Lífið

Fegurðar­drottning með gervi­augn­hára­línu

Guðrún Ansnes skrifar
Tanja Ýr segir augnhárin ekta mannshár og framleiðslan sé ekki prófuð á dýrum.
Tanja Ýr segir augnhárin ekta mannshár og framleiðslan sé ekki prófuð á dýrum. Vísir/Pjetur
Tanja Ýr Ástþórsdóttir, Ungfrú Ísland 2013, þjófstartaði gleðinni um liðna helgi er keppendur í Ungfrú Svíþjóð prufukeyrðu nýja gerviaugnháralínu Tönju, Tanja Lashes, við mikið lof keppenda.

Línan mun fara í sölu hérlendis í næstu viku, og lýkur þá níu mánaða ferli. „Sjálf nota ég alltaf gerviaugnhár og fannst vanta betra úrval hérna heima,“ segir Tanja.

„Þetta eru hundrað prósent mannshár og cruelty-free vörur,“ útskýrir Tanja, og bætir við að hún hafi alfarið séð um að hanna umbúðirnar.

„Ég var einmitt að keppa í Miss World þegar ég þurfti að fara að finna nöfn á vörurnar, og úr varð að ég nefni þær eftir vinkonum mínum í keppninni,“ segir Tanja og segir þær afar spenntar fyrir hennar hönd. Tanja segist ekki einblína á íslenskan markað, en hún komi til með að selja augnhárin á heimasíðu sinni fyrst til að byrja með.

„Ég mun koma með fleiri snyrtivörur á næstunni, en svo er algjört leyndarmál hvar þær verða svo seldar í framhaldinu,“ segir hún íbyggin.

Í nægu er því að snúast hjá þessari fegurstu konu landsins, sem segir draum sinn vera að verða að veruleika. „Mig hefur alltaf langað til að stofna mína vörulínu, ég bara vissi ekki alveg hver hún yrði,“ segir Tanja og skellir upp úr, enda gríðarlega spennt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.