Veiði

Gleðilegt nýtt veiðiár

Karl Lúðvíksson skrifar
Nú hefur 2014 kvatt landsmenn og nýju ári fagnað og veiðimenn eiga sér líklega þá ósk heitasta að árið verði gjöfulla en það sem var að líða.

Það er líklega óþarfi að stikla of mikið í gegnum nýliðið veiðiár enda var það líklega það slakasta frá því að heiildarskráningar hófust.  2012 var slakt eins og allir muna, svo kom 2013 sem var eitt það besta frá upphafi en í kjölfarið á því kemur þessi djúpa dýfa 2014.  Veiðin var 7% minni en hún var 2012 og um 40% af heildarafla 2013.  Þær mælingar sem hafa verið gerðar á gönguseiðum síðasta sumar sýna þó að það má alveg hafa bjartsýni að leiðarljósi fyrir komandi ár enda er seiðavísitalan í þeim ám sem hafa verið rannsakaðar einstaklega góð.  Vorið 2014 var seiðum hagstætt ólíkt 2013 sem var mjög kalt vor en það hefur mikil áhrif á seiðin, þ.á.m. hversu mörg þeirra fara til sjávar.

Stór hluti af af árgangnum sem átti að fara niður 2013 hefur líklega haldið af sér eitt ár í viðbót og fór út í vor (2014).  Þessi seiði fara inní annan árgang sem gerir ekkert annað en að styrkja hann.  Eins er líklegt að nokkuð af laxi hafi ekki gengið í árnar því hann hafi ekki verið í nægu æti og ekki náð kynþroska.  Þetta sást mjög vel á þeim fjölda 1.0 - 1.5 kg laxa í sumum ánum en víða var þetta meira en helmingur skráðs afla.  Þessi smálax tekur eitt ár í viðbót í sjónum og kemur sem tveggja ára lax 8-15 pund eða stærri.  Stærðin tekur auðvitað mið af því hversu gott fæðuframboðið er á ætisslóðum laxsins.  Samkvæmt þessum kenningum er að vænta heils árgangs sem fær "uppfyllingu" Í báða enda.  Það eru þess vegna öll teikn á lofti um að komandi sumar gæti orðið gott.

Við óskum lesendum okkar og landsmönnum öllum Gleðilegs árs og óskum ykkur góðrar veiði á komandi sumri.  






×