Lífið

Er óttalegur fýlupúki og nörd

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Jón með borgarskáldinu.
Jón með borgarskáldinu. vísir/stefán
„Þetta eru engin stórkostleg tímamót,“ segir Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, sem fagnar 48 ára afmæli í dag. Jón segist raunar ekki pæla mikið í aldrinum og að hann muni yfirleitt ekki hvað hann sé gamall. „Nei, ég er lítið afmælisbarn sko. Ég er óttalegur fýlupúki og nörd, ég reyni að gera ósköp lítið úr afmælunum mínum,“ segir hann.

„Það er helst fjölskyldan mín sem kemur mér á óvart og svona, þannig að það eru ekki einhverjar stórveislur sem ég er að slá upp. Maður verður náttúrulega bara eldri og eldri, að deyja meira og meira.“

Jón er staddur hér á Íslandi með fjölskyldu sinni yfir jólin en þann 14. janúar snýr hann svo aftur til Houston, stærstu borgar Texas í Bandaríkjunum, þar sem Jón er gestafyrirlesari við Rice-háskólann.

„Ég er að vinna að verkefnum sem tengjast lýðræðismálum, leiðtogafræðum og lýðræðisbreytingum, hvernig má finna leiðir til þess að virkja ólíka hópa í lýðræðisþátttöku. Svo eru pælingar eins og hver sé framtíð lýðræðis – er það að fara að breytast eitthvað mikið eða að blikna eins og það virðist vera að gera.

Þróunin er sú að lýðræðisþátttaka fólks verður minni og minni. Það eru færri og færri sem kjósa og það er sérstaklega áberandi í yngstu hópunum. Síðan eru ítök og áhrif stórfyrirtækja innan stjórnmálanna að aukast líka, en samkvæmt stórri bandarískri rannsókn eru Bandaríkin tæknilega ekki lýðræðisland lengur og það snýst mikið í kringum það hve fjármagn er farið að stjórna miklu.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×