Lífið

Yfir 4.000 miðar seldir í The Color Run

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr Litahlaupinu sem fram fór í Abu Dhabi.
Úr Litahlaupinu sem fram fór í Abu Dhabi. vísir/getty
Nú hafa selst um það bil fjögur þúsund miðar af þeim sex þúsund miðum sem í boði eru í The Color Run sem fram fer í Reykjavík í sumar og hefur miðasala gengið vonum framar.

„Við opnuðum fyrir forsölu á midi.is í lok síðasta árs vegna þess að það var farið að spyrjast út að hlaupið yrði hér á landi í sumar og það var aðallega vegna þrýstings sem við opnuðum fyrir miðasöluna svona snemma,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, einn forsvarsmanna hlaupsins hér á landi.

„Planið var að byrja með miðasöluna núna í apríl þannig að við byrjuðum að birta auglýsingar um hlaupið á dögunum en hingað til hefur aðeins verið umræða um hlaupið á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum. Stemning fyrir hlaupinu hefur verið stigvaxandi og nú hafa yfir 10.000 manns merkt sig á viðburðinn á Facebook þannig að miðað við þann áhuga og söluna upp á síðkastið þá verður uppselt á viðburðinn áður en langt um líður.“

Fyrirtæki gefa hlaup í sumargjöf

Davíð segir að þó nokkuð sé um að fyrirtæki séu að kaupa talsverðan fjölda af miðum til að gefa í sumargjafir til starfsmanna sinna.

„Mörg fyrirtæki hafa haft samband og vilja koma á hópefli á meðal starfsfólks, hrista hópinn saman í skemmtilegri upplifun. Sum hafa ákveðið að taka þátt í hlaupinu sem hluta af vinnudegi starfsmanna og ætla að vera sérstaklega merkt í hlaupinu í skemmtilegri hópstemningu. Þetta er bara gaman og gerir ekkert annað en að krydda hlaupið. Það eru reyndar ekki bara fyrirtæki sem gera þetta. Til dæmis er rúmlega 100 manna æfingahópur í Reykjanesbæ sem ætlar að mæta í hlaupið saman þannig að þetta er skemmtilegt tækifæri fyrir hópa af ýmsum stærðum og gerðum,“ segir Davíð.

The Color Run hefur farið sigurför um heiminn síðustu 3 ár og stöðugt fjölgar löndum og borgum sem halda hlaupið. Á þessu ári verður hlaupið í meira en 50 löndum og borgirnar orðnar vel rúmlega 200. Hlaupið fer fram þann 6. júní í sumar í Reykjavík og hægt er að kaupa miða í hlaupið á midi.is.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.