Þorrablótið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 26. janúar 2015 00:00 Þorrablót er trúarhátíð. Siðurinn hefur verið rakinn til veitingamannsins og síðar prestsins Halldórs Gröndal sem rak Naustið á sjöunda áratug síðustu aldar og hóf þá nýbreytni að bjóða upp á gamlan íslenskan súrmat undir þessu nafni; og varð afar vinsælt. Til eru þeir sem telja þetta allt saman kænlega markaðssetningu hjá hinum verðandi klerki. Aðrir segja að íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn hafi endurvakið siðinn á 19. öld. Það skiptir ekki máli. Þetta er samverustund á kaldasta og ónotalegasta tíma ársins, til þess fallin að láta fólk hafa yl hvert af öðru – og styrk. Þorrablótið er haldið til þess að öðlast styrk. Það er trúarhátíð.Þorrinn er Morrinn Þetta er ekki bara eitthvert partí. Þorrablótið á sér rætur í forneskju og heiðnum sið. Djúpar rætur, hvað sem kann að líða klerklegum markaðssetningum. Eitt og annað í íslenskri menningu hefur varðveist gegnum aldirnar. Þannig geymdu landsmenn sögur af heiðnum goðum sínum í nokkurs konar pækli sem Snorri Sturluson útbjó með Eddu sinni. Þessi hugmynda- og sagnapækill er skáldamál dróttkvæða og rímna síðar meir, kenningarnar sem vísa iðulega á tilteknar sögur, einkum af Óðni, og með þessum hætti héldust þessar sögur í sameiginlegu minni þjóðarinnar, þar með nokkurs konar trúariðkun. Hið flókna og dulráða skáldamál rímnanna er aðferð við að blóta á laun. Fræðimenn tala gjarnan um að þetta sé inntakslaust orðaprjál, en þá gleymist hitt: að fyrir vikið geymdust þessar sögur í sameiginlegu minni þjóðarinnar. Þorrablótið er önnur tegund af menningarleifum. Í forneskju hefur fólk væntanlega séð fyrir sér einhvers konar vætt með þessu nafni. Að vísu er talað um Þorra sem norskan konung í Orkneyinga sögu, og hafi verið sonur Snæs en faðir Góu. En er augljóslega vættakyns. Aðrir tengja nafnið við Þór og sjá fyrir sér að þarna hafi verið um að ræða Þórsblót. Og því ekki það? Eins og tíðkast um upprunaleg og sjálfsprottin trúarbrögð er hér um að ræða tákngerving náttúruafla og Þorrablótið snýst um að blíðka þau goðmögn sem við heyrum ýla á glugga dag eftir dag, nótt eftir nótt. Reynt er að ná eyrum þessa tákngervings vetrarríkisins, takast á við hann, fá hann til að lina tök sín og hverfa á braut. Þorrinn er nefnilega Morrinn. Köld og lamandi ógnarvera sem allt frýs í kringum. Þess vegna er kvæði Kristjáns Fjallaskálds, sem við syngjum enn, Þorraþrællinn – Nú er frost á Fróni – frásögn af tilraunum manna til að fá Þorrann til að sjá aumur á sér; „æðrast skipstjórinn“ o.s.frv. Í seinasta erindinu tekst það: „Þögull Þorri heyrir / þetta harmakvein“ og endar á því að svífa á braut.Tilvistarleg tjáning Allt hefur merkingu á Þorrablótinu. Það kann að koma manni spánskt (eða öllu heldur íslenskt) fyrir sjónir hversu mikil áhersla er lögð á að neysla matar sé þolraun fremur en nautn; að það sé með öðrum orðum eftirsóknarvert að snæða bragðvondan mat, ólystugan að sjá og óþægilegan í munni og skola honum niður með bragðvondum kúmensnafsi; tala svo hátt og kjamsandi um hversu gott þetta sé. Þetta er ritúal, og þekkist svo sem víðar; oft í formi verulega daunillra osta. Neyslan skilur sauðina frá höfrunum: mér er sagt að á tilteknu Þorrablóti sé talað um „aumingjaborðið“ og er þá vísað til þess að þar mun á boðstólum hefðbundinn veislumatur; það er að segja, bragðgóður matur. Með því að borða þennan mat sannar maður hollustu sína við hið séríslenska og finnur til skyldleika við aðra sem það gera líka. Því neyslan er líka tilvistarleg tjáning, ákveðin tilraun til að éta sig