Helena er sautján ára nemi á alþjóðabraut við Verzlunarskóla Íslands en á dögunum fékk hún skilaboð frá ókunnugri stelpu um að nektarmynd af henni væri komin inn á síðu þar sem menn skiptast á nektarmyndum undir nafnleynd. Myndina hafði Helena tekið sjálf af sér og sett á netið í tengslum við #freethenipple herferðina.
Free the nipple fokkers pic.twitter.com/LfYjucPNDr
— Helena (@helenabjorkk) March 25, 2015
Síðan sem um ræðir hefur verið uppi í lengri tíma en lögreglan stendur máttlaus gagnvart henni. Á henni á finna myndir af stelpum á aldrinum tólf til nítján ára. Í flestum tilfellum eru stúlkurnar nafngreindar, sagt hvaðan þær koma og hvenær þær eru fæddar.
„Hefði ég lent í þessu fyrir ári síðan hefði ég ábyggilega farið undir sæng og grátið mig í svefn en ekki núna. Það er það sem mér finnst svo frábært við þessa byltingu. Ég meina, já, ég er með brjóst, hvað ætlið þið að gera í því? Líkaminn minn er ekki kynferðislegur nema þegar ég ákveð að hann sé það,“ segir Helena. „Með því að setja myndir af sér sjálfar taka stelpur valdið af þessum ógeðum.“
@helenabjorkk pic.twitter.com/Uxy1Iiy46f
— Helena (@helenabjorkk) October 25, 2015
„Hann fann myndirnar, náði að sækja þær með hellings vinnu því það er ekkert auðvelt mál, og kom þeim í dreifingu meðal bekkjarbræðra okkar. Mér leið ömurlega í margar vikur eftir á og þetta er eitt það versta sem ég hef lent í,“ segir Helena. „Þetta fór bara í dreifingu hjá fáum og ég veit ekki hvað ég hefði gert hefði þetta endað á síðu á borð við þessa.“
Aðspurð segir Helena að #freethenipple hafi breytt heilmiklu. Á tímabilinu fyrir byltinguna hafi drusluskömmin (e. slutshaming) verið svo mikil í samfélaginu öllu en það hafi breyst mjög til hins betra á nánast einni nóttu.
Sjá einnig: Deila klámmyndum af ungum stelpum en sleppa
„Það er ekkert langt síðan að ég hugsaði þegar einhver varð fyrir barðinu á hefndarklámi að þetta væri bara henni að kenna. Hún tók myndina, hún sendi hana. En það er auðvitað ekki svo. Það þarf að segja fólki það sem fyrst og enn sem komið er vantar svo mikla fræðslu um þetta,“ segir Helena og bætir við að samfélagsmiðlarnir séu gríðarlega öflugt tæki til verksins.
„Það er svo fallegt hvernig netið, sem var aðalvopn þessara hrotta, hefur snúist í höndunum á þeim og tekið þá niður,“ segir hún. „Ég vona bara að þeir sem eru enn að standa í þessu átti sig sem fyrst á því að þeir eru ógeðin í þessu máli. Þeir hafa ekkert í höndunum. Við ráðum okkur sjálfar.“