





Sálin þarf fyrirmyndir

Sigga á sér margar fyrirmyndir í lífinu sem hafa haft mikil áhrif að móta karakter hennar.

„Þegar ég var tvítug voru fyrirmyndir mínar Bryndís Schram og snillingurinn Auður Haralds, skemmtileg blanda. Louise Hay, rithöfundur og predikari, hefur breytt lífi mínu á hverjum degi, hún er mín helsta fyrir­mynd í dag. Louise var 45 ára þegar hún byrjaði að kenna fólki hvernig það næði árangri í lífinu, hún smitaði mig með lífsskoðunum sínum. Ég hvet lesendur til að kynna sér hana vilji þeir fá sterka hvatningu í líf sitt. Við þurfum að minna okkur á hvernig við ætlum að lifa betra lífi, við þurfum að gera það oft á dag. Þú þarft að finna hamingjuna sjálfur. Það erum við sem sköpum líf okkar, hugsanir skapa heiminn og við sköpum hugsanir. Við lítum oft yfir farinn veg um þrítugt og svekkjum okkur yfir því að þetta og hitt sé ekki búið að gerast en í raun erum við bara ennþá börn. Sjálf er ég er til að mynda bara fimmtíu og fimm ára barn,“ segir Sigga kímin á svip.

„Ég er það í alvörunni, mér finnst börn svo góðar fyrirmyndir, þau eru svo einlæg og yndisleg. Svo er líka Joan Rivers mér mikil fyrirmynd en henni var nokk sama um það sem öðrum fannst um það sem hún væri að gera hverju sinni. Hún sagði meðal annars að hún vildi ánafna Tupperware-líkama sinn þegar hún félli frá, hversu skemmtilegt er það?

Við þurfum öll að hafa smá af þessum hugsunarhætti að leiðarljósi, við gerum ekki neitt ef við hugsum hvað myndi þessi eða hinn segja ef ég gerði þetta og endum svo á því að gera ekki neitt. Það er í eðli mannsins að hvort sem þú gerir vel eða illa þá mun verða talað illa um þig, það eina sem þú þarft að gera er að lesa ekki kommentin um verkin þín, biðja vini þína um að segja þér ekki hvernig sé verið að tala um þig eða hver sé að því, nema það séu falleg orð Mottóið mitt er að það er bannað að dæma og líka ef þú hefur ekkert gott að segja þá skaltu bara þegja,“ segir Sigga og er mikið niðri fyrir.





Sigríður Klingengberg er þjóðinni kunn með sinni líflegu framkomu
Víðlesnar stjörnuspár

Stjörnuspár Siggu eru vinsælt og víðlesið efni enda margir sem bíða spenntir eftir nýrri stjörnuspá um hver mánaðamót. Við spána notast Sigga við talnaspeki meðal annars en tengir sig einnig við aðila sem eru í hverju stjörnumerki fyrir sig:

„Það er nokkurs konar miðlun og ég nota þau skilaboð í spánni. Þetta eru svo sem engin geimvísindi, þú getur fundið allt á alnetinu og ég skrifa þetta bara í einföldu máli. Ég hringi í Höllu Himintungl, vinkonu mína og stjörnuspeking, ef ég er í veseni. Hún gefur mér góð ráð. Fólk sem er í sömu stjörnumerkjum er oft að ganga í gegnum svipaða hluti, ég sé tengingar á milli. Stjörnuspáin mín er fyrst og fremst til þess að fólk nýti sér þá jákvæðu orku og hvatningu sem henni fylgir.“

Sigga segist finna það á götum úti að fólk lesi um sitt stjörnumerki og hafi skoðanir á því sem hún skrifi. „Nautunum mínum mislíkaði og þau skildu ekki alveg dæmisöguna sem var í síðustu spá og mér var mjög brugðið. Ég bið Nautin opinberlega afsökunar á þessu en þessi dæmisaga þar sem fólk er beðið um að líta til baka yfir farinn veg hefur mikil áhrif á mig. Sjálf er ég er Naut og svo heppin að vera rísandi Tvíburi að auki, þess vegna er alltaf svo skemmtileg hjá mér,“ segir Sigga og er brosandi sem fyrr.

Litlar hendur eru farnar að banka á hurðina hjá Siggu og ljóst að skóladeginum er lokið á þessum fallega degi á Álftanesinu. Börnin í hverfinu laðast að okkar konu enda ekki skrýtið því hver vill ekki vera í kringum gleðigjafa sem gæðir allt lífi og kærleik í kringum sig?



Stjörnuspá Siggu Kling fyrir októbermánuð má finna á síðu 36 í Fréttablaðinu og á Vísi.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×