Hlynur Bæringsson átti fínan leik í liði Íslands í sigrinum á Lúxemborg á Smáþjóðaleikunum í kvöld. Hann skoraði 15 stig og tók 9 fráköst áður en hann yfirgaf völlinn með 5 villur. Hlynur var nokkuð sáttur við leik Íslands en fannst liðið slaka of mikið á í restina.
Sjá einnig: Nokkuð þægilegt gegn Lúxemborg.
"Við þurfum að passa þetta. Við vorum mjög passívir á móti pressunni þeirra. Það sást langar leiðir að við ætluðum að mjólka klukkuna. Þá gátu þeir leyft sér að vera ákveðnari og þeir nýttu sér það. Við gerðum þetta illa, margar sóknir í röð. Við áttum bara að ráðast á þá og auka muninn," sagði Hlynur en íslenska liðið var lengi í gang í kvöld.
"Þeir eru svolítið líkari okkur en margar aðrar þjóðir, eru litlir, skipta mikið og duglegir að hlaupa. Mér fannst við vera lengi að finna ráð við því hvað þeir voru að gera.
"Við vorum mikið að leita inn í teiginn, eitthvað sem við gerum ekki mikið gegn stærri þjóðum," sagði Hlynur og bætti við að Ísland þurfi að spila betur á laugardaginn þegar Svartfjallaland mætir í höllina.
"Það er á hreinu. Svartfjallaland á að vera með besta liðið hérna. Ég held samt að við getum alveg spilað með þeim og gefið þeim hörkuleik. En við þurfum að spila betur en þetta," sagði Hlynur sem telur þessa leiki mikilvæga í undirbúningi fyrir EM.
"Mér finnst þessir leikir mikilvægir til að rifja upp kerfin og komast betur inn í skipulagið okkar. Það er gott að læra aðeins á kerfin svo maður geti lært þau frá a til b til c og hvar er hægt að nýta sér þau. Ég mætti bara á þrjár æfingar fyrir þetta mót og ég ætla mér ekkert að toppa hérna," sagði Hlynur að lokum.
Hlynur: Þurfum að spila betur gegn Svartfellingum

Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Andorra 83-61 | Strákarnir stóðust fyrsta prófið
Ísland vann sannfærandi sigur á Andorra í opnunarleik sínum á Smáþjóðaleikunum.

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Lúxemborg 81-72 | Nokkuð þægilegur sigur á Lúxemborg
Ísland vann annan leik sinn á Smáþjóðaleikunum þrátt fyrir slakan leik nokkurra lykilmanna.