Lífið

Og þá voru eftir fjórir

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
New Kids on The Block
New Kids on The Block Vísir/getty
Strákabönd eins og við þekkjum þau, hafa verið til í meira en þrjátíu ár. Þau eiga það sameiginlegt að hafa verið búin til af umboðsmönnum, gagnrýnd fyrir tónlistina og það að semja hana ekki sjálfir og eiga æsta aðdáendur sem flestir eru unglingsstúlkur. Leið þeirra á toppinn hefur verið hröð, og er erfitt að halda sér þar. Sérstaklega þegar einn yfirgefur hópinn. Hér er örsaga sex strákabanda, sem misstu einn úr lestinni.

New Kids On The Block

1984-1994, 2008-enn starfandi



NKOTB var stofnað 1984 í Boston. Í bandinu voru bræðurnir Jordan og Jonathan Knight, Joey McIntyre, Danny Wood og Donny Whalberg. Bandið var sett saman af umboðsmanninum Maurice Starr. Fyrsta platan kom út árið 1986 og fékk ekki góðar viðtökur. Árið 1988 kom Hangin' Tough út og eftir það fóru hjólin að snúast.

Platan Step By Step, sem kom út árið 1990, færði þeim heimsfrægð. Við tóku tónleikaferðalög um allan heim og aðdáendahópurinn fór stækkandi. Eftir ásakanir um að mæma á tónleikum, ráku þeir Starr árið 1993 og breyttu nafninu í NKOTB og 1994 kom fjórða platan þeirra út.

Vinsældirnar höfðu dvínað, og í stað þess að spila á stórum íþróttaleikvöngum, voru þeir í minni klúbbum.

Árið 1994 voru þeir staddir á Spáni á tónleikaferðalagi, þegar Jonathan Knight tilkynnti að hann væri hættur í bandinu. Ástæðan sem gefin var upp í fjölmiðlum var að hann hefði hryggbrotnað, en í raun þjáðist hann af alvarlegum kvíða.

Eftir það fór hver í sína áttina. Donny Wahlberg fetaði í fótspor bróður síns, Marks Wahlberg, og sneri sér að leiklistinni. Árið 2008 komu þeir saman aftur og 2011 fóru þeir í tónleikaferðalag með Backstreet Boys. Bandið er starfandi í dag og er á leið í tónleikaferðalag í sumar.

Knight kom fram í þætti Oprah Winfrey þar sem hann ræddi um kvíðann og hvað umboðsfyrirtækið þeirra hefði þrýst á hann að halda áfram þrátt fyrir veikindin.

boyzone
Boyzone 

1993-2000, 2007-enn starfandi



Írska strákabandið Boyzone var stofnað 1993 af X-Factor dómaranum Louis Walsh. Auglýst var eftir strákum til þess að vera í írsku útgáfunni af Take That.

Fyrsta plata þeirra Keiths Duffy, Stephens Gately, Mikey Graham, Ronans Keating og Shanes Lynch kom út árið 1995. Í kjölfar bílslyss sem tveir þeirra lentu í árið 1994, lét Walsh þá skrifa undir samning sem takmarkaði það sem þeir máttu gera og taka þátt í.

Þriðja platan þeirra kom út árið 1998 og seldist í þremur milljónum eintaka um allan heim. Á henni voru flest lögin eftir hljómsveitarmeðlimi og var Ronan Keating þeirra aðalmaður.

Árið 1999 var viðburðaríkt. Greatest hits-plata þeirra seldist í fjórum milljónum eintaka um allan heim, Keating gaf út lagið When You Say Nothing At All, sem leikið var í myndinni Notting Hill og Stephen Gately kom út úr skápnum. Sama ár hætti Boyzone. Bæði Keating og Gately unnu að sínum sólóferli. Árið 2007 kom bandið aftur saman og í tvö ár var það á tónleikaferðalagi.

Í lok 2009 varð Gately bráðkvaddur á Mallorca þar sem hann var í fríi. Árið 2010 gáfu eftirlifandi meðlimir út plötu og eru starfandi enn þann dag í dag. 

take that
Take That 

1990-1996, 2005-enn starfandi



Breska sveitin Take That var stofnuð í Manchester árið 1990 af umboðsmanninum Nigel Martin Smith, en hann vildi gera bresku útgáfuna af New Kids on the Block. Smith þekkti Gary Barlow, sem hafði spilað og sungið á klúbbum síðan hann var 15 ára.

Hann hélt áheyrnarprufur og með Barlow voru valdir í bandið þeir Mark Owen, Howard Donald, Jason Orange og Robbie Williams. Fyrsta platan, Take That and Party, kom út 1992 og 1993 kom Everything Changes út. Það var þó ekki fyrr en árið 1995 sem þeir fóru í sitt fyrsta tónleikaferðalag um heiminn.

Á þeim tíma prýddu þeir forsíður unglingatímarita um allan heim og söluvarningur með þeim seldist gríðarlega vel. Platan Nodody Else kom út árið 1995 og skaut þeim endanlega upp á stjörnuhimininn og urðu þeir söluhæsta breska strákabandið frá upphafi.

Williams hafði á þessum tíma glímt við áfengis- og fíkniefnaneyslu, sem varð til þess að hann tók sér hlé sumarið 1995. Þeir héldu áfram fjórir, en á afmælisdegi Williams 13. febrúar 1996 tilkynntu þeir á blaðamannafundi að Williams væri hættur og í apríl sama ár hættu þeir.

Williams naut mikillar velgengni á sólóferli sínum og er einn af fáum fyrrverandi meðlimum strákabands sem hefur náð slíkum árangri. Barlow hóf einnig farsælan sólóferil og gekk til liðs við X-Factor árið 2011.

