Lífið

Halda styrktartónleika fyrir Brynju Hlíf Hjaltadóttur

Eva Magnúsdóttir er ein af skipuleggjendum tónleikanna.
Eva Magnúsdóttir er ein af skipuleggjendum tónleikanna. Vísir/Bragi Þór Jósefsson
Brynja Hlíf Hjaltadóttir, dóttir hjónanna Hjalta „Úrsusar“ Árnasonar og Höllu Heimisdóttur, lenti í alvarlegu mótorhjólaslysi í Noregi þann 14. október síðastliðinn og í kjölfarið missti hún mátt í báðum fótum. Enn er óvíst hvort hún fái máttinn á nýjan leik.

Þriðjudaginn 13. janúar verða haldnir tónleikar í Hlégarði í Mosfellsbæ til styrktar Brynju Hlíf og fjölskyldu hennar.

Eva Magnúsdóttir er ein þeirra sem skipuleggja tónleikana, en hún er góð vinkona móður Brynju.

„Við fengum þessa hugmynd öll hvert í sínu lagi, vinir þeirra hjónanna. Þegar svona kemur upp á í litlu bæjarfélagi eins og Mosfellsbæ, þá eru svo margir sem þekkja til og vilja hjálpa.

Fólk var alltaf að koma til mín og spyrja hvort það gæti ekki gert eitthvað og hvernig það gæti komið til móts við fjölskylduna,“ segir Eva.

Allur ágóði rennur beint til Brynju og fjölskyldu hennar. „Allir listamenn sem koma fram gefa sína vinnu og Ölgerðin, Bónus og Fasteignasalan í Mosfellsbæ aðstoða okkur líka. Við erum afar þakklát fyrir það,“ segir Eva.

Meðal þeirra sem fram koma eru Bubbi Morthens og Dimma, Kaleo, VIO úr Mosfellsbæ, Ágústa Eva, Karl Tómasson og Guðmundur Jónsson. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×