Lífið

Elska að leika og koma fram á sviði

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Emma og Edda hafa verið bestu vinkonur í tvö ár og nú eru þær að leika saman á sviði ásamt fleiri krökkum á leiklistarnámskeiði í Kópavogi.
Emma og Edda hafa verið bestu vinkonur í tvö ár og nú eru þær að leika saman á sviði ásamt fleiri krökkum á leiklistarnámskeiði í Kópavogi. Vísir/Stefán
Emma Kristín Ákadóttir og Edda Guðnadóttir eru bekkjarsystur og bestu vinkonur. Þær semja dansa og búa til vídeó, hafa báðar áhuga á fótbolta og leiklist og eru núna á námskeiði hjá Leikfélagi Kópavogs.

Emma Kristín og Edda eru báðar á 11. ári og eru í 6. bekk í Lindaskóla í Kópavogi. Íþróttir eru eftirlæti þeirra beggja og Emma nefnir líka íslensku og Edda heimilisfræði þegar þær eru spurðar um uppáhaldsfög í skólanum.

Þær segjast vera alltaf saman. „Við kynntumst í 4. bekk þegar Edda flutti heim til Íslands frá Noregi. Við byrjuðum að leika okkur og urðum fljótt góðar vinkonur,“ lýsir Emma „Já, við leikum mikið úti, svo búum við til dansa og förum í fótbolta, “ segir Emma. „Og gerum vídeó,“ bætir Edda við.

Núna eru þær Edda og Emma á námskeiði hjá Leikfélagi Kópavogs einu sinni í viku og þykir gaman. „Við lærum margt um leiklist og æfum leikrit sem við munum sýna,“ segir Emma sem kveðst hafa mikinn áhuga á leiklist. „Ég elska líka að leika og koma fram á sviði,“ segir Edda.

Skyldu þær þurfa að læra hlutverk utanbókar?

„Já, við fáum handrit með okkur heim og þurfum að læra línur okkar persóna utanbókar,“ lýsir Emma sem ekki kveðst hafa leikið áður. Edda er vanari. „Ég lék í Noregi í fyrravetur, þar lék ég frænku aðalsöguhetjunnar og söng mikið og síðan var ég á námskeiði hjá Leynileikhúsinu í sumar og lék þar lítið barn.“

Fyrir utan leiklistina dýrka þær báðar að fara á skíði. En hvað langar þær að gera í framtíðinni? „Ég ætla að verða lögfræðingur,“ segir Emma einbeitt. „Mig langar að vera danskennari í hipphopp, spila fótbolta og vera í leiklist auðvitað,“ svarar Edda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.