Lífið

María vann með 15.000 atkvæða mun

Birgir Olgeirsson skrifar
Mikil spenna var í loftinu þegar tilkynnt var um sigurvegara Söngvakeppninnar en svo fór að María hafði betur gegn Friðrik Dór og munaði 15 þúsund atkvæðum á þeim.
Mikil spenna var í loftinu þegar tilkynnt var um sigurvegara Söngvakeppninnar en svo fór að María hafði betur gegn Friðrik Dór og munaði 15 þúsund atkvæðum á þeim. Vísir/Andri
Mettþáttaka var í símakosningu í Söngvakeppni Sjónvarpsins síðastliðið laugardagskvöld þegar áhorfendur greiddu tæplega 170 þúsund atkvæði í gegnum símakosningu.

Alls voru greidd 168.762 atkvæði en gamla metið var um 140.000 atkvæði. Síðustu ár hefur atkvæðafjöldinn í úrslitum verið um 80-100.000, samkvæmt upplýsingum frá Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins.

Áhorfendur völdu Maríu Ólafsdóttur sem fulltrúa Íslendinga í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem haldin verður í Vín í Austurríki í maí næstkomandi. María söng lagið Unbroken eftir StopWaitGo-þríeykið, þá Ásgeir Orra Ásgeirsson, Pálma Ragnar Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson, en félagarnir áttu einnig lagið Once again sem Friðrik Dór flutti.

Munaði 15.000 atkvæðum 

María og Friðrik mættust í tveggja laga einvígi í Söngvakeppninni um að verða næsti fulltrúi Íslands í Eurovision en þangað komust þau með atkvæðum frá dómnefnd Söngvakeppninnar og atkvæðum frá áhorfendum í gegnum símakosningu. 

Að sögn Skarphéðins var lagið Unbroken afgerandi sigurvegari í lokaeinvíginu en lagið fékk 70.774 atkvæði samanlagt en Once Again fékk 55.850 atkvæði. Munaði því rúmum fimmtán þúsund atkvæðum á þeim tveimur. 

Íslendingar eyddu 21,7 milljónum í símakosningu

Hvert atkvæði kostaði áhorfendur 129 krónur þannig að heildartekjur af þeim 168.762 atkvæðum sem voru greidd nema um 21,7 milljónum króna. Skarphéðinn segir tekjuhluta Ríkisútvarpsins af símakosningunni áætlaðan 9 milljónir króna og segir hann renna beint upp í kostnað við framleiðslu Söngvakeppninnar sem liggur ekki endanlega fyrir en er áætlaður ríflega 30 milljónir króna.

Skarphéðinn segir Ríkisútvarpið ætla á næstu dögum að senda út upplýsingar um hvernig dómnefnd raðaði lögunum og hver atkvæðafjöldi allra laganna í fyrri umferð var.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×