Lífið

Eurovision-kjóllinn frumsýndur um helgina

María heldur út til Austurríkis eftir viku.
María heldur út til Austurríkis eftir viku. Vísir/valli
„Við erum bara á fullu að æfa atriðið núna. Það er tilbúið og nú erum við bara að renna því í gegn,“ segir María Ólafsdóttir Eurovision-fari, en hún heldur út til Austurríkis þann 13. maí.

„Hera Björk kom heim í vikunni og ég tók fyrstu æfinguna með henni á mánudaginn. Það var gott að fá hana og taka alvöru æfingu, ekki bara í gegnum Skype,“ segir María. Hera er í bakraddahóp hennar með þeim Friðriki Dór, Ásgeiri Orra, Ölmu Rut og Írisi Hólm.

„Það verður snilld að hafa hana með því ég veit að Eurovison-aðdáendur elska Heru, þannig að þeir bilast sennilega þegar þeir sjá hana,“ segir hún og hlær.

Ferðalagið leggst vel í Maríu, en hún segir ferðina til Rússlands í lok apríl hafa verið góða æfingu. „Ég fékk smá sjokk á blaðamannafundinum, en það var bara fín æfing fyrir keppnina.“

Kjóllinn sem María klæðist í keppninni verður frumsýndur í Kringlunni á laugardag. „Ég er búin að prófa æfingakjólinn og aðalkjóllinn er alveg að verða tilbúinn.“ En hvaða land heldur María að sigri í Eurovision?

„Ég hélt að Svíþjóð myndi vinna, en eftir að ég sá ástralska strákinn þá held ég að hann taki þetta. Hann er rosalega góður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.