Bílar

Nýr Volvo XC90 frumsýndur um helgina

Finnur Thorlacius skrifar
Ný kynslóð Volvo XC90 jeppans.
Ný kynslóð Volvo XC90 jeppans.
Brimborg kynnir splunkunýjan Volvo XC90, fyrsta bílinn af nýrri kynslóð Volvo bíla sem markar nýtt upphaf hjá bílaframleiðandanum. Frumsýningin hefst föstudaginn 5. júní og stendur yfir alla helgina í Volvo sýningarsalnum hjá Brimborg að Bíldshöfða 6 í Reykjavík. Á föstudaginn er opið frá kl. 10-17, á laugardaginn frá kl. 12-16 og á sunnudaginn frá kl. 13-16.

Volvo XC90 kom fyrst á markað fyrir 13 árum síðan, eða árið 2002. Mikil eftirvænting er eftir nýja bílnum enda einn mikilvægasti bíll Volvo frá upphafi. Þróun bílsins hefur tekið 4 ár og fjárfest hefur verið fyrir meira en 11 milljarða dollara í verkefninu. Volvo kynnti sérstaka First Edition útgáfu af nýja Volvo XC90 síðasta haust. Salan fór eingöngu fram á netinu og var framboðið takmarkað við 1.927 en talan vísar til stofnárs Volvo. Allir bílarnir seldust upp á aðeins 48 klukkutímum.

„Nýi Volvo XC90 mun færa þennan flokk jeppa á hærra plan, rétt eins og upprunalegi XC90 gerði þegar hann kom fyrst á markað“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. „Þarna er kominn bíll sem markar nýtt upphaf fyrir Volvo og það er ekki innantómt loforð. Volvo er að kynna svo margt nýtt með þessum bíl. Nýja undirvagns-tækni, nýja vélartækni, ný öryggiskerfi sem aldrei hafa verið í boði áður og nýtt útlit bæði að innan og utan sem mun einkenna framtíðar Volvo bíla. Þetta er gríðarlega spennandi bíll sem mun gera góða hluti fyrir markaðinn og Volvo.“

7 sæta lúxusjeppi frá Volvo

Volvo XC90 er 7 sæta lúxusjeppi með öllu því besta frá Volvo. Hann er búinn nýrri tækni, nýjum öryggiskerfum og er jafnframt með nýju útliti. Nýi Volvo XC90 er fyrsti bíllinn sem er byggður með nýrri undirvagnstækni Volvo sem kallast Scalable Products Architecture eða SPA. Hann verður í boði með nýrri silkimjúkri 8 þrepa sjálfskiptingu og nýrri kynslóð Drive-E véla sem eru sérstaklega eyðslugrannar en skila frábærri akstursupplifun.

Ytra útlit nýja Volvo XC90 gefur tóninn fyrir komandi kynslóðir Volvo bíla. Allur framendinn er einbeittur og með nýjum svip. Axlalínan er einnig orðin enn meira áberandi og bíllinn því mun kraftalegri fyrir vikið. Innanrýmið er líka sérstaklega glæsilegt, en aldrei fyrr hefur Volvo hannað innanrými með jafn miklum lúxus. Það má heldur ekki gleyma því að XC90 er búinn fullkomnasta öryggis-staðalbúnaðinum á markaðnum. Þar á meðal eru tvær nýjungar sem aldrei hafa verið í boði áður: annars vegar vörn við útafakstri og hins vegar sjálfvirk bremsa ef beygt er í veg fyrir ökutæki úr gagnstæðri átt.

Þessar tækninýjungar sem Volvo heimsfrumsýnir nú, gera Volvo XC90 að einum öruggasta bíl heims og færir fyrirtækið jafnframt skrefi nær markmiði sínu um að frá árinu 2020 muni enginn slasast alvarlega eða láta lífið í nýjum Volvo. Verðið er mjög hagstætt fyrir bíl í þessum flokki en nýr Volvo XC90 kostar frá 10.590.000 kr. 

