Lífið

Hlustaði ekki á annað næstu fimm dagana

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Atli Freyr sést hér í myndbandinu, sem er svarthvítt.
Atli Freyr sést hér í myndbandinu, sem er svarthvítt. Vísir
Hljómsveitin Of Monsters and Men gaf út lagið I of the Storm í gær en lagið er af væntanlegri plötu hljómsveitarinnar, Beneath the Skin, en áætlaður útgáfudagur hennar er þann 9. júní næstkomandi.

Myndbandið við I of the Storm er í formi textamyndbands, Atli Freyr Demantur er í forgrunni og syngur lagið af innlifun á meðan texti lagsins birtist neðst í myndbandinu en myndbandið er að því virðist allt tekið upp í einni töku og í svarthvítu.

Atli Freyr er búsettur í Kaupmannahöfn þar sem hann starfar sem förðunarfræðingur og var með söngkonu Of Monsters and Men, Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur, í grunnskóla.

„Ég var staddur í Kína að vinna að myndatöku þar þegar Nanna hringdi í mig og sagði mér að þau vildu fá mig í þetta. Það er ekki oft sem maður fær svona tækifæri svo ég stökk af stað og gerði þetta.“ Atli Freyr hefur eitthvað fengist við leiklist og talaði meðal annars inn á teiknimyndir sem barn og hefur tekið að sér lítil hlutverk í ýmsum sjónvarpsþáttum.

Hann varð strax hrifinn af laginu og segir það kraftmikið og tilfinningaþrungið. „Ég varð strax ástfanginn af laginu og hlustaði ekki á neitt annað næstu fimm daga eftir þetta. Lagið er allt öðruvísi en Crystals. Það er kraftmikið meðan þetta er tilfinningaríkara og persónulegra. Það er kraftmikið á allt annan hátt.“

Lagið er önnur smáskífa plötunnar en lagið Crystals kom út þann sextánda mars síðastliðinn. Við það var gefið út álíka textamyndband þar sem má sjá leikarann Sigurð Sigurjónsson syngja með laginu og hefur myndbandið fengið 2.215.337 spilanir á myndbandasíðunni YouTube. En myndböndin eru bæði framleidd af framleiðslufyrirtækinu Tjarnargatan.

Hlekkur inn á myndbandið við I of the Storm var birtur á Facebook-síðu Of Monsters and Men um þrjúleytið í gær og fékk lagið strax mikil viðbrögð frá aðdáendum sveitarinnar en þegar þetta er skrifað hafa ríflega 6.500 manns látið sér líka við hlekkinn á Facebook og rúmlega 1.200 manns deilt honum. Eins hafa rúmlega 3.000 manns gefið myndbandinu þumalinn upp á YouTube en áhorfstölur hafa enn ekki verið birtar á myndbandasíðunni.

Hljómsveitin eru nú á leið í tónleikaferðalag en fyrstu tónleikar hennar verða í borginni Toronto næstkomandi mánudag og er uppselt á þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×