í sátt við hlutskipti sitt sem Íslendingur. Það að leggja sér til munns súrmat og skola niður með snafsi er ígildi þess að fara út í snjóbyl léttklæddur og standa þar keikur og bjóða veðrinu byrginn. Maður undirgengst þolraun og komist maður frá henni án þess að bregða sér eða kúgast er maður jafnframt hertur og reiðubúinn að takast á við frekari raunir. Maður mætir Þorra og horfist í augu við hann án þess að hvika. Þorramaturinn er ekkert eins og hver annar matur heldur er hann þrunginn merkingu, rétt eins og í öðrum trúarathöfnum. Jafnvel mætti segja að súrmaturinn sé nokkurs konar obláta Íslendinga. Þar snæðir Íslendingurinn sauðkindina, sinn þúsund ára förunaut í þessu landi, hann snæðir Íslands þúsund ær. Og hann leggur sér sauðkindina til munns í nokkurs konar mynd ódauðleikans; því súrmaturinn geymist út í hið óendanlega. Og samt er Þorrablótið um leið hið íslenska karnival. Þegar borðhaldið er um garð gengið með tilheyrandi ánægjukjamsi og heitstrengingum um hvílíkt lostæti þetta sé er yfirleitt farið með gamanmál og þar er einatt gert grín að mikilsháttar persónum í samfélaginu – oftast í formi brags sem allir kyrja saman. Karlar – oft í valdastöðum í viðkomandi samfélagi – koma líka fram í kvenmannsklæðum, dilla sér og skrækja, en viðsnúningur á hefðbundnum kynhlutverkum og valdahlutföllum er einmitt helsta einkenni karnivalsins. Slík gleði eykur enn á samkenndina og þá tilfinningu viðstaddra að eiga eitthvað mikilsvert saman og engin ástæða sé til að láta bugast af ótíð og kulda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Halldór 02.11.24 Halldór Baldursson Halldór Að græða 33.400 fótboltavelli Jóna Bjarnadóttir Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun Hvenær nær Bitcoin $1,000,000? Víkingur Hauksson Skoðun „Hækkar bara og hækkar“ Hjalti Þórisson Skoðun Réttlæti Hallgríms Helgasonar Hildur Sverrisdóttir Skoðun Hvert er „útlendingavandamálið“? Karen Kjartansdóttir Skoðun Þrælar bankanna, lykiltölur Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Íslenskan til valdeflingar en ekki valdbeitingar Derek T. Allen Skoðun Hversu góð eru laun lækna? Teitur Ari Theodórsson Skoðun
Þorrablót er trúarhátíð. Siðurinn hefur verið rakinn til veitingamannsins og síðar prestsins Halldórs Gröndal sem rak Naustið á sjöunda áratug síðustu aldar og hóf þá nýbreytni að bjóða upp á gamlan íslenskan súrmat undir þessu nafni; og varð afar vinsælt. Til eru þeir sem telja þetta allt saman kænlega markaðssetningu hjá hinum verðandi klerki. Aðrir segja að íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn hafi endurvakið siðinn á 19. öld. Það skiptir ekki máli. Þetta er samverustund á kaldasta og ónotalegasta tíma ársins, til þess fallin að láta fólk hafa yl hvert af öðru – og styrk. Þorrablótið er haldið til þess að öðlast styrk. Það er trúarhátíð.Þorrinn er Morrinn Þetta er ekki bara eitthvert partí. Þorrablótið á sér rætur í forneskju og heiðnum sið. Djúpar rætur, hvað sem kann að líða klerklegum markaðssetningum. Eitt og annað í íslenskri menningu hefur varðveist gegnum aldirnar. Þannig geymdu landsmenn sögur af heiðnum goðum sínum í nokkurs konar pækli sem Snorri Sturluson útbjó með Eddu sinni. Þessi hugmynda- og sagnapækill er skáldamál dróttkvæða og rímna síðar meir, kenningarnar sem vísa iðulega á tilteknar sögur, einkum af Óðni, og með þessum hætti héldust þessar sögur í sameiginlegu minni þjóðarinnar, þar með nokkurs konar trúariðkun. Hið flókna og dulráða skáldamál rímnanna er aðferð við að blóta á laun. Fræðimenn tala gjarnan um að þetta sé inntakslaust orðaprjál, en þá gleymist hitt: