Lífið

„Þurfum að sýna meira umburðarlyndi“

Rikka skrifar
visir/stefán
Rósa Guðbjartsdóttir er mörgum hæfileikum gædd og hefur ástríðu fyrir því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er með sterka framtíðarsýn á það hvernig fyrirmyndarbæjarfélag eigi að líta út og vinnur hörðum höndum að því að láta þá sýn verða að veruleika með störfum sínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Aðspurð hvernig hún nái að halda utan um allt það sem hún er að fást við segist hún leggja áherslu á gott mataræði auk þess sem góður svefn sé lykilatriði.

„Ég vakna yfirleitt fyrir klukkan sjö á morgnana og kem mér af stað út í daginn. Ég sef undantekningarlaust mjög vel í 6-7 tíma. Það skiptir líka máli að ég hef gaman af því sem ég er að fást við. Ég kvíði aldrei verkefnum þrátt fyrir að þau séu oft á tíðum krefjandi og yfirgripsmikil. Það eru forréttindi að fá að starfa við það sem maður hefur unun af,” segir Rósa sem sinnir ansi fjölbreyttum og ólíkum störfum.

„Eftir að við Sjálfstæðismenn komumst í meirihluta með Bjartri framtíð, þá hefur aukinn tími minn farið í að sinna pólitíkinni. Ég er formaður bæjar- og fræðsluráðs auk þess að vera oddviti sjálfstæðimanna í bænum.”

Meðfram pólitíkinni starfar hún með eiginmanni sínum Jónasi Sigurgeirssyni við bókaútgáfu, en hann rekur bókaútgáfurnar Bókafélagið, Almenna bókafélagið og barnabókaútgáfuna Unga ástin mín.

„Ég hef aðallega verið að ritstýra bókum og sinnt markaðsmálum. Ritlistin hefur alltaf verið áhugamál hjá mér og legið vel fyrir mér frá því ég var barn. Mér fannst skemmtilegast í skóla þegar átti að skrifa ritgerðir og fékk fljótt áhuga á blaðamennsku.”

Rósa ásamt börnunum sínum Sigurgeiri, Margréti Lovísu og Jónasi Bjartmari.
Sjálf er Rósa alin upp í kringum bækur þar sem faðir hennar var prentari og var hún oft í kringum hann í prentsmiðjunni. Þar kynntist hún þeirri vinnu sem liggur að baki hverri bók.

„Pabbi var alltaf að spá í útlit bóka, pappírinn, myndirnar, litina og þess háttar og ég hef erft þennan áhuga. Í mínum huga er ilmurinn af nýprentuðum bókum alveg einstakur. Bækur voru allt í kringum mig í æsku og ekki síður á heimili móðurforeldra minna. Afi las fyrir mig fram eftir öllum aldri úr þjóðsögunum og öðru bókmenntum og með honum fór ég gjarnan á fornbókasölur bæjarins þar sem grúskað var í gömlum bókum og blöðum.”

Upphafsár ljósvakans

Margir muna eftir vasklegri framgöngu Rósu í fréttum og fjölmiðlum en hún fékk fjölmiðlabakteríuna snemma á lífsleiðinni. „Á menntaskólaaldri fékk ég tækifæri til þess að skrifa greinar fyrir Sam-útgáfuna hjá frænda mínum Þórarni Jóni Magnússyni, fyrir Hús og híbýli og fleiri tímarit. Honum líkaði það sem ég var að gera og fól mér fleiri verkefni, þannig byrjaði blaðamennskuferillinn.” Eftir menntaskóla sótti Rósa nám í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og vann sem blaðamaður á DV á sumrin meðfram skólagöngunni.

„Þetta var mjög lærdómsríkur tími á DV og stór hópur þeirra sem þar vann er enn þann dag í dag að vinna við fjölmiðla.” Haustið 1986 urðu þáttaskil í íslenskum fjölmiðlum þegar Bylgjan, fyrsti frjálsi ljósvakamiðillinn hóf útsendingar og markaði þar með endalok ríkiseinokunar í ljósvakafjölmiðlum.

„Það var mikil spenna og eftirvænting í þjóðfélaginu fyrir þessari nýbreytni. Ég sótti um ásamt mörg hundruð öðrum og var heilmikið mál að komast að. Það tókst og ég fékk vinnu sem dagskrágerðarkona sem ég svo sinnti meðfram háskólanámi. Í nokkur ár var ég með magasínþætti, aðallega um helgar og tók til dæmis fljótt að mér að sjá um bókaþætti fyrir jólin. Þá fékk ég til mín höfunda í spjall um nýútkomnar bækur sínar. Það er gaman að sjá hvernig þetta tengist allt saman við það sem ég sýsla við í dag.”

