Lífið

Fimm milljónir nú þegar farnar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigtryggur Baldursson framkvæmdarstjóri Útón er ánægður með styrkinn.
Sigtryggur Baldursson framkvæmdarstjóri Útón er ánægður með styrkinn. vísir/arnþór
„Þessi styrkur kemur sér mjög vel en nú þegar höfum við eytt um fimm milljónum í flug og þess háttar fyrir þá listamenn sem eru að fara frá Íslandi,“ segir Sigtryggur Baldursson, framkvæmdarstjóri Útón. „Ég er glaður með að ríkisstjórnin sé að sýna þessu verkefni stuðning og fagna því mjög,“ bætir Sigtryggur við.

Ríkisstjórn Íslands veitti fyrir helgi 12 milljónum til ÚTÓN vegna Eurosonic Noorderslag ráðstefnunnar og tónlistarhátíðarinnar sem verður haldin í Groningen í Hollandi síðar í þessum mánuði. Þar verður íslensk tónlist í sérstökum brennidepli en nítján íslenskar hljómsveitir og listamenn koma þar fram. „Þetta er góð fjárfesting í menningu myndi ég segja. Það hefði þó verið gott að fá þetta aðeins fyrr því við erum búin að eyða miklum peningum en við erum mjög þakklát,“ bætir Sigtryggur við.

Árið 2011 var Ísland samskonar heiðursþjóð á bókamessunni í Frankfurt en þáverandi ríkisstjórn styrkti það verkefni um 300 milljónir. Talsverður aðstöðumunur er á því að hafa 12 eða 300 milljónir til úrvinnslu.

„Okkar styrkur var samþykktur árið 2007 og var svo dreift á árunum 2008 til 2011 en krónan hrundi auðvitað árið 2008,“ segir Halldór Guðmundsson fyrrum framkvæmdarstjóri Frankfurt-verkefnisins og núverandi forstjóri Hörpu, spurður út í styrkveitinguna. Mikil þýðingarvinna var unnin í kringum bókamessuna. „Árið 2011 komu út 230 titlar, þýddir úr íslensku eða fjölluðu um Ísland í Þýskalandi,“ bætir Halldór við. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×