Lífið

Ný plata Gísla Pálma: Varð að fanga tímabilið með plötu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Gísli Pálmi gefur út nýja plötu á næstu vikum.
Gísli Pálmi gefur út nýja plötu á næstu vikum. Vísir/Vilhelm
Gísli Pálmi stekkur sveittur af sviðinu og fer inn í herbergi baksviðs. Þar situr hann við borð og nær andanum. „Ég gef mig allan í alla tónleika sem ég held,“ segir hann móður. Auðvelt var að sjá á menntaskólanemunum sem horfðu og hlustuðu á Gísla að þeir voru sáttir. Við Gísli höfðum mælt okkur mót til þess að hlusta á nýju plötuna hans sem ber titilinn Gísli Pálmi og kemur út eftir tvær vikur. En Gísla fannst gaman að geta leyft mér að heyra lögin „live“ fyrst, áður en við færum í hljóðverið hans. Eftir stutt spjall við Gísla og félaga baksviðs héldum við í hljóðverið hans í Reykjavík.



Verður sprengja


Við Gísli setjumst saman í bíl, þar sem við ræðum plötuna lítillega. „Þetta verður sprengja,“ segir hann um plötuna. Gísli Pálmi hefur verið þekktur í íslensku rappsenunni síðan lagið Set mig í gang kom út árið 2011. Þar stóð Gísli ber að ofan fyrir framan Range Rover-jeppa og rappaði grjótharðan texta. Í kjölfarið fylgdu lög og myndbönd með Gísla sem ögruðu gömlum gildum íslenskra rappunnenda. Og eftir því sem lögunum fjölgaði varð ljóst að Gísli Pálmi hafði breytt íslensku rappsenunni. Og Gísli gerir sér grein fyrir áhrifum sínum á íslenska rappara. „Ég heyri stundum rappara nota orð sem ég bjó til og setja hluti í svipuð form og ég hef gert,“ segir hann í þann mund sem við göngum inn í hljóðverið. Þar blasa við tölvur, hátalarar, míkrófónar og fleira sem þarf til að gera tónlist. Þar má einnig sjá skemmtilega muni; kórónu, ferskan ananas og sólgleraugu sem er vandlega raðað í eina hilluna. Stólum og sófa er stillt upp þannig að margir geta verið í hljóðverinu. Enda er Gísli oft og iðulega með vini sína með sér á tónleikum og víðar. „Ég er heppinn með vini,“ segir hann og bætir við: „Ég stend með þeim og þeir með mér.

Lokaði sig af í tvo mánuði

„Ég lokaði mig hérna inni í tvo mánuði, með tveimur félögum í Glacier Mafia,“ segir Gísli Pálmi. Algengt er að rapparar treysti á aðra þegar kemur að lagasmíðum, sem í rappinu eru kallaðir taktar. En Gísli hefur sjálfur alltaf verið iðinn við kolann í taktsmíði, allt frá bernskunni þegar hann vann á MPC-taktvél. Platan sjálf varð til síðasta sumar. Gísli vann taktana og textana á tveggja mánaða tímabili. „Ég þurfti að gera þessa plötu. Ég var með svo mikið af hlutum sem ég þurfti að koma frá mér,“ útskýrir hann.

Nýtt verklag

Áður en platan var tekin upp hafði Gísli Pálmi aldrei gert plötu. Hann hafði eingöngu gefið út eitt lag í einu, sem fóru gjarnan á flug á samfélagsmiðlum. Að gera heila plötu er því heljarinnar breyting á verklagi rapparans. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég bý til einhvers konar strúktúr fyrir mig sem listamann. Þetta var mikil áskorun fyrir okkur, ekki spurning. Mér fannst mikilvægt að gera plötu núna. Að gera einhvers konar minnisvarða fyrir framtíðina. Ég vildi fanga þetta tímabil undanfarinna ára. Fanga mómentið. Því maður veit ekkert hvenær allt endar.“ Síðan ferlið hófst, síðasta sumar, hefur Gísli Pálmi mætt daglega í hljóðverið og unnið í plötunni.

Byrjar á sprengju

Platan byrjar á samnefndu lagi. Lagið er hart og textinn hrár og beinskeyttur. „Þetta er örugglega grófasta lagið,“ segir Gísli Pálmi. Næsta lag plötunnar er Ískaldur, sem er eina lagið sem Gísli Pálmi hefur gefið út áður. Þriðja lagið er Í hverfinu, sem er eitt af uppáhaldslögum Jóa og Gísla sjálfra á plötunni. Lagið breytir nokkrum sinnum um takt og tekur hlustandann í nýjar hæðir. Á eftir því hljóma lögin Meðnóg, með melódísku viðlagi þar sem Gísli leikur sér með tungumálið; 5AM, sem fjallar um stemninguna um helgar þegar klukkan er orðin margt og Geysir, sem er hart og taktfast. Sjöunda lag plötunnar er Draumaland. „Það er mjög persónulegt lag,“ útskýrir Gísli. Lagið er rólegra en mörg önnur lög eftir Gísla og fær textasmíðin að njóta sín vel. Þrjú síðustu lög plötunnar eru Háar hæðir, Spilavítið og Píramídar. Háar hæðir og Píramídar falla vel að heildarmynd plötunnar, þegar kemur að hljómi og textum. En Spilavítið er algjörlega sérstakt og skiptir Gísla miklu máli.

Þurfti að gera þetta lag

„Þetta er saga sem margir upplifa,“ segir Gísli Pálmi og heldur áfram: „Það er uppsveifla og þú tekur áhættu. En svo kemur alltaf að skuldadögum. Allt í lífinu leitar í jafnvægi. Og þetta lag er svolítill endahnútur.“ Segja má að Gísli Pálmi sé að játa mannlega breyskleika í laginu. Lífinu er líkt við spilavíti og segir Gísli í viðlaginu að útlit sé fyrir að húsið hafi unnið.

„Þetta var seinasta lagið sem ég samdi á plötunni. Ég var lengi að því,“ segir hann. Gísli hugsar sig svo um og segir: „Ég vissi alltaf að ég þyrfti að gera þetta lag. Ég var lengi að finna út hvernig ég ætlaði að nálgast þetta en svo small þetta og þá kom lagið nánast í kollinn á mér í heild sinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.