Volvo kynnir nýja undirvagns-tækni og nýja kynslóð véla

Eins og áður sagði er Volvo XC90 fyrsti bíllinn sem er byggður á nýrri undirvagns-tækni Volvo sem kallast Scalable Product Architecture (SPA). Þessi nýja tækni hefur verið í þróun hjá Volvo síðastliðin fjögur ár og í framtíðinni verða allar gerðir Volvo hannaðar með þessari tækni. Ávinningur SPA undirvagns-tækninnar er aukinn sveigjanleiki sem gerir hönnuðum og verkfræðingum Volvo kleift að kynna fjölbreytt úrval af nýjum hönnunareiginleikum samhliða því að auka akstursupplifun, kynna leiðandi öryggisbúnað og stækka innanrýmið.

Ný kynslóð fjögurra strokka Drive-E vélanna býður upp á spennandi akstur en með miklu minni eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun. Eldsneytisnotkun nýju Drive-E D5 dísilvélarinnar í blönduðum akstri er aðeins 5,8 l/100 km og COlosun er einungis 152 g/km. Nýlega þróaði Volvo nýja 8 gíra sjálfskiptingu sem verður í öllum nýjum Volvo XC90 en skiptingin hefur fengið mikið lof frá bílasérfræðingum. Volvo XC90 er fjórhjóladrifinn og hátt er undir lægsta punkt, eða 23,7 cm. Dráttargeta Volvo XC90 með D5 dísilvélinni er 2.700 kg.

Framljós innblásin af Þórshamri

Nýi Volvo XC90 er fyrsti bíllinn sem státar af nýju járnmerki Volvo. Járnmerkið sem er á framenda bílsins hefur bæði verið endurhannað og gert meira áberandi en áður. Nýja járnmerkið ásamt T-laga LED framljósunum eru helstu einkenni nýja Volvo XC90. Framljósin bera heitið Þórshamar því hönnun þeirra er innblásin af hamri Þórs sem þykir viðeigandi þar sem um er að ræða norrænt tákn um styrk. Þegar litið er í bakssýnisspegilinn og Þórshamar blasir við verður öllum strax ljóst að þarna er á ferðinni nýi Volvo XC90. Fyrir vikið hefur nýi Volvo XC90 mjög sterka nærveru á veginum. Stærri vélarhlíf með nýjum útlínum og skarpari axlarlína sem tengist nýju afturljósunum eru önnur mikilvæg hönnunareinkenni sem framtíðar kynslóðir Volvo munu einnig búa yfir. Nýr Volvo XC90 verður fáanlegur á allt að 22 tommu felgum sem mun gera ásýnd hans enn kraftmeiri.

Aldrei fyrr hefur Volvo hannað innanrými með jafn miklum lúxus

Innanrými Volvo XC90 er tilkomumikið og þar ræður glæsileikinn ríkjum. Hönnunin er einföld, stílhrein og fallega samtvinnuð nýjustu tækni. Aldrei fyrr hefur Volvo hannað innanrými með jafn miklum lúxus. Mest áberandi í innanrýminu er stór snertiskjár í miðjustokk bílsins með samskonar flettimöguleika og er í iPad. Snertiskjárinn, sem er óvenju stór, myndar hjarta nýs stjórnkerfis Volvo og gerir mælaborðið nánast takkalaust.

Allt efni í innanrými Volvo XC90 er það besta sem völ er á. Þar samtvinnast viður og mjúkt leður við handunnin smáatriði líkt og sjálfskiptihnúð úr kristal frá sænska framleiðandanum Orrefors. Ekki skemmir svo fyrir alvöru hljómburður úr Bowers & Wilkins hljómtækjunum. Þá má heldur gleyma að nefna sætin í nýja Volvo XC90 en þau eru í sérflokki. Þar sem bíllinn er hannaður eingöngu utan um fjögurra strokka vélar er meira pláss í innanrými þar sem ekki þarf lengur að gera ráð fyrir lengri vélum með fleiri stimplum. Öll sæti eru rúmgóð, einnig sætin í þriðju sætaröðinni sem eru jafnstór sætunum í miðjusætunum.

