Viðskipti innlent

Google hefur fengið 158 beiðnir frá Íslandi um „að gleymast“

ingvar haraldsson skrifar
Google hefur hafnað 72,9 prósent beiðnanna frá Íslandi.
Google hefur hafnað 72,9 prósent beiðnanna frá Íslandi. vísir/ap
Google hefur fengið 158 beiðnir frá Íslandi um að fjarlægja 465 tengla úr niðurstöðum leitarvélar fyrirtækisins. Beiðnirnar koma í kjölfar dóms Evrópudómstólsins í Lúxemborg gegn Google frá því í maí á síðasta ári.

Mannréttindadómstólinn féllst þá á kröfu Spánverjans Mario Costeja González um að Google fjarlægði upplýsingar úr leitarvélinni um að uppboð hefði farið fram á heimili hans árið 1998. Síðan þá hafa einstaklingar geta krafist þess að Google eyddi persónulegum gögnum um þá sem leitarvélin hafði safnað.

Google hefur samþykkt 27,1 prósent beiðnanna frá Íslandi og fjarlægt 108 tengla. Google hefur hafnað að fjarlægja 72,9 prósent tenglanna, alls 291 tengli. Þó er bent á í gegnsæisskýrslu Google að fyrirtækinu gætu hafa borist fleiri beiðnir sem enn á eftir að taka afstöðu til.



Flestar beiðnir komið frá Frakklandi


Í heild hefur Google tekið afstöðu til 213.760 beiðna um að fjarlægja 772.107 tengla síðan dómurinn féll. Þar af hefur Google hafnað að fjarlægja 59,7 prósent tenglanna en samþykkt  að fjarlægja 40,3 prósent þeirra.

Flestar beiðnirnar hafa komið frá Frakklandi. Þar hefur verið farið fram á í 43.288 beiðnum að 144.358 tenglum verði eytt. Google hefur samþykkt að eyða tæplega helming tenglanna eða 48,3 prósent.

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var ranglega hermt að dómurinn gegn Google hefði fallið í Mannréttindadómstól Evrópu en ekki í Evrópudómstólnum í Lúxemborg. Á því er beðist afsökunar.


Tengdar fréttir

126 Íslendingar hafa beðið Google um að gleyma sér

Eftir að Evrópudómstóllinn úrskurðaði um að einstaklingar í Evrópu hafi rétt til þess að tæknirisinn Google gleymi þeim, hafa fjölmargar slíkar beiðnir verið sendar til fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×