Engin menntuð þjóð hefur þorað Sigurjón M. Egilsson skrifar 3. janúar 2015 06:30 Þau eru merk tímamótin á þessu ári þegar við minnumst þess, 19. júní í sumar, að þá er ein öld frá því að konur, fjörutíu ára og eldri, og einnig vinnumenn, fjörutíu ára og eldri, fengu kosningarétt. Engin þjóð önnur hafði viðlíka aldursmörk. Merkilegt er að lesa hversu örðugt var að koma málinu áfram á sínum tíma. Á vef Kvennasögusafns Íslands má lesa: „Árið 1911 hafði Alþingi samþykkt frumvarp sem gerði ráð fyrir jöfnum atkvæðisrétti karla og kvenna til Alþingis. Í umræðum um frumvarpið lagði Jón Jónsson í Múla fram breytingartillögu þess efnis að konur skyldu fá kosningarétt, en við 40 ára aldur. Rök Jóns voru þau helst að óráðlegt með öllu væri að fjölga kjósendum um 2/3 hluta í einu. „Engin menntuð þjóð hefur þorað að gera þessu líka tilraun,“ sagði Jón í Múla.“ Hér er ekki rúm til að rekja söguna alla. En skoðum samt: „Í kosningafélaginu Fram, félagi Heimastjórnarmanna, hafði Jón Þorláksson borið upp snemma árs 1912 og fengið samþykkta tillögu um að ráða Alþingi frá því að samþykkja rýmkun kosningaréttarins fyrirvaralaust. Hér var nýr tónn sleginn. Kvenréttindabaráttan hafði verið tiltölulega meinlítil hér á landi fram að þessu, en nú urðu eins og kynslóðaskipti í umræðunni og að meinleysisgríman rynni af þeim karlmönnum sem komu nærri stjórn landsins.“ Mikil var vanþekking karlanna fyrir tæpri öld. Áður en að þangað var náð, þurfti mikið til. Barátta Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og annarra kvenna árin á undan var löng og ströng. Bríet kom víða við í frægri ræðu, „Nokkur orð um menntun og réttindi kvenna“, þar sagði hún meðal annars: „En að hinu leytinu er það skylda kvenna að gjöra allt hvað í þeirra valdi stendur til að sýna, að það sé meira en orðagjálfur eitt, að þær hafi hæfilegleika og vilja til að vera jafningjar bræðra sinna. Þær verða að sýna í verkinu, að þær séu jafnfærar til þess að taka þátt í alvöru lífsins sem skemmtunum þess.“ Staða kvenna í stjórnmálum sem og víðast annars staðar í samfélaginu hefur vissulega gjörbreyst. Fyrir fáum áratugum var staða þeirra allt önnur og veigaminni en hún er nú. Konur mennta sig frekar en karlar, þær eru í forsvari fyrir hlutum sem voru eitthvað svo fjarlægir fyrir ekki svo löngu. Helsti sérfræðingur okkar í súrnun sjávar er ung og vel menntuð kona, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðvá er ung og vel menntuð kona. Hér hafa verið nefnd tvö dæmi, af svo mörgum mögulegum, um hvar konur hafa tekið sér stöðu sem þær höfðu ekki áður. Okkur öllum til framdráttar. Langt er frá fullkomnu jafnrétti. Látum samt þessa tíma aldrei koma aftur: „Það er næsta eftirtektarvert, hversu karlmenn halda öllu frelsi kvenna og réttindum í helgreipum, og það virðist, sem þeir álíti það mikilvæg einkaréttindi, helguð af fornri venju, að vera allt gagnvart þeim, en að þær megi ekkert vera,“ skrifaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir árið 1885. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sigurjón M. Egilsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Þau eru merk tímamótin á þessu ári þegar við minnumst þess, 19. júní í sumar, að þá er ein öld frá því að konur, fjörutíu ára og eldri, og einnig vinnumenn, fjörutíu ára og eldri, fengu kosningarétt. Engin þjóð önnur hafði viðlíka aldursmörk. Merkilegt er að lesa hversu örðugt var að koma málinu áfram á sínum tíma. Á vef Kvennasögusafns Íslands má lesa: „Árið 1911 hafði Alþingi samþykkt frumvarp sem gerði ráð fyrir jöfnum atkvæðisrétti karla og kvenna til Alþingis. Í umræðum um frumvarpið lagði Jón Jónsson í Múla fram breytingartillögu þess efnis að konur skyldu fá kosningarétt, en við 40 ára aldur. Rök Jóns voru þau helst að óráðlegt með öllu væri að fjölga kjósendum um 2/3 hluta í einu. „Engin menntuð þjóð hefur þorað að gera þessu líka tilraun,“ sagði Jón í Múla.“ Hér er ekki rúm til að rekja söguna alla. En skoðum samt: „Í kosningafélaginu Fram, félagi Heimastjórnarmanna, hafði Jón Þorláksson borið upp snemma árs 1912 og fengið samþykkta tillögu um að ráða Alþingi frá því að samþykkja rýmkun kosningaréttarins fyrirvaralaust. Hér var nýr tónn sleginn. Kvenréttindabaráttan hafði verið tiltölulega meinlítil hér á landi fram að þessu, en nú urðu eins og kynslóðaskipti í umræðunni og að meinleysisgríman rynni af þeim karlmönnum sem komu nærri stjórn landsins.“ Mikil var vanþekking karlanna fyrir tæpri öld. Áður en að þangað var náð, þurfti mikið til. Barátta Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og annarra kvenna árin á undan var löng og ströng. Bríet kom víða við í frægri ræðu, „Nokkur orð um menntun og réttindi kvenna“, þar sagði hún meðal annars: „En að hinu leytinu er það skylda kvenna að gjöra allt hvað í þeirra valdi stendur til að sýna, að það sé meira en orðagjálfur eitt, að þær hafi hæfilegleika og vilja til að vera jafningjar bræðra sinna. Þær verða að sýna í verkinu, að þær séu jafnfærar til þess að taka þátt í alvöru lífsins sem skemmtunum þess.“ Staða kvenna í stjórnmálum sem og víðast annars staðar í samfélaginu hefur vissulega gjörbreyst. Fyrir fáum áratugum var staða þeirra allt önnur og veigaminni en hún er nú. Konur mennta sig frekar en karlar, þær eru í forsvari fyrir hlutum sem voru eitthvað svo fjarlægir fyrir ekki svo löngu. Helsti sérfræðingur okkar í súrnun sjávar er ung og vel menntuð kona, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðvá er ung og vel menntuð kona. Hér hafa verið nefnd tvö dæmi, af svo mörgum mögulegum, um hvar konur hafa tekið sér stöðu sem þær höfðu ekki áður. Okkur öllum til framdráttar. Langt er frá fullkomnu jafnrétti. Látum samt þessa tíma aldrei koma aftur: „Það er næsta eftirtektarvert, hversu karlmenn halda öllu frelsi kvenna og réttindum í helgreipum, og það virðist, sem þeir álíti það mikilvæg einkaréttindi, helguð af fornri venju, að vera allt gagnvart þeim, en að þær megi ekkert vera,“ skrifaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir árið 1885.