Bílar

Leaf með langdrægari rafhlöðu

Finnur Thorlacius skrifar
Nissan Leaf.
Nissan Leaf.
Nissan hefur tilkynnt að frá og með janúar á næsta ári verði rafmagnsbíllinn Nissan Leaf einnig í boði með nýrri 30kWh rafhlöðu í dýrustu útgáfu Nissan Leaf. Samkvæmt uppgefnum tölum framleiðanda er drægni hennar 245 km á einni hleðslu miðað við bestu aðstæður. Það er um 23% aukning frá núverandi 24kWh rafhlöðu sem verður áfram í boði í Leaf.

Reynslan sýnir að kalt veðurfar minnkar drægni rafhlaða og er sú raunin á norðlægum slóðum þar sem Leaf er í boði, m.a. í Noregi og á Íslandi. Ólíklegt er því að nýja rafhlaðan skili 245 km drægni hér á landi þegar hún kemur á markað. Þó ber að hafa í huga að nýja 30kWh rafhlaðan var þróuð og hönnuð á grundvelli nýrrar og enn fullkomnari tækni þar sem notuð voru ný efni sem geymt geta mun meiri orku en núverandi rafhlaða.

Minni drægni í kaldari löndum

Ekki er því ljóst á þessari stundu hver drægni nýju rafhlöðunnar verður á Íslandi. Með fyrirvara má þó reikna með að 30kWh rafhlaðan muni draga að minnsta kosti á bilinu 150 til 185 km sem svarar um það bil til vegalengdarinnar frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal eða rúmlega vegalendarinnar til Staðarskála í Hrútafirði.

Nissan er enn sem komið er eini bílaframleiðandi heims sem býður svo langdræga rafhlöðu í fjöldaframleiddum bíl í þessum stærðarflokki á heimsmarkaði. Framleiðandinn heldur því enn forskoti sínu á þessu sviði enda hefur enginn fjöldaframleiddur rafbíll náð viðlíka útbreiðslu og Leaf. Jafnframt er ljóst að með tilkomu nýju rafhlöðunnar verður Nissan Leaf enn ákjósanlegri valkostur fyrir bíleigendur sem nú aka bíl með bensín- eða dísilvél að sögn Paul Willcox, forstjóra Nissan í Evrópu.

Sama notendavæna umhverfið

Nýja 30kWh rafhlaðan er nákvæmlega jafnstór og núverandi 24kWh rafhlaða í Leaf en um 21 kg þyngri. Hleðslumöguleikar verða óbreyttir, hvort sem er við heimahús eða á hraðhleðslustöðvum, þar sem hægt verður að hlaða rafhlöðuna upp að 80% á 30 mínútum eins og núverandi 24kWh rafhlöðu.

Nissan Leaf er framleiddur í verksmiðju Nissan í Sunderland í Bretlandi og hefst sala á stærri rafhlöðunni á Evrópumörkuðum í janúar. Nissan mun á næstu vikum tilkynna verð og útbúnað á einstökum mörkuðum.






×