Fullkomnasti öryggis-staðalbúnaður á markaðnum

Það er óumdeilt að Volvo bílar eru með öruggustu bílum heims. Volvo hefur alla tíð verið leiðandi á sviði öryggismála. Árið 1959 kynnti Volvo þriggja punkta öryggisbeltið fyrir umheiminum. Svo mikið var Volvo í mun að koma þessari uppfinningu sinni í almenna notkun, til að bjarga mannslífum, að fyrirtækið gaf eftir einkaleyfið á hugmynd sinni. Nú með nýja XC90 setur Volvo aftur ný viðmið því Volvo XC90 býr yfir fullkomnasta öryggis-staðalbúnaði sem er fáanlegur á bílamarkaðnum í dag.

Volvo heimsfrumsýnir vörn við útafakstri

Útafakstur er algeng tegund slyss sökum til að mynda þreytu ökumanns, truflun á einbeitingu ökumanns eða vegna erfiðra veðuraðstæðna. Helmingur allra banaslysa í umferðinni í Bandaríkjunum má rekja til útafaksturs. Í Svíþjóð má rekja þriðjung banaslysa í umferðinni til útafaksturs. Þessi tölfræði er sláandi. Volvo ákvað því að þróa búnað sem verndar ökumann og farþega ef útafakstur á sér stað. Þess má geta að enginn prófunaraðili kannar getu bíla til að vernda ökumann og farþega við slíkar aðstæður.

Ef útafakstur á sér stað nemur Volvo XC90 aðstæður og við það virkjast búnaður sem kallast Safe Positioning. Búnaðurinn strekkir betur á öryggisbeltum svo að ökumaður og farþegar haldast í sömu stöðu. Hert er á öryggisbeltunum svo lengi sem bíllinn er á hreyfingu. Einnig virkjast búnaður sem dregur úr högginu af völdum útafaksturs, ef bíllinn tekst á flug. Í stað þess að farþeginn skelli á sætinu gefur það eftir. Búnaðurinn veldur því að höggið er þriðjungi minna en ella. Hvort farþegi hljóti varanlegan mænuskaða í slysi er spurning um millimetra og því getur þessi nýi öryggisbúnaður skipt sköpum.

XC90 býr einnig yfir öryggis-staðalbúnaði sem hjálpar ökumanni að koma í veg fyrir útafakstur. Til að mynda veglínuskynjara (e. Lane Keeping Aid) og ökumannsviðvörun (e. Driver Alert) sem fækkar slysum af völdum ökumanna sem sofna undir stýri.

Heimsfrumsýning á sjálfvirkri bremsu ef beygt er í veg fyrir ökutæki úr gagnstæðri átt

Volvo XC90 er fyrsti bíllinn í heiminum sem býr yfir sjálfvirkri bremsu ef ökumaður beygir í veg fyrir ökutæki úr gagnstæðri átt. Slíkar aðstæður geta til dæmis átt sér stað á gatnamótum eða á fjölförnum umferðargötum þar sem hraðinn er meiri. Nýi Volvo XC90 nemur mögulegan árekstur og hemlar sjálfkrafa. Með því að draga úr hraða bílsins minnka líkurnar á alvarlegum árekstri eða komið er alfarið í veg fyrir árekstur.

Fjölbreytt úrval öryggisbúnaðar í nýja Volvo XC90

Eins og áður sagði verður Volvo XC90 með besta öryggis-staðalbúnaðinum á markaðnum. Hér fyrir neðan er stiklað á stóru um ýmsan öryggisbúnað sem verður í nýja XC90. 

