Lífið

Foreldrahlutverkið út frá jógafræðunum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Guðrún segir jóga vera ómissandi part af sínu lífi.
Guðrún segir jóga vera ómissandi part af sínu lífi. Vísir/Vilhelm
„Jóga er náttúrulega í raun og veru kannski bara undirbúningur fyrir lífið. Þegar við erum í jóga þá erum við að styrkja hlutlausa hugann og þennan hluta af okkur sem getur tekið á hlutunum af æðruleysi og sýnt þolinmæði við alls konar aðstæður,“ segir Guðrún Darshan Arnalds, kundalini-jógakennari.

Guðrún hefur staðið að skipulagi námskeiðsins Meðvitað foreldrahlutverk. Á námskeiðinu verður fjallað um foreldrahlutverkið út frá jógafræðum og um leiðir til þess að eiga í skapandi og eflandi samskiptum við börn.

„Þetta er hluti af námi sem við erum búin að vera með í meðgöngujóga, þessi sérstaka helgi er áhugaverð fyrir alla sem koma á einhvern hátt að því að vinna með börnum. Hvort sem það eru foreldrar eða fólk í einhvers konar starfi með börnum,“ segir Guðrún.

Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um afbrýðisemi systkina, samskiptafærni og fjölskyldukarma. „Hugleiðsla og jógaæfingarnar sjálfar geta hjálpað okkur að vinna úr svona mynstrum og venjum.“

Námskeiðinu stjórnar Satya Kaur, jógakennari og ljósmóðir frá Portúgal. „Hún ætlar aðallega að fjalla um hvernig við erum sem foreldrar. Það vantar svolítið í menntakerfið okkar að kenna okkur að vera hamingjusöm og heilbrigð,“ segir Guðrún og bætir við: „Ef við lærðum það ekki sjálf sem börn og lærum það ekki seinna á ævinni getum við ekki kennt börnunum okkar það.“

Hún segir ekki síður mikilvægt að kenna börnum að vera hamingjusöm og að kenna þeim að lesa og skrifa. „Þau kunna það auðvitað í grunninn en kunna það kannski ekki í þessari streitu og álagi sem við búum við.“

Ekki má vanmeta ró og yfirsýn í foreldrahlutverkinu. „Þegar það er mikið að gera og mikil streita í gangi þá er erfitt að halda þessari yfirsýn og stóísku ró sem maður vill geta haft sem foreldri. Þess vegna finnst mér jóga alveg ómissandi í mínu lífi til þess að geta haldið þessum styrk.“ Námskeiðið verður haldið í jógastöðinni Andartak helgina 10. til 11. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×