Heilsa

Vendu þig á venjurnar

Nanna Árnadóttir skrifar
Góðar venjur skila árangri.
Góðar venjur skila árangri. Vísir/Getty
Lífið sjálft snýst oft og tíðum mikið um venjur. Foreldrar okkar vöndu okkur á það að bursta tennur kvölds og morgna og við venjum krakkana okkar á það. Við venjum okkur á það að þvo hendurnar eftir salernisnotkun og að ganga frá eftir matinn.

Það að koma sér upp nýjum venjum getur þó verið meira en að segja það.

Maður þarf virkilega að leggja sig allan fram við að búa til nýjar venjur og halda þeim gangandi því það reynir svo sannarlega á þolinmæðina. Það er oft talað um að það taki að minnsta kosti 30 daga að koma upp nýjum venjum.

Prófaðu því að skrifa það sem þú stefnir að á blað og hengdu upp á ísskápinn eða hafðu í dagbókinni svo þú sjáir það á hverjum degi. Ef markmiðið er til dæmis að drekka fleiri vatnsglös á dag þá eru allar líkur á því að það þurfi að minna á það með einhverjum hætti, til dæmis áminningu í símanum.

Ef þú gleymir því sem þú ætlaðir að venja þig á einn daginn, ekki gefast upp. Haltu áfram næsta dag og reyndu að gera enn betur.

Einblíndu á eitt í einu

Málshátturinn segir: Róm var ekki byggð að einum degi. Það að taka sér upp hollari venjur gerist heldur ekki á einum degi.

Byrjaðu rólega og á einhverjum einum hlut, eins og til dæmis að borða tvo ávexti á dag. Þegar það er orðið að venju bættu þá einhverju öðru við, eins og til dæmis að hreyfa þig á hverjum degi.

Maður getur ekki búist við því að geta allt í einu hætt öllu sukki, borðað eins og Solla á Gló í öll mál og æft eins og Jón Páll á hverjum degi.

Góðir hlutir gerast hægt!

Finndu það sem hentar

Það að borða hollt og hreyfa sig verður að vera skemmtilegt, annars mun þetta ekki verða að lífsstíl. Prófaðu þig áfram og finndu þér hollt fæði sem þér líkar við.

Það eru til ótal vefsíður, bækur og miðlar sem deila skemmtilegum, hollum uppskriftum. Það sama gildir um hreyfinguna. Ef þér finnst líkamsræktin leiðinleg eru allar líkur á því að þú gefist upp.

Ef þér finnst ekki gaman að mæta í líkamsræktarsal prófaðu þá hóptímana, finndu þér skokkhóp í nágrenninu, farðu í sund og syntu eða finndu þér einhverja íþrótt að þínu skapi.

Möguleikarnir eru endalausir!

Jákvæð hugsun

Reyndu að fara af stað alla daga með tilhlökkun fyrir komandi verkefnum. Að skapa sér nýjar, hollar venjur er ekkert annað en verkefni sem þarf að takast á við með bros á vör.

Það er staðreynd að öllum líður vel við það að hreyfa sig og fá holla og góða næringu. Endorfínið flæðir um líkamann að hreyfingu lokinni.

Stoppaðu í augnablik eftir æfinguna og njóttu þess að finna fyrir þessari góðu tilfinningu sem þú færð eftir átökin. Ef þú átt svo einhvern tíma erfitt með að rífa þig upp til að fara á æfingu, leitaðu þá að þessari tilfinningu í minninu og drífu þig svo af stað. Launaðu líkamanum svo erfiðið með hollri og góðri næringu sem byggir líkamann enn frekar upp.

Ég vona að þessi ráð hjálpi einhverjum sem reynir að koma sér upp nýjum og hollum venjum í átt að heilbrigðum lífsstíl.

Þetta tekur tíma en þegar venjurnar eru orðnar að daglegum athöfnum er ekkert betra en að njóta þess að hlakka til þess að hreyfa sig á hverjum degi og borða hollan og góðan mat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.