Eftir að hafa verið í dagskrárgerð í nokkur ár færði Rósa sig yfir á fréttastofuna sem fljótlega var sameinuð fréttastofu Stöðvar 2. Þar starfaði hún sem fréttamaður í um tíu ár. „Við sem vorum að vinna þarna saman á þessum tíma rifjum það oft upp hvað þetta var spennandi tími og frábært tækifæri að fá að taka þátt í þessum uppbyggingarárum fréttastofunnar.”

Rósa ásamt Bjartmari haustið 2003.
Jónas, eiginmaður Rósu, var á þessum tíma í útgáfurekstri en hafði lengi haft hug á því að verða sér úti um viðskiptafræðimenntun á erlendri grundu og ákváðu því hjónin að flytjast búferlum til Flórída í Bandaríkjunum.„Þetta var rétt fyrir síðustu aldamót,” segir Rósa brosandi. „Þarna vorum við búin að eignast tvo litla drengi þannig að ég ákvað að vera heima við með strákana sem þá voru níu mánaða og fjögurra ára.”

Rósa sat þó ekki lengi verkefnalaus og fór að skrifa greinar um mat fyrir Gestgjafann. „Þarna var internetið rétt að byrja og stundum þurfti að bíða í dágóðan tíma eftir því að ná sambandi. Í gegnum tölvupóst gat ég sent pistla og uppskriftir en myndir þurftu að fara póstleiðis í formi negatíva.”

Bjartmar var lítið kraftaverk

Stuttu áður en litla fjölskyldan snéri heim á ný hafið Rósa hafið nám í almannatengslum í kvöldskóla.

„Ég er nýlega búin að rifja það upp fyrir sjálfri mér eftir að hafa verið að skoða gögn frá þessum tíma að eitt af verkefnunum sem við fórum í gegnum í náminu var að búa til herferð fyrir krabbameinsveikt barn. Kennarinn var með raunverulegt dæmi sem hann þekkti til og við áttum að hjálpa honum að búa til fjáröflunarherferð. Það er dálítið sérstakt í ljósi þess sem ég átti stuttu síðar eftir að ganga í gegnum sjálf með mitt barn.”

Björt framtíð blasti á þessum tíma við ungu fjölskyldunni þegar áfallið sem breytti lífi þeirra dundi yfir. „Þegar Bjartmar, yngri sonur okkar, var tæplega tveggja ára þá kemur í ljós að hann er með taugakímsæxli sem er eitt af erfiðari krabbameinum sem börn greinast með. Æxli af þessu tagi eru meðfædd en oft á tíðum illgreinanleg í ungum börnum þar sem þau eiga erfitt með að lýsa því hvað amar að þeim.”

Fjölskyldan snéri strax heim til Íslands þar sem að Bjartmar hóf stranga krabbameinsmeðferð bæði hér heima sem og erlendis. „Eftir tæpa átta mánuða baráttu komu loks góðar fréttir og engin einkenni um sjúkdóminn fundust í líkamanum.”

Bjartmar braggaðist vel og við tóku betri tímar og uppbygging í fjölskyldunni. „Bjartmar virtist vera algjört kraftaverk, hann var mjög hress og virtust meðferðirnar hafa lítil sem engin áhrif á hann. Hann fór í leikskóla, spilaði fótbolta, var skýr og orkumikill.” Tæpum þremur árum síðar fékk fjölskyldan þau hörmulegu tíðindi að sjúkdómurinn hefði tekið sig upp aftur.

„Við fengum að vita það að sjúkdómurinn væri kominn aftur á fulla ferð og í þetta skipti var ekkert hægt að gera, tveimur mánðuðum síðar var hann dáinn, þremur mánuðum fyrir sex ára afmælið sitt.”

Rósa var á þessum tíma framkvæmdastjóri Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Starf hennar gekk út á að finna leiðir til að létta líf barnanna og fjölskyldna þeirra sem í flestum tilvikum gekk vel hjá og læknuðust af sjúkdóminum. Stundum þurfti að aðstoða foreldra sem höfðu misst börnin sín.

„Þó að starfið hafi að mörgu leyti tekið á þá var það mjög gefandi. Ef ég lít í minn eigin barm þá er ekki spurning um að það hafi hjálpað mér í því hvernig ég tók á minni sorg, að hafa kynnst foreldrum sem misst höfðu börn sín, þó svo að ekkert geti búið mann undir slíkan missi. Ég starfa enn fyrir félagið og hef gegnt formennsku í stjórn þess undanfarin sex ár. Þessi heimur er svo stór hluti af mér og ég finn mig knúna til að gefa af mér og starfa fyrir málstaðinn.”