að fyrir vikið geymdust þessar sögur í sameiginlegu minni þjóðarinnar. Þorrablótið er önnur tegund af menningarleifum. Í forneskju hefur fólk væntanlega séð fyrir sér einhvers konar vætt með þessu nafni. Að vísu er talað um Þorra sem norskan konung í Orkneyinga sögu, og hafi verið sonur Snæs en faðir Góu. En er augljóslega vættakyns. Aðrir tengja nafnið við Þór og sjá fyrir sér að þarna hafi verið um að ræða Þórsblót. Og því ekki það? Eins og tíðkast um upprunaleg og sjálfsprottin trúarbrögð er hér um að ræða tákngerving náttúruafla og Þorrablótið snýst um að blíðka þau goðmögn sem við heyrum ýla á glugga dag eftir dag, nótt eftir nótt. Reynt er að ná eyrum þessa tákngervings vetrarríkisins, takast á við hann, fá hann til að lina tök sín og hverfa á braut. Þorrinn er nefnilega Morrinn. Köld og lamandi ógnarvera sem allt frýs í kringum. Þess vegna er kvæði Kristjáns Fjallaskálds, sem við syngjum enn, Þorraþrællinn – Nú er frost á Fróni – frásögn af tilraunum manna til að fá Þorrann til að sjá aumur á sér; „æðrast skipstjórinn“ o.s.frv. Í seinasta erindinu tekst það: „Þögull Þorri heyrir / þetta harmakvein“ og endar á því að svífa á braut.Tilvistarleg tjáning Allt hefur merkingu á Þorrablótinu. Það kann að koma manni spánskt (eða öllu heldur íslenskt) fyrir sjónir hversu mikil áhersla er lögð á að neysla matar sé þolraun fremur en nautn; að það sé með öðrum orðum eftirsóknarvert að snæða bragðvondan mat, ólystugan að sjá og óþægilegan í munni og skola honum niður með bragðvondum kúmensnafsi; tala svo hátt og kjamsandi um hversu gott þetta sé. Þetta er ritúal, og þekkist svo sem víðar; oft í formi verulega daunillra osta. Neyslan skilur sauðina frá höfrunum: mér er sagt að á tilteknu Þorrablóti sé talað um „aumingjaborðið“ og er þá vísað til þess að þar mun á boðstólum hefðbundinn veislumatur; það er að segja, bragðgóður matur. Með því að borða þennan mat sannar maður hollustu sína við hið séríslenska og finnur til skyldleika við aðra sem það gera líka. Því neyslan er líka tilvistarleg tjáning, ákveðin tilraun til að éta sig í sátt við hlutskipti sitt sem Íslendingur. Það að leggja sér til munns súrmat og skola niður með snafsi er ígildi þess að fara út í snjóbyl léttklæddur og standa þar keikur og bjóða veðrinu byrginn. Maður undirgengst þolraun og komist maður frá henni án þess að bregða sér eða kúgast er maður jafnframt hertur og reiðubúinn að takast á við frekari raunir. Maður mætir Þorra og horfist í augu við hann án þess að hvika. Þorramaturinn er ekkert eins og hver annar matur heldur er hann þrunginn merkingu, rétt eins og í öðrum trúarathöfnum. Jafnvel mætti segja að súrmaturinn sé nokkurs konar obláta Íslendinga. Þar snæðir Íslendingurinn sauðkindina, sinn þúsund ára förunaut í þessu landi, hann snæðir Íslands þúsund ær. Og hann leggur sér sauðkindina til munns í nokkurs konar mynd ódauðleikans; því súrmaturinn geymist út í hið óendanlega. Og samt er Þorrablótið um leið hið íslenska karnival. Þegar borðhaldið er um garð gengið með tilheyrandi ánægjukjamsi og heitstrengingum um hvílíkt lostæti þetta sé er yfirleitt farið með gamanmál og þar er einatt gert grín að mikilsháttar persónum í samfélaginu – oftast í formi brags sem allir kyrja saman. Karlar – oft í valdastöðum í viðkomandi samfélagi – koma líka fram í kvenmannsklæðum, dilla sér og skrækja, en viðsnúningur á hefðbundnum kynhlutverkum og valdahlutföllum er einmitt helsta einkenni karnivalsins. Slík gleði eykur enn á samkenndina og þá tilfinningu viðstaddra að eiga eitthvað mikilsvert saman og engin ástæða sé til að láta bugast af ótíð og kulda.