Lífið

Frítt í bíó um helgina

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Kristinn segir góðan anda ríkja í húsinu.
Kristinn segir góðan anda ríkja í húsinu. Vísir/Ernir
Haldið verður upp á 70 ára sýningarafmæli Bæjarbíós í Hafnarfirði um helgina.

Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar tók við rekstri bíósins vorið 2014 af Kvikmyndasafni Íslands.

„Við höfum verið að viðhalda bæði kvikmyndaþættinum og einnig erum við að breyta húsinu í tónleika- og viðburðastað fyrir smærri leiksýningar og uppistand,“ segir Kristinn Sæmundsson, viðburðastjóri og menningarstjóri Menningar- og listafélags Hafnarfjarðar.

Hann segir mikla sál búa í húsinu. „Fólki þykir svo vænt um þetta hús og þetta er svo frábær viðburðastaður. Þetta „lúkkar“ svo vel, Kvikmyndasafnið hélt svo vel utan um þetta.“

Þann 10. janúar árið 1945 bauð bæjarstjórn Hafnarfjarðar íbúum bæjarins frítt í bíó. „Við ákváðum að fylgja fordæmi bæjarstjórnar frá því fyrir sjötíu árum og bjóða bæjarbúum í bíó,“ segir Kristinn.

Nóg er framundan hjá Bæjarbíói. „Við ætlum meðal annars að vera með eina pólska mynd í mánuði og eina krakkamynd og við ætlum að vera með einhvers konar hljómsveitakeppni núna í mars,“ segir Kristinn en hann segir af nægu að taka. „Svo höldum við bara áfram að sulla í rjómanum, það er nóg af rjóma á Íslandi.“

Afmælishátíðin hefst klukkan tvö, en frítt verður í bíó og boðið upp á afmælisköku. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×