Skuldirnar eyða byggð í Grímsey Sigurjón M. Egilsson skrifar 19. janúar 2015 07:00 Vandi Grímseyinga virðist óyfirstíganlegur, að óbreyttu. Útgerðarfyrirtækin þrjú, sem framtíð byggðarinnar byggist á, skulda Íslandsbanka þrjá milljarða króna. Með öllu er vonlaust að jafn fámennt sveitarfélag geti aflað tekna fyrir afborgunum og öllu öðru, svo sem launum, útgerðarkostnaði, uppbyggingu og nauðsynlegu viðhaldi. Mestar skuldirnar eru tilkomnar vegna kvótakaupa. „Það er hægt að viðhalda byggð í Grímsey ef allir leggjast á árarnar og hjálpast að; útgerðarmenn, íbúar, fjármálastofnanir og landshlutasamtök. Ef samstaða næst ekki, þá leggst byggð líklega af í eynni,“ sagði Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, í samtali við Fréttablaðið. Svo alvarleg er staðan. Eftir 800 ára byggð, sjósókn við gjöful mið, hefur mannlíf haldist í eynni. Nú kann að verða bundinn endir á það. Gunnar Hannesson, útgerðarmaður í Grímsey, telur að íþyngjandi aðgerðir Íslandsbanka geti endað byggð í eynni. „Það er alveg ljóst að þeir vilja fá borgað. Við erum að berjast við vanda sem varð til í hruninu og því er þetta afar erfitt. Við eigum fyrir skuldum og vel það, það er ekki málið, en Íslandsbanki vill fara að fá greitt og vill að við seljum. Ef enginn er kvótinn í eynni þá verður engin byggð heldur í eynni,“ segir Gunnar. Það er rétt sem Gunnar segir, Grímseyingar eiga kannski eignir á móti skuldum en einu verðmætin, að mati lánardrottna, er kvóti og ef hann gengur upp í skuldir eru engin verðmæti eftir, engir atvinnumöguleikar, engar tekjur og þá engin byggð. Þrjú útgerðarfélög eiga kvóta svo einhverju nemur í Grímsey. Það eru fyrirtækin Borgarhöfði ehf., Sigurbjörn ehf. og Sæbjörg ehf. Fyrirtækin eru öll í viðskiptum við Íslandsbanka. Rekstur fyrirtækjanna er afar viðkvæmur og erfitt er fyrir þau að greiða af lánum sínum. Gunnar Hannesson sagði vandann hafa orðið til í hruninu 2008. Hann benti á að eignir félaganna dygðu fyrir skuldum. Eflaust er vilji víða til að viðhalda byggð í Grímsey. En til að það verði þarf svo margt að koma til. Vissulega er staðan í eynni afleiðing af kvótalögunum. Án takmarkana myndu Grímseyingar bara róa út fyrir bryggjusporðinn og fiska eins og þeir gerðu í meira en 750 ár af þeim 800 sem þeir hafa byggt Grímsey. Nú er staðan önnur. Íslandsbanki ræður í sjálfu sér næsta framhaldi. „Það er alveg ljóst að þeir vilja fá borgað,“ sagði Gunnar Hannesson. „Ljóst er að atvinnuþróun í Grímsey er viðkvæm og því hefur bankinn komið að umræðu um með hvaða hætti tryggja megi atvinnu til framtíðar á svæðinu,“ sagði formælandi Íslandsbanka í samtali við Fréttablaðið. Þessi er staðan í Grímsey, og reyndar víðar. Á meðan byggðinni þar blæðir getum við hin þrefað um hvort kvótakerfið okkar sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi eða ekki. Eins verðum við að spyrja og svara hvort við viljum meta að jöfnu hagvöxt og hagsæld, líka Grímseyinga. Meðan við veltum þessu fyrir okkur róa Grímseyingar enn einn lífróðurinn, nú í skuldahafi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sigurjón M. Egilsson Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun
Vandi Grímseyinga virðist óyfirstíganlegur, að óbreyttu. Útgerðarfyrirtækin þrjú, sem framtíð byggðarinnar byggist á, skulda Íslandsbanka þrjá milljarða króna. Með öllu er vonlaust að jafn fámennt sveitarfélag geti aflað tekna fyrir afborgunum og öllu öðru, svo sem launum, útgerðarkostnaði, uppbyggingu og nauðsynlegu viðhaldi. Mestar skuldirnar eru tilkomnar vegna kvótakaupa. „Það er hægt að viðhalda byggð í Grímsey ef allir leggjast á árarnar og hjálpast að; útgerðarmenn, íbúar, fjármálastofnanir og landshlutasamtök. Ef samstaða næst ekki, þá leggst byggð líklega af í eynni,“ sagði Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, í samtali við Fréttablaðið. Svo alvarleg er staðan. Eftir 800 ára byggð, sjósókn við gjöful mið, hefur mannlíf haldist í eynni. Nú kann að verða bundinn endir á það. Gunnar Hannesson, útgerðarmaður í Grímsey, telur að íþyngjandi aðgerðir Íslandsbanka geti endað byggð í eynni. „Það er alveg ljóst að þeir vilja fá borgað. Við erum að berjast við vanda sem varð til í hruninu og því er þetta afar erfitt. Við eigum fyrir skuldum og vel það, það er ekki málið, en Íslandsbanki vill fara að fá greitt og vill að við seljum. Ef enginn er kvótinn í eynni þá verður engin byggð heldur í eynni,“ segir Gunnar. Það er rétt sem Gunnar segir, Grímseyingar eiga kannski eignir á móti skuldum en einu verðmætin, að mati lánardrottna, er kvóti og ef hann gengur upp í skuldir eru engin verðmæti eftir, engir atvinnumöguleikar, engar tekjur og þá engin byggð. Þrjú útgerðarfélög eiga kvóta svo einhverju nemur í Grímsey. Það eru fyrirtækin Borgarhöfði ehf., Sigurbjörn ehf. og Sæbjörg ehf. Fyrirtækin eru öll í viðskiptum við Íslandsbanka. Rekstur fyrirtækjanna er afar viðkvæmur og erfitt er fyrir þau að greiða af lánum sínum. Gunnar Hannesson sagði vandann hafa orðið til í hruninu 2008. Hann benti á að eignir félaganna dygðu fyrir skuldum. Eflaust er vilji víða til að viðhalda byggð í Grímsey. En til að það verði þarf svo margt að koma til. Vissulega er staðan í eynni afleiðing af kvótalögunum. Án takmarkana myndu Grímseyingar bara róa út fyrir bryggjusporðinn og fiska eins og þeir gerðu í meira en 750 ár af þeim 800 sem þeir hafa byggt Grímsey. Nú er staðan önnur. Íslandsbanki ræður í sjálfu sér næsta framhaldi. „Það er alveg ljóst að þeir vilja fá borgað,“ sagði Gunnar Hannesson. „Ljóst er að atvinnuþróun í Grímsey er viðkvæm og því hefur bankinn komið að umræðu um með hvaða hætti tryggja megi atvinnu til framtíðar á svæðinu,“ sagði formælandi Íslandsbanka í samtali við Fréttablaðið. Þessi er staðan í Grímsey, og reyndar víðar. Á meðan byggðinni þar blæðir getum við hin þrefað um hvort kvótakerfið okkar sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi eða ekki. Eins verðum við að spyrja og svara hvort við viljum meta að jöfnu hagvöxt og hagsæld, líka Grímseyinga. Meðan við veltum þessu fyrir okkur róa Grímseyingar enn einn lífróðurinn, nú í skuldahafi.