Lífið

Seinheppinn húnn át yfir sig og festist í glugganum

Er þetta hinn raunverulegi Bangsímon?

Það er spurningin sem hefur brunnið á fjölmörgum netverjum eftir að margir af stærstu fréttamiðlum heims birtu myndband af seinheppnum rússneskum birni í dag.

Í myndbandinu, sem fengið er af vefsíðu Daily Mail og sjá má hér að neðan, ber að líta raunir húnsins sem hafði klöngrast inn um eldhúsglugga í borginni Kamhatcka í austurhluta Rússlands.

Þegar hann varð húsráðenda var reyndi hann að flýja af hólmi en átti í stökustu vandræðum með að komast út um fyrrnefndan glugga – að öllum líkindum vegna ofáts.

Þórðargleðin var allsráðandi hjá íbúum hússins sem fönguðu svaðilfarirnar á snjallsímana sína og heyra má hlátur þeirra í bakgrunni.

„ Ýtum rassinum, ýtum rassinum!“ segir einn áhorfenda og hlær við.

Eftir um mínútulöng átök tókst birninum loks að skríða út.

Þrátt fyrir að áhorfendum hafi verið skemmt lítur rússneska lögreglan málið nokkuð alvarlegum augum. „Þau höfðu engan rétt á að nálgast dýrið. Jafnvel litlir birnir geta verið hættulegir þegar þrengt er að þeim og þeir eru hræddir,“ sagði talsmaður lögreglunnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×