Fastir pennar

Óheilbrigð sýn á heilbrigðiskerfið

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Íslendingar guma gjarnan af því að standa framar flestum öðrum þjóðum þegar kemur að samfélagsgerð. Vissulega gagnrýna margir ýmislegt sem betur má fara, en heilt yfir virðist sú skoðun ríkjandi að samfélagsgerðin okkar sé ein sú besta í heimi; besta ef við erum að tala við útlendinga.

Hrunið dró aðeins úr mesta þjóðrembingnum og eftirmálar þess einnig. Það er erfitt að loka augunum fyrir því að á sumum sviðum séum við eftirbátar annarra þjóða þegar fjölskyldur yfirgefa landið í stríðum straumum í leit að betra lífi í öðrum löndum.

Glöggt er gests augað, segir einhvers staðar, og þó okkur Íslendingum hætti til að taka aðeins mark á jákvæðri gagnrýni gestanna okkar, og fyrtast við ef þeir gera sér ekki grein fyrir snilldinni sem landið er, höfum við vonandi lært að hlusta á þá neikvæðu líka. Birgir Jakobsson landlæknir hefur dvalið langdvölum fjarri landinu ísa, en er nú í þeirri stöðu að geta metið heilbrigðiskerfið okkar betur en flestir aðrir. Birgir er í viðtali í Fréttablaðinu í dag og þar kemur ýmislegt athyglisvert fram.

„Ef ég lít á heilbrigðisþjónustuna eins og hún er í dag og áður en ég fór út árið 1978, þá eru raunveruleg vandamál heilbrigðisþjónustunnar hin sömu og þá. Við notuðum ekki einu sinni góðærið til að bæta lestina í íslenskri heilbrigðisþjónustu og gera hana eins góða og mögulegt er. Það er ekki skrítið að þar sem voru brestir fyrir kreppu eru enn áþreifanlegri brestir eftir kreppu,“ segir landlæknir.

Þetta grefur undan rökum þeirra sem hafa skrifað allt sem að heilbrigðiskerfinu má finna á blessað hrunið. Staðreyndin virðist vera sú að kerfið hefur verið fjársvelt árum og áratugum saman. Kerfið sem kemur okkur í þennan heim, lagar okkur og börn okkar þegar á þarf að halda og í einhverjum tilfellum fylgir okkur síðasta spölinn. Uppsveifla, niðursveifla eða algjört hrun efnahagslífsins hefur ekkert haft með það að gera að ekki er hægt að koma kerfinu í sómasamlegt horf.

Að einhverju leyti skrifast það á stefnuleysi. Mörg undanfarin ár hafa ráðamenn verið volgir fyrir aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það hefur hins vegar enginn þorað að sýna þá djörfung að boða einkavæðinguna, frekar hefur þanþol tungumálsins verið reynt með alls kyns frösum um aukinn einkarekstur eða annað álíka. Vilji menn opna á að einkaaðilar fái aðgang að heila gillemojinu er kannski bara best að segja það hreint út og þá er hægt að laga sig að því.

Það gengur nefnilega ekki lengur að láta kerfið drabbast niður. Gildir þá einu hvort það er gert með það í huga að niðurdrabbað kerfi sé betri rök fyrir aukinni einkavæðingu eða ekki. Ef ekkert verður að gert ættum við að hætta að sproksetja þá sem finna að íslensku samfélagi og taka frekar undir með Megasi:

„Við minnumst Ingólfs Arnarssonar í veislum, en óskum þess að skipið hans það hefði sokkið.“


Tengdar fréttir

Landlæknir: Gengið yfir þá sem minna mega sín

Birgi Jakobssyni landlækni kemur á óvart að sömu vandamál steðja að nú og þegar hann vann hér á landi sem barnalæknir árið 1988. Aðgerðaleysið er dýrkeypt. Hann ræðir um vandann og úrlausnirnar og hugmyndafræði frjálshyggjunnar sem gerir hann sorgmæddan.






×