Lífið

Rosalega stórt og flott tækifæri

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Kristín er þakklát fyrir tækifærin sem hún er að fá í Asíu.
Kristín er þakklát fyrir tækifærin sem hún er að fá í Asíu. Vísir
„Það er verið að ganga frá samningum við stóra verslun í Asíu, sem ég er mjög spennt fyrir, en því miður get ég ekki tilkynnt strax hvaða verslun það er. Það er ýmislegt að gerast,“ segir Kristín, eigandi og hönnuður skartgripamerkisins Twin Within.

Hún er búsett í Singapúr, en síðan hún fluttist þangað hefur hún fengið fjölmörg tækifæri til þess að koma línunni sinni á framfæri. „Ég sýndi á stórri sýningu í september og í kjölfarið vorum við maðurinn minn umfjöllunarefni í þættinum Tales of Two Cities, þar sem fylgst var með vinnu minni í kringum festarnar,“ segir hún.

Í vikunni sýndi Kristín á sölusýningu sem nefnist On Time Show og haldin er í tengslum við tískuvikuna í Sjanghæ. „Ég var valin til þess að sýna þarna, en þarna kemst maður í kynni við kaupendur frá verslunum um allan heim. Þátttaka mín á þessari sýningu er stórt tækifæri sem vonandi opnar dyr í Kína, en það er gríðarlega erfitt að koma sér inn á þann risastóra markað. Ef það tekst þá má með sanni segja að stór draumur hjá mér hafi ræst,“ segir Kristín.

Á tískuvikunni í Sjanghæ sýndi hún nýjustu línuna sína, Contrasts, sem frumsýnd var hér heima á Hönnunarmars. „Fyrri línan var ofsalega litrík þannig að núna langaði mig að vinna með andstæðuna og þess vegna er svart og hvítt ríkjandi í þessari línu, en hún er unnin úr óhefðbundnum efnum eins og gúmmíslöngum og reipi,“ segir hún. 

Nýja lína Twin Within er fáanleg í Mýrinni, Kringlunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×