Lífið

Hittast alltaf aftur og aftur

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Sýningin Við hittumst alltaf aftur verður opnuð í dag.
Sýningin Við hittumst alltaf aftur verður opnuð í dag.
Helga Lilja Magnúsdóttir fatahönnuður, sem hannar undir nafninu Helicopter sýnir í dag nýja fatalínu sem sprottin er upp úr tveimur listaverkaröðum myndlistarmannsins Halldórs Ragnarssonar.

„Í rauninni hafði Dóri samband við mig og spurði hvort ég væri til í að vinna upp úr verkunum hans,“ segir Helga Lilja.

Útkoma samstarfsins er heil fatalína. „Hann bjó til seríu af verkum sem heitir Við hittumst alltaf aftur, sú setning er skrifuð aftur og aftur í verkunum,“ segir Helga og bætir við: „Mér fannst svo við hæfi að vinna með þetta verk þar sem við erum alltaf að hittast aftur og aftur.“

Helga og Halldór eru fyrrverandi par og líkt og gerist í hinni smáu Reykjavík lágu leiðir þeirra síendurtekið saman.

„Það kom upp svolítið falleg hugmynd sem var nóg í heila línu fyrir fatamerkið mitt.“ Sýningin er í formi innsetningar og eru verk Halldórs sett upp samhliða fatalínu Helgu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Halldór og Helga vinna saman en hún segir samvinnuna ekki hafa verið vandræðalega á neinn hátt. „Þetta er svolítið óhefðbundið en makar okkar beggja hafa mjög gaman af þessu,“ segir hún og hlær.

Línan er fjölbreytt og spannar hún allt frá ullarfrökkum til jogginggalla.

Sýningin verður opnuð í Gallerí Verkstæði klukkan fimm í dag og stendur til klukkan átta og léttar veigar í boði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×