Lífið

Hera Hilmars heiðruð í Berlín: Tók við verðlaununum frá Natalie Portman

Bjarki Ármannsson skrifar
Hera tók við viðurkenningunni frá sjálfri stórstjörnunni Natalie Portman.
Hera tók við viðurkenningunni frá sjálfri stórstjörnunni Natalie Portman. Vísir/Wire/Stefán
Leikkonan Hera Hilmarsdóttir, sem meðal annars hefur leikið í kvikmyndinni Vonarstræti og þáttaröðinni Da Vinci‘s Demons, var í kvöld heiðruð á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín en hún er í hópi tíu ungra evrópskra leikara sem talin eru „rísandi stjörnur“ eða „shooting stars.“

Það eru evrópsku kvikmyndakynningarsamtökin EFP sem heiðra tíu leikara á þennan hátt ár hvert. Meðal þeirra sem hafa hlotið þessa viðurkenningu frá því að hún var fyrst veitt árið 1998 má nefna leikarahjónin Daniel Craig og Rachel Weisz, Daniel Brühl og Carey Mulligan. Einnig hafa aðrir Íslendingar á borð við Hilmi Snæ Guðnason og Margréti Vilhjálmsdóttur verið útnefnd.

Hera tók við viðurkenningu frá sjálfri stórstjörnunni Natalie Portman, sem er þekkt fyrir leik sinn í myndum á borð við Black Swan, Leon og Stjörnustríðsmyndunum. Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman gerði kjól Heru og er stödd á hátíðinni. Hún deildi mynd af Heru og Natalie á sviði á Instagram-síðu sinni fyrr í kvöld og segir leikkonurnar orðnar mestu máta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.