Handbolti

Þriðji sigur Hauka í röð | Eyjakonur með fullt hús stiga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vera Lopes og stöllur hennar í ÍBV sitja ósigraðar á toppi deildarinnar.
Vera Lopes og stöllur hennar í ÍBV sitja ósigraðar á toppi deildarinnar. vísir/valli
Haukar unnu sinn þriðja leik í röð í Olís-deild kvenna í handbolta þegar Stjörnukonur komu í heimsókn í Schenker-höllina í dag.

Lokatölur 25-19, Haukum í vil, en Hafnfirðingar leiddu með átta mörkum eftir fyrri hálfleikinn, 14-6.

Haukar voru mun sterkari aðilinn í dag en miklu munaði um markvörslu Elínar Jónu Þorsteinsdóttur sem varði á þriðja tug skota.

Portúgalski leikstjórnandinn Maria Ines Da Silve Pereira var markahæst í liði Hauka með 11 mörk mörk en Ramune Pekarskyte kom næst með fimm mörk.

Helena Rut Örvarsdóttir skoraði sex mörk fyrir Stjörnuna sem er með sex stig í 7. sæti deildarinnar.

Eyjakonur eru með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir öruggan 12 marka sigur, 32-20, á KA/Þór á heimavelli í dag.

Greta Kavaliuskaite og Drífa Þorvaldsdóttir skoruðu sjö mörk hvor fyrir ÍBV sem hefur farið frábærlega af stað undir stjórn Hrafnhildar Skúladóttur.

Hulda Tryggvadóttir og Birta Fönn Sveinsdóttir skoruðu báðar fjögur mörk fyrir KA/Þór sem bíður enn eftir sínum fyrsta sigri í vetur.

Valskonur hafa byrjað tímabilið vel og þær unnu sjö marka sigur, 25-18, á Fylkir í Vodafone-höllinni í dag.

Valur er með 10 stig í 2. sæti deildarinnar en liðið hefur unnið fimm af fyrstu sex leikjum sínum.

Morgan Marie Þorkelsdóttir og Íris Ásta Pétursdóttir skoruðu fimm mörk hvor fyrir Val en Patricia Szölösi var atkvæðamest í Árbæinga með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×