Við útgáfu bókarinnar Hollar og heillandi súpur ásamt þeim Haraldi L. Haraldssyni bæjarstjóra og Ólöfu Thorlacius, eiginkonu hans.
Árásir oft óvægnar

Um mánuði eftir að Bjartmar lést hitti Rósa eldri konu sem hafði misst son sinn fjörutíu árum áður af slysförum. „Hún kom til mín með tárin í augunum og sagði: ,,Rósa mín, það er ekkert annað að gera en að að bíta á jaxlinn.“ Þetta hljómaði dálítið kaldranalegt en eftir því sem árin líða þá veit ég hvað það er mikið til í þessu. Þú þarft að ætla þér að halda áfram og horfa fram á við. Í dag horfi ég til baka með þakklæti fyrir að hafa þó fengið að eiga þennan ljúfa og einstaka dreng og ganga með honum í gegnum lífið, þótt þessi hafi orðið örlög hans.”

Að sögn Rósu hefur þessi erfiða lífsreynsla hert hana en um leið stækkað hjartað hennar og dýpkað skilning á lífinu. „Stjórnmálin geta oft á tíðum skapað þreytandi aðstæður og oft er verið að takast á um einhverja smámuni. Ég er orðin mjög brynjuð gagnvart slíku og læt ekki slá mig út af laginu. Um leið er maður fullur samkenndar í garð þeirra sem minna mega sín og get vel sett mig í spor þeirra sem eiga um sárt að binda.”

Rósa ber sterkar taugar til Hafnarfjarðar og þegar hún er spurð að því hvort hún stefni á að taka þátt í landsmálapólitík segist hún vera mjög ánægð í því sem hún fæst við í dag. Hvað framtíðin ber í skauti skal ósagt látið og bætir svo við að hún gangi svo sannarlega ekki með þingmann í maganum. „Mér þykir gríðarlega vænt um bæinn minn og finnst ég vera rétt að byrja í því verkefni að gera hann enn betri til að búa og starfa í. Það er gaman að geta séð sínar áherslur verða að veruleika. Ég geri mér grein fyrir að það er sjaldan einhugur á bak við stórar ákvarðanir og þær eru misvinsælar. Því er mikilvægt að vera sannfærður um að vera að gera rétt og hafa kjark til að taka erfiðar ákvarðanir. Að mínu mati skiptir það miklu máli að eiga í góðum samskiptum við fólkið í samfélaginu og taka svo faglegar og skynsamlegar ákvarðanir út frá vel skoðuðum málum.” Aðspurð hvernig henni takist að eiga við eilíft argaþras og vanþakklæti sem pólitíkusum er oft á tíðum sýnd segist Rósa vera heilluð af pólitík og finnist hún ekki þreytandi.

„Þetta virkar kannski út á við sem mikið argaþras og get því vel skilið að fólk hafi sífellt minni áhuga á stjórnmálaþátttöku. Reyndar myndi ég segja að eitt af helstu meinum okkar samfélags sé þetta endalausa nagg og nag sem endurspeglast gjarnan á netinu og í stjórnmálaumræðunni. Það er auðvitað með ólíkindum hvernig fullorðið fólk getur stundum hagað orðum sínum á samfélagsmiðlunum og sett óhikað fram óvægna gagnrýni og árásir á einstaklinga. Við myndum ekki líða börnunum okkar að tala þannig við hvert annað. Við þurfum að sýna meira umburðarlyndi og virðingu fyrir öðrum og ólíkum skoðunum. Þar þarf hver og einn að leggja sitt af mörkum.”

Hughrif og innblástur

Rósa Guðbjartsdóttir er ansi fjölhæf og gaf nýlega út matreiðslubókina Hollar og heillandi súpur. „Ég hef löngum heillast af matargerð og því að lesa um allt sem tengist mat. Sem unglingur vann ég á veitingahúsinu Gaflinum þar sem ég lærði ýmislegt í matreiðslu. Þetta hefur bara alltaf einhvern veginn fylgt mér og þegar ég byrjaði að skrifa fyrir Gestgjafann á sínum tíma þá vatt þetta áhugamál smám saman upp á sig.”

Súpubók Rósu er sú þriðja í röðinni en áður gaf hún út bækurnar Eldað af lífi og sál og Partíréttir. „Þetta eru allt uppskriftir sem fylgja mér og þróast með árunum, ég sest ekki niður og skrifa eina matreiðslubók heldur fær hún að þróast. Fyrir mér er þetta áhugamál sem ég finn mig í eins og aðrir sem setjast niður og prjóna eða mála.” Rósa hefur undanfarin ár tekið ljósmyndirnar í bækurnar sínar sjálf og hefur sterkar skoðanir á endanlegu útliti bókanna.

„Mér finnst miklu máli skipta að bækurnar séu fallegar og aðgengilegar. Þær eiga líka að hafa þau áhrif á lesandann að hann verði fyrir hughrifum og fylli hann innblæstri.” Rósa er sjálf eins og vel skrifuð bók sem fyllir þá sem í kring eru innblæstri með hlýlegri en um leið öruggri framkomu sinni. Með stóru hjartalagi og skynsemina að vopni virðast henni allir vegir færir, það verður því fróðlegt að sjá hvað hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×