Frá 2005 til dagsins í dag hefur Williams gengið til liðs við bandið tvisvar sinnum. Sveitin hélt lengi vel áfram sem kvartett og gaf út fjórar plötur eftir 2005. Í október 2014 tilkynnti Orange að hann væri hættur, en Barlow, Owen og Donald halda ótrauðir áfram.

one direction
One Direction 

2010-enn starfandi



Þeir Harry Styles, Louis Tomlinson, Niall Horan, Liam Payne og Zayn Malik fóru allir í áheyrnarprufur fyrir X-Factor í byrjun árs 2010. Allir komust þeir áfram, en í lokaútslættinum ákvað Simon Cowell að setja þá saman í strákaband. Þeir enduðu í þriðja sæti, en þrátt fyrir það höfðu aðrar eins vinsældir aldrei sést í X-Factor.

Þeir voru eltir á röndum og má segja að aðdáendur hafi gert þá heimsfræga í gegnum samfélagsmiðla, áður en fyrsta platan þeirra, Up All Night, kom út árið 2011. Í kjölfarið héldu þeir í tónleikaferðalag. Í nóvember 2012 kom Take Me Home út og henni fylgdi annað tónleikaferðalag, Where We Are Tour með 134 tónleikum. Sama ár, 2013, kom út myndin This Is Us og í nóvember 2013 kom þriðja platan út, Midnight Memories.

Á henni höfðu þeir tekið þátt í að semja flest laganna. Í apríl 2014 héldu þeir í annað tónleikaferðalag um heiminn sem lauk um haustið.

Í nóvember 2014 kom út fjórða platan, FOUR, sem þeir sömdu að mestu leyti sjálfir. Í febrúar 2015 héldu þeir í einn eitt tónleikaferðalagið, On the Road Again.

25. mars 2015 kom tilkynning frá þeim um að Zayn Malik hefði ákveðið að hætta í miðju tónleikaferðalagi. Ástæðurnar voru óljósar, meðal annars kvíði, álag og mikil pressa frá umboðsfyrirtæki þeirra, Modest Management.

Ekki var vitað hvað tæki við hjá Malik, en 31. mars gaf hann út demó af fyrsta sólólaginu sínu með tónlistarmanninum Naughty Boy.

Ætla hinir fjórir sem eftir eru að halda áfram, en tónleikaferðalagi þeirra lýkur þann 31. október 2015. Þeir hafa einnig sagt að fimmta platan sé í vinnslu, enda virðast vinsældir þeirra ekki enn hafa dvínað þrátt fyrir áföllin.

N Sync
N Sync 

1995-2002



Bandaríska sveitin N Sync var stofnuð árið 1995 í Flórída og voru meðlimir hennar Justin Timberlake, JC Chasez, Chris Kirkpatrick, Joey Fatone og Lance Bass.

Fyrsta platan kom út árið 1998 og naut ekki mikilla vinsælda. Það var ekki fyrr en þeir komu fram á Disney Channel sem hjólin fóru að snúast og í janúar 2000 kom slagarinn Bye, Bye, Bye þeim á kortið.

Önnur platan, No Strings Attached, kom út í mars 2000 og það ár fóru þeir í tónleikaferðalag um heiminn. Þriðja platan, Celebrity, kom út árið 2001 en á henni höfðu Timberlake og Chasez tekið þátt í að semja stóran hluta tónlistarinnar.

Þeirri plötu fylgdu þeir eftir með tónleikaferð, en í apríl 2002 tóku þeir sér hvíld, sem varð til þess að sveitin hætti, en engin formleg yfirlýsing kom þó frá bandinu.

Timberlake hefur síðan þá átt farsælan sólóferil og er einn vinsælasti söngvari heims í dag.

backstreet boys
Backstreet Boys

1993-enn starfandi



Sveitin var stofnuð í Orlando í Flórída árið 1993. Þeir A.J. McLean, Howie Dorough, Nick Carter, Kevin Richardson og Brian Littrell gáfu út sína fyrstu plötu árið 1996, sem eingöngu var gefin út í Bandaríkjunum og þá næstu árið 1997 sem var gefin út um allan heim.

Sú plata var að mestu leyti unnin með Max Martin, en hann hefur einnig samið fyrir Britney Spears. Plötunni fylgdu þeir eftir með tónleikaferðalagi um heiminn, og nutu gríðarlegra vinsælda í Evrópu og þá sérstaklega í Þýskalandi.

Littrell, einn meðlima Backstreet Boys, var með hjartasjúkdóm, en hann frestaði því að fara í aðgerð margsinnis vegna tónleikaferðalaga. Þriðja platan þeirra, Millennium, kom út árið 1999 og fylgdu þeir henni eftir með tónleikaferðalagi um allan heim og spiluðu á 115 tónleikum í 84 löndum.

Tvær aðrar plötur fylgdu í kjölfarið og árið 2002 óskuðu þeir eftir því að fá að fara frá umboðsfyrirtæki sínu, The Firm. Carter kaus hins vegar að fara ekki frá fyrirtækinu þar sem hann ætlaði að vinna að sólóferli sínum meðfram hljómsveitinni.

2003 kom McLean fram í þætti Oprah Winfrey þar sem hann sagði henni frá eiturlyfjafíkn sinni.

Í júní 2006 tilkynnti hljómsveitin að Richardson að væri hættur í bandinu, en hann væri alltaf velkominn aftur.

Enginn þeirra hefur náð flugi með sólóferli sínum og er bandið enn starfandi í dag. Í janúar 2015 kom svo út heimildarmynd um þá: Show 'Em What You're Made Of.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×