Aftanákeyrsluvörn

Aftan á nýja Volvo XC90 eru nemar sem skynja ef aftanákeyrsla er við að eiga sér stað. Við slíkar aðstæður festast öryggisbeltin þannig að ökumaður og farþegar haldist í sömu stöðu. Afturljósin blikka jafnframt til að vara ökumann bílsins fyrir aftan við mögulegum árekstri. Ef aftanákeyrsla á sér stað þá virkjast bremsur eftir höggið til að minnka kraftinn (þ.e. að bíll kastist fram) eins og kostur er. Þessi búnaður ásamt nýrri hönnun á sætum sem búa yfir nýrri kynslóð bakhnykksvarnar Volvo mynda öfluga vörn gegn bakhnykksáverkum, líkt og hálstognun og alvarlegri áverkum.

Byltingarkennd veltuvörn

Nýjasta kynslóð veltuvarnar er staðalbúnaður í nýja Volvo XC90. Kerfið notar nema til að reikna út líkurnar á að bíllinn velti. Ef líkurnar eru miklar þá takmarkar kerfið vélarafl og virkjar hemlun á einu eða fleiri hjólum til að sporna við mögulegri bílveltu. Ef bílvelta er óhjákvæmileg eru rúðuloftpúðar (e. Inflatable Curtains) virkjaðir. Þeir eru staðsettir ofan við rúðurnar og blásast út niður að neðri brúnum rúðanna. Púðarnir ná yfir allar þrjár sætaraðirnar og haldast útblásnir í töluverðan tíma til að koma í veg fyrir höfuðmeiðsli. Öll sjö sætin í nýja XC90 eru búin öryggisbelta-forstrekkjara sem einnig virkjast við bílveltu. 

Borgaröryggi er heiti yfir allar sjálfvirkar bremsur Volvo

Borgaröryggi, sem er staðalbúnaður í Volvo XC90, er regnhlífarheiti yfir allar sjálfvirkar bremsur Volvo. Tilgangur þessa árekstra-öryggiskerfis er að aðstoða ökumenn í aðstæðum þar sem eru miklar líkur á árekstri við ökutæki, gangandi vegfaranda eða hjólreiðamann. Kerfið aðstoðar ökumann með því að gefa frá sér viðvaranir. Ef árekstur er yfirvofandi og ökumaður bregst ekki við aðsteðjandi hættu virkjar kerfið hemlun.

Volvo XC90 les umferðarskilti

Nýi Volvo XC90 er fyrsti bíllinn sem er með Umferðarskiltanema (e. Road Sign Information technology) sem staðalbúnað. Búnaðurinn hefur verið þróaður frekar þannig nú getur hann lesið fleiri umferðarskilti en áður. Búnaðurinn miðlar upplýsingum til ökumanns í gegnum snertiskjá í mælaborði bílsins. 

BLIS kerfið fylgist með „blinda punktinum“

BLIS öryggiskerfið styðst við innbyggðar myndavélar í báðum hliðarspeglum og sé ökutæki nær bílnum en sem nemur níu og hálfum metra fyrir aftan eða framan og innan þriggja metra til hliðanna gerir kerfið ökumanni viðvart með gulu viðvörunarljósi í innanverðum gluggapóstinum. Kerfið skynjar bæði bíla og mótorhjól og myrkur hefur ekki áhrif. Volvo var fyrsti bílaframleiðandinn til að bjóða uppá þessa hátæknilausn, sem dregur úr líkum á árekstri vegna hins svokallaða „blinda punkts“ til hliðar við bílinn. 

Aðstoð í umferð á lágum hraða

Þegar nýi Volvo XC90 er í hægri umferð er hægt að virkja búnað sem kallast Queue Assist. Volvo XC90 fylgir þá næsta bíl eftir sjálfkrafa. Aksturinn verður því öruggur og þægilegur. Hröðun, hemlun og stýring er sjálfvirk. 

Fimm sinnum meira hástyrktarstál

Ytri byrði bílsins er gert úr sérstöku hástyrktarstáli (e. Boron steel) sem er sterkasta stálið sem fyrirfinnst. Fimm sinnum meira hástyrktarstál er í nýja Volvo XC90 en fyrstu kynslóð XC90 og þyngd þess er um 40% af burðarvirki nýja Volvo XC90.






×