„Ég hef aðeins verið að hugsa minn gang hérna heima í jólafríinu,“ segir framherjinn Kjartan Henry Finnbogason, en hann gæti verið á heimleið frá danska félaginu Horsens.
„Ég hef verið meiddur og ekki getað hjálpað liðinu. Liðinu hefur síðan ekki gengið sem skyldi. Svo er ég einn úti án fjölskyldunnar og það hefur verið erfitt,“ segir Kjartan Henry en hann ætlar ekki að gefast upp og mæta sterkur til leiks í mars er deildin hefst á ný.
Engu að síður er fjárhagsleg staða félagsins ekki góð þó svo það horfi til betri vegar. Leikmaðurinn hefur kannað hvernig landið liggur hér heima síðustu daga.
„Ég vil vita að hverju ég geng ef ég kem heim. Ég spjallaði aðeins við Bjarna [þjálfara KR] en hann er góðvinur minn. Ég spjallaði líka við FH-ingana. Ég hef snúist í nokkra hringi með það hvað ég ætti að gera núna um jólin. Það er gott að vita að hverju ég geng hér heima,“ segir framherjinn en það er alls ekki öruggt að hann spili með KR komi hann heim enda hefur FH mikinn áhuga.
„Það er ekki sjálfgefið að ég fari í KR. Ég er samt auðvitað KR-ingur og það vita allir. Þeir þurfa að vilja fá mig. Ég myndi alltaf kjósa KR en það er ekkert sjálfgefið í þessu og ég er opinn fyrir öllu.“
Íslenski boltinn