Lífið

Björn Bjarnason leiðir hugleiðslutíma

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Björn Bjarnason mun leiða hugleiðslu tvisvar í viku en hann segir hana nýtast öllum alltaf og alls staðar.
Björn Bjarnason mun leiða hugleiðslu tvisvar í viku en hann segir hana nýtast öllum alltaf og alls staðar. Vísir/GVA
„Ég er búinn að stunda Qi gong í yfir tuttugu ár. Þannig að ég er ekki alveg nýr í þessu. Ég hef einnig flutt fyrirlestra um hugleiðslu og fylgst náið með umræðum um hugleiðslu núna þegar hún er að ryðja sér til rúms á æ fleiri sviðum,“ segir fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason.

Flestir kannast við Björn af stjórnmálavettvangi en nú í október mun hann byrja að leiða morgunhugleiðslu sem byggð er á grunni Qi gong tvisvar í viku í hálftíma í senn í hreyfingarstöðinni Tveir heimar. Hann hefur líkt og áður sagði stundað Qi gong í lengri tíma og er meðal annars formaður Aflsins, félags Qi gong iðkenda.

Fjölmargar aðferðir eru til við iðkun hugleiðslu en þær eiga það allar sameiginlegt að skapa hugarró til þess að njóta betur alls þess sem gert er og gerist. Segja skilið við fortíðina sem verður ekki breytt og að átta sig á því að framtíðin er óráðin og henni ekki hægt að stjórna.

„Hugleiðsla er til þess fallin, líkt og íslenska orðið gefur til kynna að hvíla hugann og átta sig á því hvar maður er á þeirri stundu sem maður er að hugleiða,“ segir Björn og bætir við: „Það á ekki að vaxa neinum í augum, því það er það einfaldasta sem menn geta gert að draga inn andann og hugsa um andardráttinn. Mjög einfalt, alls ekki flókið og öllum til góðs.“

Björn segir forsendur þess að stunda hugleiðslu fyrst og fremst snúast um að gefa sér tíma til þess. „Það vefst fyrst og fremst fyrir fólki að gera það. Ef maður gefur sér ekki tuttugu mínútur eða hálftíma áttar maður sig kannski ekki á því hvað það gefur manni mikið að gefa sér smá tíma fyrir sjálfan sig,“ segir hann og bendir reinnig á að í snjallsímum megi nálgast fjölmörg hugleiðsluöpp sem hægt sé að nota ef áhugi er fyrir því að kynna sér heim hugleiðslunnar nánar. Mörg hver eru jafnvel ókeypis.

Margir hugsa sjálfsagt með sér að til þess að hugleiða þurfi algjöra kyrrð og ró í kringum sig en að sögn Björns er hægt að hugleiða hvar og hvenær sem er. „Það er náttúrulega aðallega það að skapa sér innri ró, það getur þú gert hvar sem er. Það er mjög öflugt að hugleiða í hóp, það gefur hugleiðslunni sérstakt gildi.“

Þegar hann er spurður að því hvort hugleiðslan og Qi gong hafi nýst honum við fyrri störf er svarið stutt og laggott: „Hún nýtist alls staðar og alltaf.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×