Lífið

Útlendingapössun á börum borgarinnar

Guðrún Ansnes skrifar
Unnar lagar þjónustu sína að þörfum viðskiptavina, með skrautlegum afleiðingum.
Unnar lagar þjónustu sína að þörfum viðskiptavina, með skrautlegum afleiðingum. Vísir/Ernir
„Ég var með hóp ekki alls fyrir löngu sem eyddi rúmlega tveimur og hálfri milljón, á þremur klukkustundum, á skemmtistað hérna í miðborginni, á sunnudagskvöldi,“ segir Unnar Helgi Daníelsson, eigandi Reykjavík Rocks.

Gefur fyrirtækið sig meðal annars út fyrir að taka á móti erlendum ferðamönnum sem vilja kynna sér næturlífið á Íslandi gaumgæfilega.

„Við tölum stundum um að við sérhæfum okkur í útlendingapössun,“ segir Unnar og bætir við að kúnnahópurinn samanstandi aðallega af bandarískum karlmönnum sem vinna í tölvubransanum, svo sem Facebook og Foursquare. Auk þess séu ríkir Rússar að sækja í sig veðrið, en þeir tali lítið og eyði miklu í vín.

Unnar segir týpurnar sem nýti sér þjónustuna þó eins ólíkar og þær eru margar: „Við sníðum þetta bara eftir þeim sem koma hverju sinni, en ég tek vissulega eftir mynstri þar sem hingað koma margir ríkustu menn heims eða lið sem hafa náð langt í sínum greinum.“

Vinsælustu staðirnir

Aðspurður um hvaða staðir séu vinsælastir meðal ferðamannanna, stendur ekki á svörum og segir hann B5 og Loftið laða að, en séu tónlistarmenn meðal viðskiptavina sé Kaffibarinn iðulega vænlegur til vinnings.

„Þeir sem við höfum fengið til okkar fara héðan elskandi íslenska næturlífið, og menninguna hérna almennt. Ísland trónir á toppi eftirsóttustu landa í Evrópu í augum þeirra sem ætla að halda almennileg steggjapartí og ég finn mikið fyrir því í þessu fagi.“

Klikkað lið

Unnar segir Reykjavík Rocks leggja allt í sölurnar til að uppfylla kröfur viðskiptavina sinna, sem oftar en ekki séu villtari en gengur og gerist.

„Þegar finnski ökuþórinn Kimi Raikkonen vildi komast sem næst tunglinu valdi hann að ferðast til Íslands,“ segir Unnar og undirstrikar þannig ákveðna stemningu í hópnum.

„En ætli það fáránlegasta hafi ekki verið þegar við urðum að sjá til að einn kúnni okkar gæti riðið, á nærbuxunum einum fata, um leið og hann lenti á skerinu og beinustu leið ofan í Bláa lónið,“ segir hann og skellir upp úr.

Unnar segist lengi hafa verið talsmaður þess að markaðssetja næturlífið á Íslandi markvisst í tengslum við ferðaþjónustuna. „Mér sýnist samt á öllu að það hafi nánast markaðssett sig sjálft undanfarin ár, svona miðað við hvaða fólk er að heimsækja landið,“ skýtur hann að í lokin og bendir áhugasömum á að kíkja á www.reykjavik.rocks






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.