Bílar

Allt um Tesla Model X: Er aðeins 3,2 sekúndur í 100

Finnur Thorlacius skrifar
Við kynninguna á Tesla Model X í gær.
Við kynninguna á Tesla Model X í gær.
Nú þegar Tesla er búið að svipta hulunni af nýjum Model X jepplingi sínum er rétt að skoða hverskonar bíll þetta er. Í fyrsta lagi gengur hann alfarið fyrir rafmagni, rétt eins og Model S bíllinn og kemst við bestu aðstæður 420 km á hverri hleðslu.

Með sínar stóru rafhlöður vegar hann 2.450 kíló en samt er hann æði snöggur og kemst í 100 km hraða á litlum 3,2 sekúndum. Það hjálpar við upptökuna að bíllinn er fjórhjóladrifinn, hvað annað fyrir jeppling?

Afar þunn sæti eru í bílnum en vafalaust þægileg.
Bíllinn er 7 sæta með þrjár sætaraðir og sætin er þynnri en almennt hefur sést í bílum. Margt er sameiginlegt í Model X og í Model S og fyrir miðju mælaborði þeirra beggja er risastór aðgerðarskjár sem stjórnar nær öllu í bílnum, meðal annars 17 hátalara hljóðkerfinu sem er víst ótrúlegt til hlustunar. 

Bílarnir eru byggðir á sama undirvagni og drifrásin er eins. Model X er með fiðrildahurðum sem opnast upp, en það er Model S ekki. Elon Musk, stofnandi og aðaleigandi Tesla segir að Model X hafi fengið fimm stjörnur á öllum sviðum árekstarprófana og bíllinn sé öruggasti bíll í heimi. Model X bremsar sjálfur ef farið er of nálægt næsta bíl og eykur það enn á öryggi hans. 

Í bílnum eru filterar sem sía út skaðlegar bakteríur, vírusa, fræ, sót og annan ófögnuð úr andrúmsloftinu og segir Musk að þar fari 300 sinnum betri sía en almennt gerist í bílum. Loftgæði inní bílnum er því eins og best gerist á skurðstofum spítala.

Fiðrildahurðirnar eru sérstakar.
Fiðrildahurðirnar eru með skynjara sem leyfa aðeins opnun ef til þess er pláss. Burðargeta Model X er 2.270 kíló og þó 7 manns séu í bílnum er greinilega hægt að flytja mun meira í bílnum. Í öflugustu gerð Model X og þegar stillt er á “Ludicrous-Mode” er bíllinn aðeins 3,2 sekúndur í 100 km hraða með sín 762 hestöfl. 

Tesla hefur nú þegar tekið á móti 25.000 pöntunum í Model X og hefjast afhendingar á bílnum fyrir alvöru í byrjun næsta árs, meðal annars til Íslands en nú þegar hefur Even, söluaðila Tesla bíla á Íslandi, borist 34 pantanir í bílinn. Í dag hefur Even selt eina 40 bíla af Tesla Model S og fleiri þannig bílar eru á leiðinni. Þeim fer því hratt fjölgandi Teslunum á götum landsins.

Hér fyrir neðan má sjá Elon Musk, forstjóra Tesla, svipta hulunni af Model X í verksmiðju fyrirtækisins í Fremont í Kaliforníu í gær.


Tengdar fréttir






×