Lífið

Næstu tvö ár verða mjög annasöm

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Of Monsters and Men leggur lokahönd á nýja plötu í Los Angeles.
Hljómsveitin Of Monsters and Men leggur lokahönd á nýja plötu í Los Angeles.
„Þetta ár og næsta ár verða mjög annasöm hjá Of Monsters and Men. Við erum ótrúlega spennt fyrir nýju plötunni og hlökkum mikið til þess að deila henni með öllum,“ segir Heather Kolker, umboðsmaður hljómsveitarinnar Of Monsters and Men.

Hljómsveitin er nú stödd í Los Angeles þar sem verið er að leggja lokahönd á nýja plötu og hefur bandaríski upptökustjórinn Rich Costey aðstoðað sveitina við gerð plötunnar. Costey hefur áður unnið með þekktum hljómsveitum á borð við Muse, Interpol og Death Cab for Cutie.

„OMAM fer í tónleikaferð í vor en við gerum ráð fyrir að platan komi út í vor eða snemma í sumar,“ segir Heather, spurð út í plötuútgáfuna og fyrirhugað tónleikahald.

Á Facebook-síðu sveitarinnar hafa nokkrar tónleikadagsetningar verið staðfestar og ber þar hæst að nefna Southside-hátíðina og Hurricane-hátíðina í Þýskalandi, Hilvarenbeek-hátíðina í Hollandi, Unaltrofestival á Ítalíu, Sasquatch!-hátíðina í Bandaríkjunum og Fuji Rock Festival í Japan svo nokkrir tónleikar séu nefndir.

Heather gat ekki tjáð sig frekar um tónleikahald sveitarinnar að svo stöddu. „Ég get þó sagt að margir fleiri tónleikar verða tilkynntir á næstunni, fólk þarf bara að fylgjast með.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×