Að kenningu verða Guðmundur Andri Thorsson skrifar 16. febrúar 2015 07:00 Það er aldrei ánægjuefni að horfa á eftir mönnum í fangelsi. Það hlýtur að vera þungbær reynsla að vera lokaður inni, sviptur frelsi og án samvista við fjölskyldu og vini. Því fylgir mikil auðmýking, félagsleg útskúfun og löskuð sjálfsmynd. Þegar dómur er fallinn yfir fólki og það fer í fangelsi eiga samborgarar þess að líta svo á að máli viðkomandi sé lokið og dæma það af verkum sínum þaðan í frá; við eigum að gefa fólki nýtt tækifæri að lokinni afplánun og vona að það eigi eftir að verða nýtir borgarar sem veita hæfileikum sínum og orku í farsælli farveg en áður. Gildir þá einu hvað viðkomandi heitir og hefur gert. Mjög ofnotað orð í þessu samhengi – og ýmsu öðru – er „meðvirkni“, eins og manni beri alveg sérstök skylda til ævarandi haturs og heiftar gagnvart mönnum sem stóðu í misheppnuðu og ólöglegu fjármálabralli. Það er ekki meðvirkni að hafa samúð með fólki á erfiðum stundum ævinnar, jafnvel þótt það geti sjálfu sér um kennt og jafnvel þótt það hafi valdið öðrum umtalsverðum skaða með framferði sínu.Að vera – og vera ekki Þar með er ekki sagt að maður lifi sig inn í málflutning manna sem vita varla sitt rjúkandi ráð eftir áralanga afneitun, sem nærð er af drjúgu tímakaupi lögmanna sem gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga mál á langinn. Það er mikilvægur þáttur í uppgjöri okkar við Hrunið að dómsmál yfir helstu gerendum þar hafi sinn gang, ótrufluð af hundakúnstum verjenda, tilraunum til að ónýta mál með lagaklækjum og skertum framlögum til sérstaks saksóknara, eins og sterk öfl innan núverandi stjórnarflokka vilja gera. En þegar málum er lokið með dómi – sekt eða sýknu – eigum við líka að hemja heift okkar og dómgirni. Lögmenn Kaupþingsmanna hafa verið orðvarir eftir dóminn og tveir hinna dæmdu hafa haft vit á því að fara ekki að tjá sig í fjölmiðlum um hann. Hinir tveir sem tjáðu sig höfðu lítinn sóma af því. Það er fráleitt að láta eins og mannréttindi hafi verið brotin á mönnum fyrir þá sök að rétta yfir þeim fyrir markaðsmisnotkun og sýndarviðskipti sem urðu til þess að gjaldeyrisvarasjóður íslensku þjóðarinnar gufaði upp í Money-heaven. Það heyrir ekki undir mannréttindi að vera undanþeginn lögum. Samfélagið virkar ekki þannig að það sé komið undir okkar eigin mati hverju sinni hvort við brjótum lög eður ei, eða manna sem við kaupum til að vera sammála okkur. Maður skyldi ætla að einhver af þeim lögmönnum sem þessir menn hafa – með tugi þúsunda á tímann – ætti að geta útskýrt réttarríkið fyrir umbjóðendum sínum þegar þeir stíga nú niður úr sinni Money-heaven-vídd. Dómstólar dæma og við virðum dóma þeirra. Látum þá okkur helst af öllu að kenningu verða. Og hver er sú kenning? Til dæmis að vanda sig. Að iðka dyggðir en ekki lesti. Að vera hæversk, samviskusöm, nægjusöm, heiðarleg, raunsæ og reglusöm. Að vera lengi að taka ákvarðanir en ekki skjót til ákvarðanatöku; að eiga fyrir því sem keypt er; að greiða skuldir sínar; að hafa langar boðleiðir en ekki stuttar: vera formföst, nákvæm, kurteis, mild í framkomu og laus við hroka. Með öðrum orðum: Að vera allt það sem útrásarvíkingarnir voru ekki og vera aldrei eins og útrásarvíkingarnir voru. Þá kann okkur að farnast vel.Tryllitæki markaðarins Við ættum helst ekki að einskorða uppgjör okkar við tiltekna einstaklinga sem hafi sökum síns illa innrætis misnotað frelsið sem veittist með inngöngunni í EES. Þetta var ekki þannig. Þetta var sambland af aðstæðum og hugmyndafræði og eitruðu samspili þar á milli. Íslendingar kunnu ekkert á óheft viðskipti. Þeir voru eins og Gosi spýtustrákur í bæjarferð, og eyrun strax farin að lengjast. Þeir voru eins og krakkar sem komast undir stýri á tryllitæki án nægilegs undirbúnings og djöflast af stað án fyrirhyggju og grunlaus um torfærur, hindranir