Lífið

Pöntuðu þyrluflugið fyrir rúmlega fimm mánuðum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Lisa og Jemma eru ótrúlega spenntar fyrir ferðinni til Íslands og tilbúnar í sólmyrkvann og að sjálfsögðu búnar að verða sér úti um viðeigandi hlífðarbúnað.
Lisa og Jemma eru ótrúlega spenntar fyrir ferðinni til Íslands og tilbúnar í sólmyrkvann og að sjálfsögðu búnar að verða sér úti um viðeigandi hlífðarbúnað. Mynd/Jemma
Vinkonurnar Jemma Triance og Lisa Wilson ferðast til landsins til þess að berja sólmyrkvann augum þann tuttugasta mars næstkomandi.

Þær koma frá Surrey á Englandi og þetta er í annað skipti sem þær ferðast til Íslands. Sólmyrkvann munu þær upplifa úr þyrlu en þær fara í þyrluferð með Norðurflugi og fljúga yfir Eyjafjallajökul þar sem stoppað verður og útsýnisins notið.

„Það hefur verið lífsdraumur að sjá sólmyrkva. Ég hef séð fallegan tunglmyrkva í Chennai á Indlandi og við höfum verið svo heppnar að sjá tilkomumikil norðurljós bæði í Noregi og á Íslandi,“ segir Jemma en þær vinkonurnar komu til Íslands í janúar árið 2013 og sáu þá norðurljósin sem marga ferðamenn dreymir um að sjá og fóru auk þess að kafa sem þær segja hafa verið stórkostlega upplifun.

Þær munu þó hafa fleira fyrir stafni og margt á dagskránni. „Við förum líka í norðurljósaferð og ferð um Þingvelli, Gullfoss, Langjökul og Geysi sem inniheldur vélsleðaferð, við ætlum líka að heimsækja Bláa lónið áður en við fljúgum heim. En við skipulögðum ferðina þessa ákveðnu daga með von um að sjá sólmyrkvann líka,“ segir hún, en þyrluflugið pöntuðu þær í október og því óhætt að segja að hér sé um skipulagða ferðamenn að ræða.

„Ég vann sem leiðsögumaður ævintýraferða fyrir smáa hópa og þekki því kosti þess að vera skipulögð og plana fram í tímann,“ segir Jemma þegar hún er spurð að því hvort hún skipuleggi öll sín ferðalög með slíkum fyrirvara.

Vinkonurnar langaði til þess að komast út fyrir borgarmörkin til þess að upplifa sólmyrkvann og íslenskt landslag. „Lisa hefur aldrei stigið fæti í þyrlu og er mjög lofthrædd. En eftir að hún fór í New York New York-hótel rússíbanann í Las Vegas finnst henni allir vegir færir,“ segir Jemma um samferðakonu sína.

„Við erum ekki bara spenntar, heldur alveg ótrúlega spenntar,“ segir hún að lokum en þær stöllurnar koma til landsins á fimmtudag og munu dvelja yfir helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×