og gjótur. Og þegar slíkt varð á vegi þeirra – þá hækkuðu þeir bara viðskiptavildina með velþóknun endurskoðendanna sem enn starfa eins og ekkert hafi í skorist. Bankarnir voru fullir af krökkum úr þjóðardjúpinu. Þau voru vel gefin og vel menntuð á sína vísu, þó að augljóslega hafi vantað í viðskiptamenntunina annars vegar þjálfun siðvits og hins vegar almenna skynsemi. Þau voru ekki illa innrætt en þau voru haldin ranghugmyndum. Þeim var innprentað að peningar væru einhlítur mælikvarði á verðmæti og réttlæti; Markaðurinn væri óbrigðull og óskeikull, Forsjónin sjálf. Úrskurðir hans væru alltaf réttir og endanlegir en maður yrði að vera klókur og ófyrirleitinn til að lifa af. Maður yrði að snúa á aðra. Gróðinn væri markmið og mælikvarði og lífið liði frá einum díl til annars. Yrði manni á myndi Markaðurinn refsa manni en græddi maður á dílnum hefði maður haft rétt fyrir sér. Þau trúðu því að ekkert mætti verða til þess að hindra að Markaðurinn fengi að hafa sinn gang og fara sínu fram; það væri eins og að grípa fram fyrir hendurnar á Forsjóninni sjálfri. Afleiðing þessarar stefnu var allsherjar afnám á regluverki og eftirliti með bönkunum. Þetta var hugmyndafræðin sem smaug um allt samfélagið, og eins og við vitum af reynslunni af alls konar öðrum lokuðum og alskýrandi hugmyndakerfum, endar það með ósköpum þegar heilu þjóðfélögin ánetjast þeim. Það var þessi hugmyndafræði sem felldi samfélagið, ekki innræti einstakra manna. Meira? Já Ísland getur ekki orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð. Íslendingar eru hvorki betri né verri en annað fólk. Og stórhættulegt er að leyfa auðsöfnun nálægt valdauppsprettum stjórnmálaflokkanna, eins og gerðist kringum Kaupþing og Framsóknarflokkinn. Og næst þegar samþykktir koma frá Viðskiptaþingi skulum við ekki leyfa þeim að verða að ríkjandi kenningu heldur láta okkur þær að kenningu verða. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Það er aldrei ánægjuefni að horfa á eftir mönnum í fangelsi. Það hlýtur að vera þungbær reynsla að vera lokaður inni, sviptur frelsi og án samvista við fjölskyldu og vini. Því fylgir mikil auðmýking, félagsleg útskúfun og löskuð sjálfsmynd. Þegar dómur er fallinn yfir fólki og það fer í fangelsi eiga samborgarar þess að líta svo á að máli viðkomandi sé lokið og dæma það af verkum sínum þaðan í frá; við eigum að gefa fólki nýtt tækifæri að lokinni afplánun og vona að það eigi eftir að verða nýtir borgarar sem veita hæfileikum sínum og orku í farsælli farveg en áður. Gildir þá einu hvað viðkomandi heitir og hefur gert. Mjög ofnotað orð í þessu samhengi – og ýmsu öðru – er „meðvirkni“, eins og manni beri alveg sérstök skylda til ævarandi haturs og heiftar gagnvart mönnum sem stóðu í misheppnuðu og ólöglegu fjármálabralli. Það er ekki meðvirkni að hafa samúð með fólki á erfiðum stundum ævinnar, jafnvel þótt það geti sjálfu sér um kennt og jafnvel þótt það hafi valdið öðrum umtalsverðum skaða með framferði sínu.Að vera – og vera ekki Þar með er ekki sagt að maður lifi sig inn í málflutning manna sem vita varla sitt rjúkandi ráð eftir áralanga afneitun, sem nærð er af drjúgu tímakaupi lögmanna sem gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga mál á langinn. Það er mikilvægur þáttur í uppgjöri okkar við Hrunið að dómsmál yfir helstu gerendum þar hafi sinn gang, ótrufluð af hundakúnstum verjenda, tilraunum til að ónýta mál með lagaklækjum og skertum framlögum til sérstaks saksóknara, eins og sterk öfl innan núverandi stjórnarflokka vilja gera. En þegar málum er lokið með dómi – sekt eða sýknu – eigum við líka að hemja heift okkar og dómgirni. Lögmenn Kaupþingsmanna hafa verið orðvarir eftir dóminn og tveir hinna dæmdu hafa haft vit á því að fara ekki að tjá sig í fjölmiðlum um hann. Hinir tveir sem tjáðu sig höfðu lítinn sóma af því. Það er fráleitt að láta eins og mannréttindi hafi verið brotin á mönnum fyrir þá sök að rétta yfir þeim fyrir markaðsmisnotkun og sýndarviðskipti sem urðu til þess að gjaldeyrisvarasjóður íslensku þjóðarinnar gufaði upp í Money-heaven. Það heyrir ekki undir mannréttindi að vera undanþeginn lögum. Samfélagið virkar ekki þannig að það sé komið undir okkar eigin mati hverju sinni hvort við brjótum lög eður ei, eða manna sem við kaupum til að vera sammála okkur. Maður skyldi ætla að einhver af þeim lögmönnum sem þessir menn hafa – með tugi þúsunda á tímann – ætti að geta útskýrt réttarríkið fyrir umbjóðendum sínum þegar þeir stíga nú niður úr sinni Money-heaven-vídd. Dómstólar dæma og við virðum dóma þeirra. Látum þá okkur helst af öllu að kenningu verða. Og hver er sú kenning? Til dæmis að vanda sig. Að iðka dyggðir en ekki lesti. Að vera hæversk, samviskusöm, nægjusöm, heiðarleg, raunsæ og reglusöm. Að vera lengi að taka ákvarðanir en ekki skjót til ákvarðanatöku; að eiga fyrir því sem keypt er; að greiða skuldir sínar; að hafa langar boðleiðir en ekki stuttar: vera formföst, nákvæm, kurteis, mild í framkomu og laus við hroka. Með öðrum orðum: Að vera allt það sem útrásarvíkingarnir voru ekki og vera aldrei eins og útrásarvíkingarnir voru. Þá kann okkur að farnast vel.Tryllitæki markaðarins Við ættum helst ekki að einskorða uppgjör okkar við tiltekna einstaklinga sem hafi sökum síns illa innrætis misnotað frelsið sem veittist með inngöngunni í EES. Þetta var ekki þannig. Þetta var sambland af aðstæðum og hugmyndafræði og eitruðu samspili þar á milli. Íslendingar kunnu ekkert á óheft viðskipti. Þeir voru eins og Gosi spýtustrákur í bæjarferð, og eyrun strax farin að lengjast. Þeir voru eins og krakkar sem komast undir stýri á tryllitæki án nægilegs undirbúnings og djöflast af stað án fyrirhyggju og grunlaus um torfærur, hindranir og gjótur. Og þegar slíkt varð á vegi þeirra – þá hækkuðu þeir bara viðskiptavildina með velþóknun endurskoðendanna sem enn starfa eins og ekkert hafi í skorist. Bankarnir voru fullir af krökkum úr þjóðardjúpinu. Þau voru vel gefin og vel menntuð á sína vísu, þó að augljóslega hafi vantað í viðskiptamenntunina annars vegar þjálfun siðvits og hins vegar almenna skynsemi. Þau voru ekki illa innrætt en þau voru haldin ranghugmyndum. Þeim var innprentað að peningar væru einhlítur mælikvarði á verðmæti og réttlæti; Markaðurinn væri óbrigðull og óskeikull, Forsjónin sjálf. Úrskurðir hans væru alltaf réttir og endanlegir en maður yrði að vera klókur og ófyrirleitinn til að lifa af. Maður yrði að snúa á aðra. Gróðinn væri markmið og mælikvarði og lífið liði frá einum díl til annars. Yrði manni á myndi Markaðurinn refsa manni en græddi maður á dílnum hefði maður haft rétt fyrir sér. Þau trúðu því að ekkert mætti verða til þess að hindra að Markaðurinn fengi að hafa sinn gang og fara sínu fram; það væri eins og að grípa fram fyrir hendurnar á Forsjóninni sjálfri. Afleiðing þessarar stefnu var allsherjar afnám á regluverki og eftirliti með bönkunum. Þetta var hugmyndafræðin sem smaug um allt samfélagið, og eins og við vitum af reynslunni af alls konar öðrum lokuðum og alskýrandi hugmyndakerfum, endar það með ósköpum þegar heilu þjóðfélögin ánetjast þeim. Það var þessi hugmyndafræði sem felldi samfélagið, ekki innræti einstakra manna. Meira? Já Ísland getur ekki orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð. Íslendingar eru hvorki betri né verri en annað fólk. Og stórhættulegt er að leyfa auðsöfnun nálægt valdauppsprettum stjórnmálaflokkanna, eins og gerðist kringum Kaupþing og Framsóknarflokkinn. Og næst þegar samþykktir koma frá Viðskiptaþingi skulum við ekki leyfa þeim að verða að ríkjandi kenningu heldur láta okkur þær að kenningu verða.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun